Snjallsími Þróun nýrra appa er flókin og fá þeirra njóta hylli.
Snjallsími Þróun nýrra appa er flókin og fá þeirra njóta hylli. — Morgunblaðið/Ernir
Viðar Guðjónsson vidar@mbl.is Því fer fjarri að margir leggi fyrir sig þróun appa á Íslandi þrátt fyrir góðan árangur leikjafyrirtækisins Plain Vanilla.

Viðar Guðjónsson

vidar@mbl.is

Því fer fjarri að margir leggi fyrir sig þróun appa á Íslandi þrátt fyrir góðan árangur leikjafyrirtækisins Plain Vanilla. Ástæðan er sú að þróun og hönnun þeirra er flókin, auk þess sem tiltölulega lítill hluti appanna slær í gegn.

Eins og fram hefur komið setti hugbúnaðarfyrirtækið Plain Vanilla nýlega á markað leikinn Quizup og er óhætt að segja að hann hafi slegið í gegn og er fyrirtækið nú milljarða króna virði. Að sögn Helga Pjeturs Jóhannssonar eiganda hugbúnaðarfyrirtækisins Stokks eru sex fyrirtæki á Íslandi sem vinna að þróun appa. Fjögur þeirra, Stokkur, Advania, Gangverk og Ýmir Mobile, einbeita sér að mestu að þjónustuöppum fyrir fyrirtæki. Plain Vanilla og Fancy Pants Global þróa hins vegar leikjaöpp. „Þetta er flókin hugbúnaðarþróun. Sértaklega þegar hannað er bæði fyrir android stýrikerfi og apple stýrikerfi sem er algjörlega sitt hvor hluturinn,“ segir Helgi.

Hann segir afar lítið um að einstaklingar vinni að þróun nýrra appa. „Við framleiðslu apps þá þarf tilgangurinn að vera algjörlega nýr og skírskota til stórs hóps ef það á að ná vinsældum,“ segir Helgi.

Jóhann Malmquist, prófessor í tölvunarfræði við Háskóla Íslands, er annar tveggja hugverkamanna að baki þróun apps sem er gítarstillir og hljómabók og nefnist Tunerfic. Þann 19 ágúst höfðu yfir milljón manns í 202 löndum hlaðið niður appinu sem er eingöngu fyrir notendur Nokia. Að sögn hans hafa 493 Nokia-öpp náð yfir milljón notendum af um 120 þúsundum komið hafa á markað.Tunerific kom á markað árið 2008. Hann segir erfitt að ná hylli notenda. „Ef gæðin eru mikil þá eigum við alveg möguleika. Það er ekkert endilegt að öppin slái í gegn þó gæðin séu í lagi. En þú nærð ekki í gegn nema að reyna,“ segir Jóhann.

Gullmolar inni á milli

Jóhann lagði fyrir nemendur á fyrsta ári í tölvunarfræði frumkvöðlaverkefni í fyrsta skipti nú á haustönn. Þar settu nemendur fram hugmynd að appi sem skilaði tæplega 100 tillögum. „Þarna eru gullmolar inni á milli, en það þarf samvinnu fleiri en eins aðila til þess að koma slíku á framfæri. Tölvunörd úti í horni er ólíklegt til að ná í gegn. Þú þarft einnig þá sem geta gert þetta fallegt, t.d. grafíska hönnuði, og þá sem geta sett fram texta um appið. Einnig þarf að gjörprófa það áður en það fer á markað,“ segir Jóhann.