— Morgunblaðið/Kristinn
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Fólk bæði hátt og lágt í skipuriti fyrirtækisins getur hagnast á reglulegri sí- og endurmenntun • Það er ekki bara fyrir þá hámenntuðu að halda sér við • Aðsókn í námið hjá Endurmenntun Háskólans að aukast á ný eftir samdráttarskeið sem hófst með efnahagshruninu

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Kristín Jónsdótir Njarðvík segir ekki fara milli mála hversu miklu skiptir að huga vel að endur- og símenntun. Það varði ekki aðeins fagfólkið sjálft og fyrirtækin heldur geti haft áhrif á það hvernig hagkerfinu öllu reiðir af hversu duglegir landsmenn eru að sækja sér ferska og vandaða þekkingu á sínu sviði.

Kristín er endurmenntunarstjóri Háskóla Íslands. Hún segir að dregið hafi töluvert úr aðsókn fagfólks í símenntun strax í kjölfar hrunsins margumtalaða en tölurnar fari nú hratt batnandi á ný. „Það er núna fyrst að við sjáum sambærilega þátttöku í námskeiðum og var á árum áður. Áberandi undantekning er heilbrgiðisstéttin, sem enn sækir hlutfallslega lítið í starfstengda símenntun. Kannski segir það sína sögu, og varpar ljósi á þróunina að hluta, að heilbrigðisstarfsmenn leita í dag einkum í námskeiðið Hagnýt norska fyrir heilbrigðisstarfsfólk ,“ útskýrir Kristín en Endurmenntun hefur á sinni könnu endurmenntunarnámskeið fyrir flestar sérfræðimenntaðar stéttir til viðbótar við almenn námskeið af öllum toga fyrir almenning.

Hvað er það sem vantar?

Það er að töluverðum hluta í verkahring stjórnandans að leggja línurnar í símenntun starfsmanna sinna. Kristín segir gott að byrja á að skoða hvert á að stefna með reksturinn: „Á að fara inn á ný svið eða nýja markaði? Er rétta þekkingin fyrir hendi innan fyrirtækisins til að takast á við þær áskoranir sem von er á? Væri gagn að því að skerpa á og rifja upp þá þekkingu sem þegar er fyrir hendi hjá starfsmönnum? Með þessu er oft strax hægt að fá allgóða mynd af hvað ætti að hafa forgang í símenntunaráætlun vinnustaðarins.“

Kristín segir vinnustaðagreiningar og aðkomu sérfróðra ráðgjafa líka getað varpað skýru ljósi á það hvar skórinn kreppir. Endurmenntun býður samstarfsfyrirtækjum sínum að gera kannanir á þörf fyrir fræðslu og um langt skeið hefur verið í boði að sérsníða námskeið fyrir hópa innan fyrirtækja. „Á mörgum vinnustöðum er það hluti af árlegum starfsmannasamtölum að starfsmaðurinn hugi að sínum persónulegu markmiðum og símenntunaráætlun, um leið með hliðsjón af þeim verkefnum sem von er á að fyrirtækið sem heild þurfi að takast á við.“

Einnig minnir Kristín á að símenntun á að vera hluti af öllum störfum. Það sé ekki bara fyrir hámenntað fólk og stjórnendur að sækja sér nýja þekkingu og þjálfun heldur sé ávinningur af menntuninni jafnt í hæstu og lægstu stöðum. „Það er rétt að þeir sem hafa mestu menntunina eru duglegastir að sækja sér endurmenntun enda störf þeirra yfirleitt þess eðlis að þau gera mikla kröfu um endurnýjun þekkingar. En þar með er ekki sagt að fólk með minni menntun, og ófaglærðir þar á meðal, þurfi síður símenntun. Bæði er þekkingin til þess fallin, ef rétta námskeiðið er valið, að nýtast vel á vinnustaðnum en það verða líka oft ákveðnir galdrar við það eitt að starfsmenn sæki námskeið; þeir fyllast nýju kappi og metnaði og eflast í starfi.“

Hafa það fyrir reglu að fara á námskeið

Þeir sem taka sig alvarlega sem fagmanneskjur gæta þess vandlega að símenntunin sitji ekki á hakanum. Er jú varla hægt að finna það starf í dag þar sem ekki er einhver þörf á regulegum námskeiðum og fræðslu.

Um leið er ekki hægt að neita því að það getur verið auðvelt að láta símenntunina mæta afgangi, og slá því stöðugt á frest að setjast aftur á skólabekk. Lífið þvælist fyrir, með öllum sínum löngu vinnudögum, heimilishaldi, uppeldi og alltof fáum makindastundum. Er nema von að það sé látið bíða að fara á námskeið.

„Fólk reynir að yfirstíga þennan vanda með ýmsum ráðum. Sumir hafa það einfaldlega fyrir fasta reglu að fara í byrjun hvers misseris, eða hvers skólaárs, yfir námskeiðaúrvalið og velja sér þar a.m.k. einn áhugaverðan kúrs. Endurmenntun reynir líka að skipuleggja námskeið fyrir fagfólk á vinnutíma svo að námið verður hluti af vinnudeginum frekar en að saxa á frítíma fjölskyldunnar.“

Kristín segir það líka geta verið sterkan hvata að setjast einfaldlega niður og leggjast í smánaflaskoðun: „Hvað langar mig að gera? Hvar þarf ég að bæta mig? Hvert er atvinnumarkaðurinn að stefna og hvaða þekkingu skortir mig sem gæti gert mig að verðmætari og eftirsóttari starfskrafti?“