(Aðalbjörg) Sigrún Stefánsdóttir fæddist í Bakkakoti, Lýtingsstaðahreppi í Skagafjarðarsýslu, 11. ágúst 1930. Hún lést á hjúkrunarheimilinu Sóltúni 26. desember 2013.

Sigrún var jarðsungin frá Fossvogskirkju 3. janúar 2014.

Elsku amma mín, mikið er ég fegin og glöð að ég náði að kveðja þig áður en þú fórst frá okkur. Ég ætlaði að vera löngu búin að heimsækja þig en hafði ekki komið mér í það.

Þegar ég hugsa til baka og um minninguna um þig, þá sé ég fyrir mér fransbrauð með hnetusmjöri í litlum bitum, ótal áramótaskaup á videóspólum, flóamarkaðinn þar sem ég skemmti mér alltaf vel við að gramsa eða fela mig í krókum og kimum, gamalt PK tyggjó sem þú áttir óendanlegar birgðir af, ferðirnar á karnivalið í Keflavík, risastóra skartgripi, fallegu uglurnar þínar og ekki má gleyma sameiginlegum áhuga okkar á kisum. Ég held nefnilega að við höfum aðallega náð að tengjast í gegnum þann áhuga en mér fannst alltaf pínu skondið að þegar við heyrðumst eða sáumst spurðir þú alltaf fyrst um hvernig Posi minn hefði það og hvað væri að frétta af honum. Mér hefur mikið orðið hugsað til þín í haust en ég var að lesa um hvernig mannlífið var á Íslandi á uppvaxtarárum þínum og afa. Ég setti þig alltaf inn í þær aðstæður sem ég las um og ímyndaði mér allar breytingarnar og erfiðu tímabilin sem þú hefur lifað. Þú varst mjög litríkur og skemmtilegur persónuleiki, mér þykir afar vænt um þig og ég á eftir að sakna þín.

Ég bið Guð að gæta mín,

góða anda að hugga mig.

Sama ósk er eins til þín:

Almættið það sjái um þig.

(Leifur Eiríksson)

Birgitta Bjarnadóttir.

Við Sigrún kynntumst í gegnum dýravernd. Við vorum í hópi kvenna sem rak flóamarkað í tvo áratugi til ágóða fyrir dýravernd. Þessi flóamarkaður var fyrstu tvö árin á Bókhlöðustíg 2 en síðan í kjallaranum í Hafnarstræti 17. Þetta var sannkallaður ævintýraheimur og viðskiptavinir okkar voru þversnið af samfélaginu. Sumir komu af því að það var sniðugt. Aðrir af nauðsyn. Á fyrstu árunum var Björk einn af okkar viðskiptavinum og í kjölfarið komu stelpur sem vildu fá kjól eins og Björk hafði klæðst á tónleikum. Við, konurnar sem skiptumst á að vera við afgreiðslu, kölluðum okkur flærnar og Sigrún var okkar yfirfló. Hún stjórnaði okkur og rak þennan flóamarkað sem væri hann hennar einkafyrirtæki.

Við kynntumst vel, þessi hópur og þótti gaman að hittast öðru hverju og fá okkur kaffisopa og spjalla. Þá voru það sögurnar af flóamarkaðnum sem bar hæst og sumar rifjuðum við upp ár eftir ár. Ógleymanleg atvik. Sum svo fyndin en önnur sorgleg.

Sigrún lagðist í ferðalög. Og það voru engin smáferðalög. Þau eru ekki mörg löndin sem hún hefur ekki komið til. Þrisvar til Kína. Hún sagði mér ástæðuna fyrir því að hún tók upp á því að ferðast svona mikið. Ég fékk krabbamein í brjóstið, sagði hún, og þegar það var batnað sá ég að ég vildi sjá heiminn og notaði minn móðurarf til þess. Og það var næstum eins og að fara sjálf í þessi ferðalög að hlusta á Sigrúnu segja frá þeim og skoða myndaalbúmin eftir hverja ferð. Hún vissi nákvæmlega hvar hún tók hverja mynd og sagði sögu staðarins. Hún keypti einnig ógrynni af minjagripum og sagði frá hverjum og einum.

Velferð dýra var okkur auðvitað hugleikið umræðuefni. Og því málefni tengist frásögn sem aldrei líður mér úr minni. Sigrún var hissa á hvernig ég hafði allt á hornum mér þegar hún lýsti því hve gaman henni þætti að fara í dýragarðinn í London. En svo eitt sinn sagði hún að nú skildi hún andúð mína á dýragörðum. Hún var þá nýkomin frá Afríku, hafði farið í safaríferð um stóran þjóðgarð. Ferðalangarnir komu þar að sem ljón höfðu drepið fílsunga. Fílahópurinn stóð í kringum dána ungann, þeir stöppuðu niður framfótunum, ráku ranann upp í loftið og öskruðu. Síðan gekk hópurinn burt en ljónin, sem höfðu beðið álengdar, komu og fengu sinn mat.

Fyrir rúmum áratug veiktist Sigrún illa og fór í mikla hjartaaðgerð. Við ræddum það í mínum síðustu heimsóknum til hennar hve dásamlegt það hefði verið að fá þennan bata og Sigrún bætti því við að hún hefði meira að segja getað ferðast til útlanda. Við hefðum báðar þegið það, Sigrún og ég, að hún hefði lifað nokkur ár enn og notið dvalarinnar í Sóltúni og ég haldið áfram að koma í heimsókn með hundinn Spesíu. Það varð ekki.

Sigrún var heilsteyptasta manneskja sem ég hef kynnst. Skarð hennar verður ekki fyllt en við flærnar sem enn lifum munum geyma minninguna um Sigrúnu og gleðjast yfir því að hafa fengið að kynnast henni.

Jórunn Sörensen.