Jóhanna Sigurbjörg Aðalsteinsdóttir, Nanna eins og hún var kölluð, fæddist á Vígholtsstöðum í Dalasýslu 20. maí 1931. Hún lést á dvalarheimilinu Grund 30. desember 2013.

Foreldrar hennar voru Steinunn Vilhelmína Sigurðardóttir, f. 11.5. 1884, d. 21.9. 1973 og Aðalsteinn Guðmundsson, f. 10.4. 1890, d. 14.4. 1961. Alsystur Nönnu eru Margrét Valgerður Aðalsteinsdóttir, f. 12.12. 1922, d. 28. 4. 2012 og Sigríður Helga Aðalsteinsdóttir, f. 16.2. 1927. Hálfsystkini sammæðra eru Sigurður Guðmundsson, f. 15.11. 1904, d. 14.10. 1976, Guðmundur Guðmundsson, f. 6.1. 1906, d. 6.12. 1977, Ásgeir Helgi Guðmundsson, f. 27.12. 1907, d. 23.4. 1989, Jóhann Þórarinn Guðmundsson, f. 8.1. 1911, d. 30.10. 1929 og Guðrún Guðmundsdóttir, f.29.5. 1917, d. 19.8. 1986. Eiginmaður Nönnu var Jón Símon Magnússon frá Siglufirði, f. 15.8. 1931, d. 26.8. 1996. Þau giftust 26.5. 1958 og voru barnlaus.

Nanna ólst upp á Vígholtsstöðum til 8 ára aldurs, þá flutti fjölskyldan í Búðardal. Eftir barnaskólanám vann hún við heimilisstörf í Búðardal og víðar.

Um tvítugt flutti hún til Reykjavíkur, þar vann hún ýmis störf, lengi við fiskvinnslu en síðast í mötuneyti starfsmanna Skeljungs.

Við andlát föður hennar bjó móðir hennar hjá þeim hjónum og naut umönnunar þeirra til dánardags. Síðustu árin bjó hún á dvalar- og hjúkrunarheimilinu Grund, áður að Fellsmúla 2.

Útför Nönnu fer fram frá Áskirkju í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Hve ljúft og gott að sofna í sælli trú

á sigur þess er firrir lífið grandi.

Ég veit að einmitt þannig kvaddir þú

- þín þrá var eins og morgunn yfir landi.

Og ég sé best í húmi haustsins nú

hve heiðríkur og fagur var þinn andi.

Þitt orð var heitt – því hjartað sló þar með

sem harpa stillt á gleði allra tíða.

Í bliki augans bjó þitt mikla geð

og brann af kvöl með öllum þeim sem líða.

Og þinni ást það yfirbragð var léð

sem Íslands bestu dætur þykir prýða.

Ég kveð þig eins og frjálsa söngva sveit

á sumardaginn fyrsta úti í haga.

Hvert vorsins fuglar fljúga enginn veit

- en framtíðin er þeirra mikla saga.

Þú bæði komst og fórst sem fyrirheit

og fyrirheitið lifir alla daga

(Jóhannes úr Kötlum)

Takk fyrir samfylgdina, elsku Nanna. Þínar frænkur,

Nanna Margrét

og Rósa Björg.

Það eru margar minningar sem streyma fram þegar ég hugsa til Nönnu frænku.

Hún var yngsta systir pabba og var flutt til Reykjavíkur þegar ég man hana fyrst. Seinna flutti ég í nágrenni við hana og Jón en þá bjó amma mín hjá þeim og naut þeirra hlýju umhyggju sín síðustu ár. Ég var tíður gestur á þeirra heimili og til þeirra var gott að leita, þar var öryggi og skjól. Þau voru samrýmd hjón, ferðuðust saman um landið á sumrin og áttu sameiginlegt áhugamál sem var að spila, þau spiluðu félagsvist á ýmsum stöðum og við vini heima.

Það var mikið áfall fyrir Nönnu við skyndilegt fráfall Jóns árið 1996, en hún gekk áfram sinn veg og þá var gott að stunda félagsvist og hitta samferðafólk og vini. En svo kom að því að heilsu hennar tók að hraka, það varð erfiðara að takast á við daglegt líf og í maí árið 2009 flutti hún á dvalarheimilið Grund. Ég vil þakka öllu starfsfólki sem annaðist hana þar.

Nanna kvaddi þetta líf 30. desember, orðin þreytt og þráði hvíldina. Ég kveð hana frænku mína þakklát fyrir allar góðu stundirnar í gegnum árin.

Steinunn Sigurðardóttir.

Hugurinn reikar til bernskuáranna, er ég sá þig fyrst, tíu ára að aldri. Þú, Nanna mín, eins og þú varst jafnan kölluð, varst þá ráðskona í Keflavík fyrir sjómenn er þaðan réru og þangað fór ég í páskaleyfi mínu að heimsækja föður minn er þar starfaði. Það var mikið lán fyrir þig að þar kynntust þið Jón Magnússon er varð síðar eiginmaður þinn.

Þið reistuð ykkar fyrsta bú að Skipasundi 13 hjá foreldrum mínum. Allt frá þeirri tíð á ég margar góðar og skemmtilegar minningar er nú leita á hugann. Minningar um góða konu lifa áfram í hjörtum okkar er þekktum þig og unnum sem og þíns ágæta manns. Þú varst ljúf, hlý, glaðleg í fasi og rösk til allra verka. Eftir var tekið hversu glæsileg hjón þið Jón voruð. Heimilið var ykkar griðastaður þangað var gott að koma en þið bjugguð lengst að Fellsmúla 2 í Reykjavík. Þar ríkti snyrtimennska, fágun, glaðværð og hjartahlýja húsráðenda beggja. Ég vil einnig þakka þér, Nanna mín, og þínum ágæta manni fyrir vináttu og ræktarsemi er aldrei bar skugga á, sem og til foreldra minna.

Umhyggja og hjálpsemi ykkar í minn garð, barns að aldri, gleymist eigi, né góðvild og þolinmæði að hlusta á og trúa litlum snáða. Eins þökk fyrir spilamennskuna og allar skemmtilegu stundirnar er við áttum saman við spilaborðið gegnum árin.

Lífið gengur sinn vanagang, menn koma og fara, en sumir eru birtugjafar hlaðnir einhverju dularfullu ljósmagni sem yljar og gleður alla er umgangast þá. Þú barst slíkt með þér hvert sem leið þín lá. Boðberi er skærast skín.

Nú ertu horfin sjónum okkar yfir móðuna miklu. Farin til Jóns þíns og þinna niðja, þangað sem allir hverfa fyrr eða síðar.

Ljósgeisli augna þinna er slokknaður. En megi það ljós er þú tendraðir í brjóstum vina þinna og samferðamanna verða að gróðursprota fyrir betra lífi á þessari jörð. Kær vinkona er kvödd og verður minnst dag hvern með þakklæti og virðingu.

Systur þinni Sigríði og öðrum aðstandendum öllum sendum við Helga okkar innilegustu samúðarkveðjur. Hún á góða heimkomu vísa. Hvíl í friði, mæta vinkona.

Þinn vinur,

Eyjólfur Magnússon

Scheving.