Þröstur Ólafsson
Þröstur Ólafsson
Eftir Þröst Ólafsson: "Pólitískur arftaki gamla bændasamfélagsins var Framsóknarflokkurinn. Hann hélt á lofti og barðist fyrir kröfum þess um lokað, samkeppnislaust samfélag."

Það var í viðtali á Stöð 2 sem formaður Framsóknarflokksins sagði að andstaðan við ESB væri mjög djúpstæð í flokknum. Þetta rifjaði upp fyrir mér samtöl sem ég átti við föður minn fyrir margt löngu, en hann var framsóknarmaður, eins og margir Þingeyingar. Hann trúði því að eins konar búauðgisstefna væri sá grundvöllur sem þjóðin yrði að hafa að leiðarljósi. Þó hann hafi aldrei notað þetta hugtak, eða kunnað að gera því hagfræðileg skil, var lífshugsjón hans sú að landbúnaðurinn væri undirstaða afkomu og auðs í landinu. Voru foreldrar hans þó lengst af réttindalitlir, bláfátækir leiguliðar, sem hröktust á milli kotbýla síðari hluta ævi sinnar, en hann sjálfur sendur ellefu ára í óvægna vinnumennsku. Reynsla hans af landbúnaði var því ekki sú, að þessi atvinnugrein byði alþýðu bjargálna kjör. Þvert á móti. En trúin á landbúnaðinn var óbilandi og samofin lífssýn hans og menningu, þótt sjálfur væri hann ekki bóndi nema um tíu ár alls. Þau ár voru honum ekki gjöful. Síðan hef ég oft velt því fyrir mér hvernig svo erfiður gróður, sem íslenskur landbúnaður, gat skotið svo djúpum, óbifandi rótum í huga hans. Var það gróp sögunnar sem mótaði hann ómeðvitað eða ruglaði hann saman trú á landið og landbúnaðinn?

Gegn þróun samfélagsins

Landbúnaður hefur verið stundaður á Íslandi frá landnámi. Landbúnaðarframleiðslan var frá upphafi að miklu leyti byggð á rányrkju, ekki ræktun. Með tímanum tók jarðnæði að safnast á fárra hendur. Við það jókst fjöldi leiguliða sem vildu taka sér búsetu við sjávarsíðuna. Efnabændur óttuðust að þetta myndi draga vinnufólk úr landbúnaði og leiða til kauphækkana og bönnuðu með lögum. Bændasamfélagið íslenska var andstætt bæði verslun og viðskiptum og gerði sérhvert sveitaheimili að sjálfbjarga samfélagi. Landið sjálft átti að fullnægja þörfum þjóðarinnar. Ráðandi stéttir gerðu síðan þær ráðstafanir sem dugðu til að halda þjóðinni á sjálfsþurftarstigi allt fram á síðari hluta nítjándu aldar. Kúgun vinnuhjúa og ánauð leiguliða var eitt megineinkenni samfélags miðalda. Hér var þessi hluti ánauðugra allsleysingja stærri og stóð mun lengur.

Lokað þjóðfélag

Barátta bænda gegn þurrabúðarfólki stóð allt fram á síðari hluta 19. aldar. Þróun þjóðfélagsins til fjölbreyttari lifnaðarhátta og ræktunar samfélags var stöðvuð. Íslenskir efnabændur lokuðu samfélaginu bæði inn á við sem út á við. Þeir vildu ekki deila með öðrum. Það var þessi innri lokun samfélagsins sem leiddi til örbirgðar og kúgunar íslenskrar alþýðu um aldir. Þróunarkraftur samfélagsins var drepinn með lögbundinni einokun efnabænda, ekki með boðum frá Kaupmannahöfn. Útflutningsvörur okkar urðu einhæfar og féllu í verði, aðgangur að mörkuðum þrengdist og samgöngur urðu strjálli. Landið lokaðist og einangraðist frá öðrum þjóðum. Íslenskir embættismenn gengu af fádæma hörku fram í að fá ógæfufólk og snærisþjófa dæmda til hörðustu vistar á Brimarhólmi eða til aftöku. Efnabændur töldu það þjóna hagsmunum sínum. Engan óróa, enga samkeppni, hvorki að utan né innanfrá. Þetta var sú samfélagsumgjörð sem Íslendingar vöndust og ólust upp við. Þýskættuð rómantík lýsti síðan upp dimmar aldir með skírskotun til fornaldar – „undu svo glaðir við sitt“.

Pólitískar rætur miðaldasamfélagsins

Segja má að þetta hafi verið sú samfélagssýn sem Íslendingar fengu í arf við upphaf tuttugustu aldar. Svo rótgróin var hagsmunagæsla efnabænda, að vistarbandið og lögin um bann við frjálsri búsetu voru aldrei afnumin að fullu. Þegar fram komu á Alþingi árið 1907 frumvörp um afnám laganna, fengu þingmenn í hnén og kiknuðu fyrir ofurvaldi efnabænda og breyttu frumvörpunum þannig að bannið var ekki afnumið. Það var ekki í síðasta skiptið sem þingmenn kiknuðu undan þrýstingi bænda og samtaka þeirra. Vonandi er Ísland eina landið í Evrópu, þar sem enn eru í gildi lög sem banna frjálsa búsetu. Við Íslendingar höfum aldrei gert upp þessa dimmu kafla í sögu okkar, þar sem ofbeldið og kúgunin komu innanfrá. Við ýttum þeim hvimleiðu köflum yfir á Dani, hnikuðum sögunni til, og gerðum þetta að aflvaka í sjálfstæðisbaráttunni. Pólitískur arftaki gamla lokaða bændasamfélagsins var Framsóknarflokkurinn. Hann hélt á lofti og barðist fyrir kröfum þess um lokað, samkeppnislaust samfélag. Hann lagðist gegn tillögum um að opna samfélagið. Einokunarframleiðsla landbúnaðarvara og innflutningsbann eru skilgetin afkvæmi átjándu aldar samfélags. Hvort heldur sem var samningur um EFTA eða EES, alltaf var flokkurinn andvígur opnun til frjálsari viðskipta. Það er því engin ástæða til að bera brigður á þau orð formanns Framsóknarflokksins að djúpstæð andstaða sé í flokknum gegn ESB. Annað væri í andstöðu við rætur hans.

Höfundur er hagfræðingur.