Verslun Lífið í Fallujah komst að einhverju leyti í hefðbundnar skorður í gær og verslanir sumar opnaðar aftur. Al-Qaeda-liðar ráða þar enn ríkjum.
Verslun Lífið í Fallujah komst að einhverju leyti í hefðbundnar skorður í gær og verslanir sumar opnaðar aftur. Al-Qaeda-liðar ráða þar enn ríkjum. — AFP
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, er sigurviss í aðdraganda meiriháttar hernaðaraðgerða sem íraski herinn undirbýr nú til þess að ráða niðurlögum uppreisnar al-Qaeda-liða í borginni Fallujah.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Forsætisráðherra Íraks, Nuri al-Maliki, er sigurviss í aðdraganda meiriháttar hernaðaraðgerða sem íraski herinn undirbýr nú til þess að ráða niðurlögum uppreisnar al-Qaeda-liða í borginni Fallujah. Herskáir súnnítar náðu borginni á sitt vald um helgina en það er í fyrsta skipti frá því að síðara Íraksstríðið hófst með innrás Bandaríkjahers árið 2003 sem uppreisnarmenn ráða stórum borgum í landinu.

Í sjónvarpsávarpi í gær þakkaði Maliki alþjóðasamfélaginu fyrir stuðninginn í baráttunni gegn al-Qaeda um leið og hann hvatti uppreisnarmenn til að leggja niður vopn. Bandarísk stjórnvöld hétu því fyrr í vikunni að þau myndu senda vopnabúnað með hraði til landsins, þar á meðal eldflaugar og dreka (e. drone ). Þau hafa hins vegar útilokað að senda hermenn aftur til landsins.

Rauði hálfmáninn í Írak greindi frá því í gær að um 13.000 fjölskyldur hefðu flúið Fallujah undanfarna daga í kjölfar átaka á milli al-Qaeda-liða og öryggissveita. Flestir hefðust við í skólum, öðrum opinberum byggingum eða hjá ættingjum sínum.

Stærsta orrustan frá Víetnam

Fall Fallujah hefur valdið bandarískum uppgjafahermönnum og stjórnmálamönnum hugarangri en borgin var vettvangur einhverra hörðustu skæra stríðsins á sínum tíma.

Átök hófust þar í apríl 2004 í kjölfar þess að fjórir verktakar Blackwater-öryggisfyrirtækisins voru myrtir og illa leikin lík tveggja annarra voru hengd til sýnis af brú yfir Efratfljót.

Sjö mánuðum síðar hófst gríðarlega umsvifamikil aðgerð bandarískra hermanna sem gengu hús úr húsi til að leita uppi uppreisnarmenn. Þeim aðgerðum hefur verið lýst sem mestu hernaðaraðgerðum bandarískra landgönguliða í borgarumhverfi frá bardaganum í Hue í Víetnam árið 1968.

„Þessir ungu landgönguliðar, 19 ára gamlir, fóru í sérhverja byggingu og herbergi í Fallujah. Þeir fóru inn í dimm herbergi, spörkuðu niður hurðir án þess að vita fyrirfram hvort þeir fyndu íraska fjölskyldu á hækjum sér eða íslamskan hryðjuverkamann sem beið þess að skjóta þá og drepa. Þetta gerðu þeir aftur og aftur,“ segir sagnfræðingurinn Richard Lowry við AP -fréttaveituna bandarísku.

Því er ekki laust við að þróun mála nú valdi þeim sem kostuðu miklu til að ná valdi á borginni vonbrigðum og að þeir spyrji sig hvort fórn þeirra hafi verið til einskis.

„Ég sé þetta ekki sem skipbrot allra aðgerða okkar... ennþá. Þetta er bara einn vígvöllur, ein borg af mörgum þar sem bardagar hafa geisað frá 2003. Það er vegna þess að við höfum upphafið þessa orrustu svo mikið að fyrir okkur Bandaríkjamönnum verður þetta að glötuðum málstað, Víetnamheilkenninu,“ segir Earl J. Catagnus jr., sem særðist í átökum í Fallujah og kennir nú við herskóla, við AP .