Thomas Hitzlsperger
Thomas Hitzlsperger
Þýski knattspyrnumaðurinn Thomas Hitzlsperger hefur fengið mikið lof fyrir að stíga fram og opinbera samkynhneigð sína en það gerði hann í viðtali við þýska tímaritið Die Zeit í gær.

Þýski knattspyrnumaðurinn Thomas Hitzlsperger hefur fengið mikið lof fyrir að stíga fram og opinbera samkynhneigð sína en það gerði hann í viðtali við þýska tímaritið Die Zeit í gær. Knattspyrnuheimurinn var fljótur að taka við sér eftir yfirlýsingu Hitzlspergers og þeir eru margir sem hafa hrósað hughrekki Þjóðverjans en hann er fyrsti knattspyrnumaður þar í landi sem kemur út úr skápnum.

„Hugrekki og rétt ákvörðun. Virðum Thomas Hitzlsperger,“ skrifaði þýski landsliðsmaðurin Lukas Podolski á twittersíðu sína.

„Hamingjuóskir til Thomas Hitzlspergers fyrir hugrekkið að vera fyrsti leikmaðurinn sem hefur spilað í ensku úrvalsdeildinni sem kemur út úr skápnum,“ skrifaði Gary Lineker, fyrrverandi fyrirliði enska landsliðsins.

Hitzlsperger, sem er 31 árs gamall, lék 52 leiki með þýska landsliðinu á árunum 2004 til 2010 og meðal þeirra liða sem hann lék með voru Aston Villa, Everton, Wolfsburg og Lazio. Eftir síðustu leiktíð ákvað hann að leggja skóna á hilluna en hann lék sjö leiki með Everton í ensku úrvalsdeildinni á síðustu leiktíð. „Ég vil opinbera samkynhneigð mína núna vegna þess að ég vil koma umræðunni um samkynhneigð meðal afreksíþróttafólks á næsta stig,“ sagði Þjóðverjinn og kvaðst aðeins hafa uppgötvað það fyrir fáeinum árum að hann hneigðist frekar til karla en kvenna. gummih@mbl.is