[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sigurður Arnar fæddist á Akureyri 9.1. 1964 og ólst upp á Brekkunni. Hann var í Barna- og Gagnfræðaskóla Akureyrar, lauk stúdentsprófi frá MA 1984 og cand.oecon-prófi frá HÍ 1991. Á unglingsárum vann Sigurður á sumrin hjá Vatnsveitu Akureyrar.

Sigurður Arnar fæddist á Akureyri 9.1. 1964 og ólst upp á Brekkunni. Hann var í Barna- og Gagnfræðaskóla Akureyrar, lauk stúdentsprófi frá MA 1984 og cand.oecon-prófi frá HÍ 1991.

Á unglingsárum vann Sigurður á sumrin hjá Vatnsveitu Akureyrar. Hann og kona hans fóru til Reykjavíkur í háskólanám eftir stúdentspróf, en eftir útskrift frá HÍ vann hann við endurskoðun og reikningshald hjá KPMG og Endurskoðun ehf., í Reykjavík og á Akureyri, en fjölskyldan flutti aftur norður.

Þau fluttu aftur til Reykjavíkur 1997 er Sigurður hóf undirbúning að opnun verslunar sem átti eftir að breyta verslunarsögu á Íslandi og í febrúar 1998 var opnuð raftækjaverslunin ELKO. Má segja að þá hafi runnið kaupæði á Íslendinga, en langar biðraðir mynduðust og verslunin hefur verið leiðandi í sölu á raftækjum frá fyrsta degi.

Sigurður var fyrsti framkvæmdastjóri ELKO og rak verslunina í nokkur ár. Hann var framkvæmdastjóri verslunarsviðs BYKO 2001-2004, en þá var m.a. ný stórverslun BYKO í Breidd opnuð ásamt nýjum verslunum víða um land.

Sigurður varð forstjóri Kaupáss 2004, sem rak verslanir Krónunnar, Nóatúns, 11-11, Intersport og Húsgagnahöllina. Rekstur Kaupáss var endurskipulagður og Krónan hóf stórsókn í samkeppni við Bónus á matvörumarkaðnum í ársbyrjun 2005. Þar með komst Krónan á kortið á matvörumarkaði en svo hörð var samkeppnin að á tímabili var mjólkurlítrinn seldur á eina krónu.

Fjölskyldan flutti til London í árslok 2006 þar sem Sigurður vann við verkefni tengd fjárfestingum og sameiningum fyrirtækja. Í árslok 2009 fluttu þau aftur til Íslands og í ársbyrjun 2010 var Sigurður ráðinn forstjóri Húsasmiðjunnar, Blómavals og Ískrafts. Hann leiddi fjárhagslega og rekstrarlega endurskipulagningu fyrirtækjanna en sumarið 2012 ákvað hann að hefja undirbúning á stofnun eigin fyrirtækis með starfsemi erlendis.

Sigurður hefur setið í stjórnum og komið að fjárhagslegri og rekstrarlegri endurskipulagningu fjölda annarra fyrirtækja.

Skíði, mótorsport og tónlist

Áhugamálin eru mörg: „Skíðaíþróttin er í miklu uppáhaldi enda höfum við hjónin skíðað í Hlíðarfjalli frá barnsaldri. Við förum eins oft til Akureyrar á skíði og hægt er, en stjórfjölskyldan hefur þar aðgang að æskuheimilinu.

Ég hef stundað almenna líkamsrækt í mörg ár eftir að ég hætti að keppa í fótbolta og handbolta sem unglingur, og ek á Enduro-mótorhjóli um fjöll og firnindi. Þá er Formúla 1 í miklu uppáhaldi og ég fer annað slagið að sjá keppnir á góðum brautum.

Ég æfi kick box og brasilískt jiu jitsu, ásamt eldri syni mínum. Loks hef ég áhuga á tónlist enda alinn upp við hana. Ég spila á píanó og sest gjarnan við hljóðfærið eða hlusta á góða tónlist, ekki síst djass, blús, gospel og kirkjutónlist.“

Fjölskylda

Eiginkona Sigurðar er Harpa Gunnarsdóttir, f. 5.7. 1965, BSc í sjúkraþjálfun. Foreldrar hennar: Gunnar Jakobsson, f. 23.8.1934, d. 8.1. 2010, stýrimaður og sjómaður, lengst af á Akureyri, og Pálína Þorgrímsdóttir, f. 25.5. 1935, húsfreyja, lengst af á Akureyri.

Börn Sigurðar og Hörpu eru Ásta Sigurðardóttir, f. 26.3. 1983, BSc í viðskiptafræði og nemi í sálfræði, búsett í Hafnarfirði en maður hennar er Jón Eggert Hallsson, BSc í hagfræði og framkvæmdastjóri, og eru börnin Sigurður Sölvi Jónsson, f. 24.3. 2010, og Stefanía Karen Jónsdóttir, f. 25.2. 2012; Sigurður Aron Sigurðsson, f. 11.3. 1994, menntaskólanemi í foreldrahúsum; Viktor Sigurðsson, f. 15.5. 2002, nemi í Áslandsskóla í Hafnarfirði, í foreldrahúsum.

Systkini Sigurðar eru Guðrún Elín Sigurðardóttir, f. 28.10. 1943, hjúkrunarfræðingur, búsett á Akureyri; Smári Svanberg Sigurðsson, f. 3.8. 1947, MSc í stjórnun og tæknifræðingur, búsettur í Reykjavík; Hrafn Óli Sigurðsson, f. 24.2. 1956, Ph.d. í hjúkrunarfræði, búsettur í New York.

Foreldrar Sigurðar: Sigurður Björgvin Svanbergsson, f. í Lögmannsshlíð við Akureyri 16.7. 1920, d. 24.3. 2010, vatnsveitustjóri Vatnsveitu Akureyrar, og Ásta Sigurlaug Jónasdóttir, f. á Læk í Aðalvík 4.10. 1922, húsfreyja á Akureyri.