Þorvarður Þorvarðarson fæddist 24.7. 1927 í Hafnarfirði. Hann lést á hjúkrunarheimilinu Eir sunudaginn 29.12. 2013.

Útför Þorvarðar fór fram frá Grensáskirkju 7. janúar 2014.

Hér kveð ég afa minn sem var mér ofsalega kær.

Þorvarður Þorvarðarson lést á hjúkrunarheimilinu Eir sunnudaginn 29.12. 2013.

Afi var búinn að búa á Eir og Eirborgum frá því að hann seldi Brekkugerði 19, árið 2012. Afi byggði sér og sinni fjölskyldu fallegt heimili að Brekkugerði í Reykjavík þar sem hann bjó í 50 ár. Helsta áhugamálið hjá afa var frístundabúskapur. Hann keypti jörðina Hellu á Fellsströnd árið 1970 og stundaði þar frístundabúskap með 175 fjár á fóðrum og nokkra hesta.

Afi var forstjóri Stjörnubíós á sínum tíma ásamt að vera í fasteignabraski sem hann sagði að væri sinn lífeyrissjóður og svo margt annað sem hann tók sér fyrir hendur. Afi var mikill dugnaðarforkur og var alltaf að vinna öllum stundum. Öllum sínum frítíma varði hann annað hvort á Hellu að sinna sínum bússkap eða að dytta að þeim fasteignum sem hann var með í útleigu.

Afi var sannkallaður þúsundþjalasmiður það var sama hvort það var að taka upp vélina í jeppanum, sjóða brotna öxla, múrverk, skipta um þak á húsinu, pípulagnir, trésmíði, alltaf reddaði afi málunum sjálfur og var tilbúinn að hjálpa öðrum þegar til hans var leitað. Það var ekki furða að ég sem strákur væri svo heillaður af þessum manni sem allt gat gert og varð hann fljótt mín fyrirmynd. Vissi ég ekkert skemmtilegra en að vera með afa að bardúsa eitthvað og er það ótal margt sem ég er búinn að læra af honum afa mínum í gegnum árin.

Afi var mikill fjölskyldumaður og alltaf var okkur boðið með að taka þátt í hans áhugamálum hvort sem það var í sveitinni, veiði eða fara á landsleiki í fótbolta. Sá mikli tími sem ég varði með afa sem barn varð til þess að við bundumst sterkum vináttuböndum sem varði allt til hans síðasta dags.

Það var mér mikið kappsmál að hafa Hellu áfram í fjölskyldunni og kemur hún vonandi til með að vera það um ókomna framtíð. Ég vona að ég eigi eftir að geta átt jafn góðar minningar þaðan með mínum börnum og barnabörnum eins og ég hef átt með þér, afi. Það var alltaf gaman að koma í heimsókn til þín og ömmu og sakna ég þess mjög mikið að geta ekki litið inn í Brekkugerði 19. Ég er svo ótrúlega þakklátur fyrir allar þær stundir sem við áttum saman og þær ótal góðu minningar sem ég á um þig, afi minn.

Blessuð sé minning þín.

Nú hefur það því miður gerst

að vond frétt til manns berst

Kær vinur er horfinn okkur frá

því lífsklukkan hans hætti að slá

Rita vil ég niður hvað hann var mér kær

afi minn góði sem guð nú fær

Hann gerði svo mikið, hann gerði svo margt

og því miður get ég ekki nefnt það allt

Að tala við hann var svo gaman

á þeim stundum sem við eyddum saman

Hann var svo góður, hann var svo klár

æ, hvað þessi söknuður er svo sár

En eitt er þó víst

og það á við mig ekki síst

að ég sakna hans svo mikið, ég sakna hans svo sárt

hann var mér góður afi, það er klárt

En alltaf í huga mínum verður hann

afi minn góði sem ég ann

í himnaríki fer hann nú

þar verður hann glaður, það er mín trú

Því þar getur hann vakað yfir okkur dag og nótt

svo við getum sofið vært og rótt

hann mun ávallt okkur vernda

vináttu og hlýju mun hann okkur senda

Elsku afi, guð mun þig geyma

yfir okkur muntu sveima

en eitt vil ég þó að þú vitir nú

minn allra besti afi, það varst þú.

(Katrín Ruth)

Elvar.

Með þessum fátæklegu orðum langar mig að minnast móðubróður míns, Þorvarðar Þorvarðarsonar. Góð vinátta hefur alla tíð verið á milli okkar og hans fjölskyldu. Dúddi, eins og frændi var ávallt kallaður, byrjaði ungur að árum að vinna hjá fyrirtækinu Rafha í Hafnarfirði. Í framhaldi af því hóf hann vinnu sem sýningarmaður í Stjörnubíói, sem var í eigu tengdaföður hans og fjölskyldu. Eftir stuttan tíma tók hann við sem framkvæmdastjóri og stjórnaði Stjörnubíói í tugi ára. Dúddi var hugmyndaríkur maður og duglegur til verka. Sýningarvinna er kvöld- og helgarvinna. Þá vantaði frænda eitthvað að gera á daginn. Hann byrjaði þá á því að smíða leikföng o.fl. í litlu húsnæði sem hann innréttaði, þar á meðal vörubíla úr járni, og seldi í verslanir. Þetta var hans hobbí. Frændi hætti þessari starfsemi fljótlega. Hann hefur trúlega séð það strax í upphafi að hann gæti ekki keppt við kínverskan iðnað. Þá tók við hans annað áhugamál. Þau hjónin frændi og Erla Hjaltadóttir, sem voru mjög samrýnd, búin að vera gift í rúm 60 ár, keyptu jörðina Hellu á Fellsströnd ásamt Köldukinn fyrir u.þ.b. 40 árum. Þarna var komin ærin tómstundaiðja fyrir þau hjónin, ef tómstundir ætti að kalla. Þetta kallaði á mikla vinnu. Þau voru allt í einu komin í búskap með kindur, hross og hund sem var þeim hjónum afar kær. Það þurfti að halda við girðingum, heyja, halda við húsum, tækjum og tólum. Þá komu ljós hæfileikar Dúdda frænda. Hann lá undir öllum vélum, hvort sem það voru dráttarvélar, bílar eða önnur tæki, og gerði við sjálfur og hafði gaman af. Annað áhugamál Dúdda var að rækta upp ána sem tilheyrði jörðinni Hellu ásamt fleiri jörðum. Nú var það laxveiðiá sem átti hug hans þar sem stór hylur var neðst í ánni sem tilheyrði hans jörð sem fylltist af fiski, selnum til mikillar ánægju. Það þurfti bara að byggja einn laxastiga við einn háan foss neðst í ánni.

Hann barðist fyrir þessu lengi en þetta komst ekki í framkvæmd. Nú var frændi kominn á fullt í fiskeldi. Á jörðinni Kaldakinn, sem er mjög torfært að nálgast, er stöðuvatn. Þá datt frænda í hug að búa þannig um vatnið að vel tækist til og setti í það seiði.

Viti menn; það er kominn vænn fiskur í vatnið, honum til mikillar ánægju.

Síðustu ár voru Dúddi og Erla komin á Hjúkrunarheimilið Eir, orðin heilsuveil. Ég held að hann hafi ekki sætt sig við það. Hugurinn var annars staðar. Dúddi var góður og tryggur maður sem er sárt saknað. Takk fyrir allt Dúddi minn.

Við Erla ásamt fjölskyldu sendum Erlu og fjölskyldu okkar innilegustu samúðarkveðjur.

Hafsteinn Viðar

Halldórsson.