Upp Í maí 2012 var tilkynnt að Teiknistofan Tröð hefði unnið samkeppnina.
Upp Í maí 2012 var tilkynnt að Teiknistofan Tröð hefði unnið samkeppnina. — Morgunblaðið/Þórður
Rúnar Pálmason runarp@mbl.

Rúnar Pálmason

runarp@mbl.is

Í vinningstillögu í samkeppni um hönnun göngu- og hjólabrúa yfir Elliðaárvoga kom fram að kostnaður við þær næmi 95 milljónum króna, að meðtöldum göngustíg á milli brúnna en ekki tengingu við stígakerfi borgarinnar, samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg.

Sú áætlun var metin óraunhæf af dómnefnd sem lét gera sína eigin áætlun, áður en hún tók ákvörðun um hvaða tillögu hún myndi mæla með og hljóðaði sú kostnaðaráætlun upp á 160 milljónir, samkvæmt upplýsingum frá borginni.

Í kynningu frá framkvæmda- og eignasviði frá í október 2012 kemur fram að þótt „frumkostnaðaráætlun“ hafi hljóðað upp á 160 milljónir gerði kostnaðaráætlun II ráð fyrir að heildarkostnaður yrði 230 milljónir. „Helstu ástæður hækkunar á kostnaði eru vegna vanáætlunar á umfangi fyllinga við vestari brúna, vanáætlunar á lýsingu og umfangi grundunar vegna endastöpla ásamt aukningu á stálmagni vegna brúargólfs,“ segir í kynningunni. Þar var ekki gert ráð fyrir kostnaði við áningarstað.

Í svari sem Morgunblaðið fékk frá Reykjavíkurborg í september kom fram að kostnaður væri áætlaður 250 milljónir. Nú í janúar er talið að kostnaður verði 264 milljónir, þar af verði framkvæmdakostnaður 228 milljónir og hönnunar- og eftirlitskostnaður verði 36 milljónir.

Ekki óhagkvæmt

Formaður dómnefndarinnar sem valdi vinningstillöguna var Ámundi V. Brynjólfsson, skrifstofustjóri skrifstofu framkvæmda og viðhalds hjá Reykjavíkurborg. Hann segir að nefndin hafi aldrei miðað við kostnaðaráætlun hönnuða heldur áætlun sem sérfræðingar hefðu gert fyrir nefndina.

Kostnaður við brýrnar réðist einkum af lengd brúargólfanna en þau hefðu ekki getað verið styttri þar sem ekki hefði mátt þrengja árfarveginn. Hvorki byggingarefnið né form burðarvirkisins væri óhagkvæmt í sjálfu sér. Hefði önnur tillaga orðið fyrir valinu, s.s. sú í 2. sæti, hefði kostnaður við framkvæmdina orðið svipaður.

Kostnaður vó 30% í mati dómnefndar en Ámundi sagði að niðurstaða dómnefndar hefði orðið sú sama hefði heildarkostnaður við brýrnar legið fyrir þegar ákvörðun var tekin um vinningstillöguna.

Aðspurður sagði hann að hönnunar- og eftirlitskostnaður, 36 milljónir, væri ekki óeðlilega hár, miðað við framkvæmd af þessum toga.