Friðrik Steingrímsson sendi jóla- og áramótakveðju 28. desember kl 16.08: Yfir flest má finna nöfn fátt þá hugsun þvingar, við sköpun vísna skilja jöfn skáld og hagyrðingar.

Friðrik Steingrímsson sendi jóla- og áramótakveðju 28. desember kl 16.08:

Yfir flest má finna nöfn

fátt þá hugsun þvingar,

við sköpun vísna skilja jöfn

skáld og hagyrðingar.

Tilefni þessarar vísu voru vangaveltur á Leirnum um muninn á þessu tvennu, skáldi og hagyrðingi. 11 mínútum síðar kvaddi Kristbjörg Freydís Steingrímsdóttir sér hljóðs og hafði orð á því að margir væru að kljást við kvef og hita:

Þörf er á hlýjum verndar væng

ef veikindi sækja að.

Jólunum eyddi ég undir sæng,

ekki meira um það.

Hún sagðist mjög hrifin af fallega ljóðinu hans Björns Ingólfssonar á Leirnum og bíða í ofvæni eftir ljóðabók. Skáld eða hagyrðingur, – það væri spuningin um að vinna úr þeim hæfileikum sem hver og einn fengi í vöggugjöf og þá kæmi sér Björn í hug:

Ekki er sama hver ávaxtar fenginn

eða hver gígjuna slær,

þegar Björn hreyfir hörpustrenginn

er hljómurinn ávallt tær.

Kristbjörg sagðist trúa því sem faðir hennar, Steingrímur Baldvinsson í Nesi, hefði sagt: Að yrkja vel er 10% hæfileikar. 90% æfing. Hann gaf börnunum sínum þetta veganesti:

Leggðu þig fram það er lífsins boð

lítil að náminu er þér stoð

ef kappið ei hugann hvetur.

Hvort há eða lág þín einkunn er

alltaf er prófið til sæmdar þér

ef þú gerir eins vel og þú getur.

Og rúmlega klukkutíma síðar lét Friðrik aftur til sín heyra:

Þegar hæstum hæðum ná

hugverk snillinganna

virðist stundum örla á

öfund sumra manna.

Og um kvöldið skrifaði Ágúst Marinósson á Leirinn: Alveg sammála föður þínum og þér, Kristbjörg. Góðan bata. Fékk Árleysið hans Bjarka líka og hef verið að lesa mér til ánægju:

Um kverið eftir Bjarka bað

bók sem hefur vægi.

Um kallinn sem var alltaf að

álpast suður á bæi.

Halldór Blöndal

halldorblondal@simnet.is