Hellisheiðarvirkjun Árið 2013 var margfalt metár í hitaveitunni hjá Orkuveitu Reykjavíkur.
Hellisheiðarvirkjun Árið 2013 var margfalt metár í hitaveitunni hjá Orkuveitu Reykjavíkur. — Morgunblaðið/Sigurður Bogi
Árið 2013 mun fara í bækur Orkuveitu Reykjavíkur sem margfalt metár í hitaveiturekstrinum.

Árið 2013 mun fara í bækur Orkuveitu Reykjavíkur sem margfalt metár í hitaveiturekstrinum. Í fréttatilkynningu frá Orkuveitunni kemur fram að heitavatnsnotkun á ári hafi aldrei verið meiri en á síðasta ári og að aldrei hafi mánaðarnotkun verið meiri en í desember. Árið 2013 notaði fólk og fyrirtæki á höfuðborgarsvæðinu um 78 milljónir rúmmetra af heitu vatni.

Í tilkynningunni kemur fram að um kvöldmatarleytið 6. desember síðastliðinn hafi verið slegið met frá árinu 2008, þegar klukkustundarrennsli um hitaveituæðarnar á höfuðborgarsvæðinu nam 16.087 rúmmetrum á klukkustund, sem gera um 270 rúmmetra á mínútu, og nemur það meðalrennsli í Elliðaánum. Í tilkynningunni er vakin athygli á því að aflið sem fólst í þessum 16.000 rúmmetrum svari til liðlega 930 megavatta, en til samanburðar megi nefna að afl tveggja stærstu vatnsaflsvirkjanna landsins nemi samanlagt um 960 megavöttum, þar af séu um 690 MW í Kárahnjúkavirkjun og 270 MW í Búrfellsvirkjun.

Í tilkynningunni segir að nærtækustu skýringuna á metárinu sé að finna í veðurfarsyfirliti Veðurstofu Íslands. Sumarið hafi verið óhagstætt á landinu sunnan- og vestanverðu, auk þess sem kuldaköst í apríl og desember, ásamt þrálátri úrkomu í ágúst og umhleypingum í nóvember hafi einnig komið til. Um 90% af heita vatninu eru nýtt til húshitunar, og eru því tengslin á milli lofthita og heitavatnsnotkunar mikil. sgs@mbl.is