Sveitarstjórnarmenn sem hafa hafnað þjónustuhlutverkinu hafa misst tilverurétt

Ekki verður sagt að borgarbúar séu áhugasamir um kosningar til borgarstjórnar í vor. Sú var tíð að kosningar í höfuðborginni þóttu barátta á borð við alþingiskosningar og verulegur ákafi var einnig í „rétt“ úrslit í öðrum sveitarfélögum. Að þessu leyti skáru Íslendingar sig lengi vel úr, ef horft var til annarra landa. Í sumum nágrannalöndunum hafði áhugi á sveitarstjórnarmálum minnkað mikið fyrir áratugum. Það á við bæði um Norðurlöndin og Bretland. Í Bretlandi ná aðeins ónýtar kosningar til ESB-þings að slá út kosningar til sveitarstjórna, þegar áhugaleysi er viðmiðunin.

En þá er sjálfsagt spurt hvort það geri nokkuð til þótt lýðræðislegur áhugi á sveitarstjórnum hrynji svona. Er ekki áhugaleysið meðal annars merki um það að svigrúm sveitarfélaga til að bera sig öðru vísi að en gerist sé lítið. Lagarammi um sveitarfélög og verkefni þeirra verði sífellt þrengri og nákvæmar sniðinn til. Fjármunir þeirra étist upp í óstöðvandi vöxt svokallaðrar félagslegrar þjónustu og framfærslu af margvíslegu tagi. Slíkur þáttur hefur vaxið langt umfram viðmiðunartölur um almenna þróun efnahagslífs. Kjörnir fulltrúar hafa fyrir löngu gefist upp fyrir þessum þætti og því sést þar lítill eða enginn munur á flokkum. Það reyndar hefur gilt að mestu leyti einnig um aðra málaflokka líka í höfuðborginni um nokkra hríð. Borgaryfirvöld voru lengi mjög framtakssöm og gengust upp í að veita borgarbúum öfluga þjónustu. Þau litu svo á að hæst alls á hillu borgarinnar væri þjónustuhlutverk hennar. Af þessum ástæðum var höfuðborgin löngum fyrirmynd annarra sveitarfélaga í slíkum efnum.

Síðustu árin hefur þjónustuhlutverkið verið hornreka og borgaryfirvöld leyna ekki neikvæðri afstöðu sinni til þess. Þau fara fram með margvíslegu offorsi gagnvart borgarbúum og hreinum geðþótta. Afturvirkar reglur eru settar, þótt ólögmætt sé, og þess verður ekki einu sinni vart að um það sé ágreiningur í borgarstjórn Reykjavíkur. Skyndilega var ákveðið að í grónum hverfum skyldi refsa íbúunum ef sorptunna stæði lengra en 15 metrum frá stoppustað sorpbíls. Slíka reglu er hægt að setja í tengslum við skipulag nýs hverfis, sem tæki þá mið af því. En beiting hennar er hreinn yfirgangur í fullbyggðum hverfum þar sem hús voru staðsett og reist með fullum leyfum yfirvalda. Nú síðast hafa sorphirðumenn fengið fyrirmæli borgaryfirvalda um að róta í sorptunnum íbúa borgarinnar, án þess að Persónuvernd hafi svo mikið sem rumskað af værum svefni sínum.

Síðustu áratugina hefur aðstaða hjólreiðamanna smám saman verið bætt, sem er gott. En samhliða því hefur sá ágæti áhugi á síðustu árum breyst í offors gegn bifreiðaeigendum, en það er annað heiti á langflestum borgarbúum, sem komnir eru til vits og ára. Um þessar atlögur hefur ríkt prýðileg sátt í höfuðborginni síðan að Sjálfstæðisflokkurinn virtist hætta þar starfsemi að öðru leyti en að nafninu til. Atlagan að bifreiðaeigendum er samofin inn í hið nýja Aðalskipulag borgarinnar og verði það leiðsögn til framtíðar munu bifreiðaeigendur ekki sjá hvað til þeirra friðar heyrir fyrr en það verður orðið of seint. Nú hefur íslenska ríkisstjórnin, þvert ofan í eitt af fáum skýrum atriðum í stjórnarsáttmála, fengið einn af ráðherrum Jóhönnu og Steingríms til að leita fyrir sig að nýjum flugvelli innan marka borgarlandsins. Ekki er vitað hvernig sú leit fer fram. Áður hafði mjög verið rætt um nýja flugvallargerð á Hólmsheiði og sú hugmynd nánast verið afskrifuð. Þó er fullmikið sagt að heiðin hafi týnst. Ekki er því vitað hvar ráðherrann fyrrverandi úr Jóhönnustjórninni er að leita.

Sérstaklega er tekið fram af fulltrúum ríkisstjórnarinnar, að þegja eigi yfir öllum undirmálum í flugvallarmálinu fram yfir kosningar. Þeir Jón og Dagur eru sjálfsagt hissa að fá stóra vinninginn í happdrætti sem þeir áttu engan miða í.

Fyrir fáeinum árum ákváðu borgaryfirvöld að taka af pínulitla þægindaþjónustu sem fyrirrennar þeirra höfðu talið að borgarbúar hefðu greitt fyrir með útsvari sínu, sem þó var þá stillt í hóf miðað við það sem nú tíðkast. Þau sáu að gera mætti borgarbúum smá miska með því að hætta að sækja til þeirra jólatré eftir þrettándann. Þessir bílahatarar í borgarstjórninni unnu það til að láta tugi þúsunda bifreiða skutlast með tré á förgunarstað, til að mega undirstrika þá skömm sem þeir hafa á því þjónustuhlutverki sem borgaryfirvöld höfðu áður í hávegum. Kannski er sú fullyrðing ekki sanngjörn. Kannski ætluðust þau til að gamla jólatréð yrði almennt flutt á bögglaberanum eða tekið með í strætó.