Kokkur Sveinn Kjartansson eldar girnilegan fisk á RÚV.
Kokkur Sveinn Kjartansson eldar girnilegan fisk á RÚV. — Morgunblaðið/Ómar
RÚV hefur staðið sig býsna vel við að sinna hinum fjölmörgu matgæðingum sem landið byggja. Fyrir utan ýmsa vandaða erlenda matreiðsluþætti eru þar yfirleitt í gangi innlendir þættir af því taginu og sá nýjasti , Fisk í dag , hóf göngu sína á mánudaginn.

RÚV hefur staðið sig býsna vel við að sinna hinum fjölmörgu matgæðingum sem landið byggja. Fyrir utan ýmsa vandaða erlenda matreiðsluþætti eru þar yfirleitt í gangi innlendir þættir af því taginu og sá nýjasti , Fisk í dag , hóf göngu sína á mánudaginn. Þetta eru stuttir þættir og eru hluti af herferð á vegum Matís sem er ætlað að gera fólk meðvitaðra um hversu hollt og gott sé að neyta fisks.

Þar er í eldhúsi Sveinn Kjartansson og á mánudaginn naut hann fulltingis ungs aðstoðarkokks. Þau elduðu ýsu í pítubrauði sem leit býsna vel út.

Sveinn hefur áður verið mærður í Ljósvaka fyrir framgöngu sína í matreiðsluþáttum og svo verður einnig nú. Áreynslulaus framkoma hans er í hrópandi mótvægi við suma uppstrílaða og tilgerðarlega kollega hans sem strunsa um í útúrhönnuðum eldhúsum þar sem allt frá eldhúsrúllu að eldhústækjum er sérhannað. Venjulegt fólk langar ekkert til að borða mat sem svoleiðis lið ber á borð, hvað þá setjast að snæðingi með því. Sveinn virkar aftur á móti býsna skemmtilegur borðfélagi og svo endar hann þáttinn á þessum upplífgandi orðum: „Svona einfalt er þetta.“

Anna Lilja Þórisdóttir

Höf.: Anna Lilja Þórisdóttir