Jón Gnarr ruglaði marga í ríminu með innkomu sinni í borgarmálin. Engir urðu þó jafnráðþrota og sjálfstæðismenn sem fannst þeir vera að horfa upp á borgarbúa glata skynseminni.

Jón Gnarr ruglaði marga í ríminu með innkomu sinni í borgarmálin. Engir urðu þó jafnráðþrota og sjálfstæðismenn sem fannst þeir vera að horfa upp á borgarbúa glata skynseminni. Nú hyggst Jón Gnarr hætta pólitískum afskiptum og sjálfstæðismenn andvarpa feginsamlega. Þó eru þeir enn ráðþrota því ekkert bendir til þess að borgarbúar muni sjá að sér og veita hægrisinnuðum borgaralegum öflum atkvæði sitt. Nei, borgarbúar virðast einfaldlega ansi hrifnir af arfleifð Jóns Gnarrs og því líklegir til að kjósa aðstoðarmann hans og Bjarta framtíð í næstu borgarstjórnarkosningum. Sjálfstæðismenn botna ekkert í borgarbúum. Þeir telja sig sífellt vera að reyna að koma vitinu fyrir Reykvíkinga en komast ekkert áleiðis.

Í fylgisleysinu beina einhverjir sjálfstæðismenn spjótum sínum að forystumanni Sjálfstæðisflokksins, Halldóri Halldórssyni, þeim væna manni, sem hefur unnið það sér til óhelgi hjá ákveðnum harðlínukjarna að vera frjálslyndur og Evrópusinnaður. Okkur vinum Evrópusambandsins finnst Halldór mikill fyrirmyndarmaður í pólitík og skiljum ekki ólundina í hans garð. En við skiljum náttúrlega ekki allt og síst af öllu þankagang allra deilda innan Sjálstæðisflokksins.

Sennilega myndi litlu sem engu skipta fyrir sjálfstæðismenn hver væri foringi þeirra í borginni. Það virðist einfaldlega vera ríkjandi ákveðið stemningsleysi meðal borgarbúa þegar borgarstjórnarflokkur sjálfstæðismanna á í hlut og ekki er ljóst fyrir hvaða baráttumál flokkurinn stendur. Þá er ekki lokkandi tilhugsun að ljá flokknum atkvæði sitt.

Stór hluti sjálfstæðismanna skilur ekki enn af hverju borgarbúar kusu Jón Gnarr. Í augum þessa hóps mun Jón Gnarr ætíð verða trúður sem átti ekkert erindi inn í íslensk stjórnmál. Þessum hópi finnst að borgarstjórinn í Reykjavík eigi að vera settlegur embættismaður sem þylur tölur fyrir framan sjónvarpsvélar. Jón Gnarr var aldrei þannig borgarstjóri. Hann var mannlegur og hlýr, skapandi og frumlegur. Þess vegna tengdu borgarbúar við hann.

Þvert á allar hrakspár um þær skelfingar sem myndu dynja yfir borg og borgarbúa þegar listamönnum væri hleypt lausum við stjórn borgarinnar stóð Besti flokkurinn sig vel. Þetta var ekki þumbaralegur stofnanaflokkur heldur hreyfing skapandi fólks sem lagði sig fram við að vanda sig. Vissulega gerði það sín mistök, en það var reiðubúið að læra og bæta sig. Besti flokkurinn var tilraun sem tókst.

Sjálfstæðismenn munu örugglega halda áfram að líta á Jón Gnarr sem trúð sem átti ekkert erindi í stjórnmálin en um leið eru þeir blýfastir í einstrengingslegri pólitík sem er löngu hætt að heilla kjósendur. Kjósendur vilja skapandi stjórnmálamenn sem afneita ekki mannlega þættinum, hvorki í lífinu sjálfu né í pólitíkinni. kolbrun@mbl.is

Kolbrún Bergþórsdóttir

Höf.: Kolbrún Bergþórsdóttir