Lögreglan Alls voru skráð 78.216 afbrot um allt land á síðasta ári.
Lögreglan Alls voru skráð 78.216 afbrot um allt land á síðasta ári. — Morgunblaðið/Júlíus
Lögreglu hér á landi var tilkynnt um 735 kynferðisbrot á árinu 2013. Er það gríðarleg fjölgun milli ára, eða 107,2%. Hegningarlagabrotum fækkaði hins vegar frá fyrra ári og hefur stöðug fækkun verið frá árinu 2009.

Lögreglu hér á landi var tilkynnt um 735 kynferðisbrot á árinu 2013. Er það gríðarleg fjölgun milli ára, eða 107,2%.

Hegningarlagabrotum fækkaði hins vegar frá fyrra ári og hefur stöðug fækkun verið frá árinu 2009. Sérrefsilagabrotum hefur farið fjölgandi á sama tíma.

Þetta kemur fram í bráðabirgðatölum ríkislögreglustjóra fyrir árið 2013. Þar kemur einnig fram að alls voru skráð 78.216 afbrot á síðasta ári.

Auðgunarbrotum fækkaði um 18% árið 2013 miðað við árið 2012. Þjófnaðir og innbrot voru 86% allra auðgunarbrota sem er svipað og síðustu ár en skráðir voru 4.116 þjófnaðir og 1101 innbrot. Þjófnaði og innbrotum hefur farið fækkandi frá árinu 2009.

Fíkniefnamálum fjölgar

Þegar litið er til samanburðar á fjölda brota árið 2013 miðað við meðaltal áranna 2010 til 2012 má sjá að fíkniefnabrotum hefur farið fjölgandi. Mikil fjölgun hefur verið á innflutningsmálum og brotum sem varða vörslu og meðferð fíkniefna en fækkun hefur orðið á brotum sem varða sölu og framleiðslu fíkniefna.

Meðal annars var lagt hald á mikið magn af kannabisplöntum, rúm 47,5 kíló, rúm 34 kíló af amfetamíni og 33 kíló af maríjúana.