Fiskvinnsla Verð sjófrystra afurða lækkar og þá þarf að hagræða. Aukin landvinnsla er mótleikurinn og hjá HB-Granda á Akranesi, þar sem þessi mynd er tekin, gengur vel að fá fólk til starfa.
Fiskvinnsla Verð sjófrystra afurða lækkar og þá þarf að hagræða. Aukin landvinnsla er mótleikurinn og hjá HB-Granda á Akranesi, þar sem þessi mynd er tekin, gengur vel að fá fólk til starfa. — Morgunblaðið/Eggert
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Sigurður Bogi Sævarsson sbs@mbl.is Aukin áhersla stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja á landvinnslu afurða, í stað þess að afli sé unninn um borð í skipunum og frystur þar, þýðir að störfum í landi fjölgar um allt að 200 á þessu ári.

Fréttaskýring

Sigurður Bogi Sævarsson

sbs@mbl.is

Aukin áhersla stjórnenda sjávarútvegsfyrirtækja á landvinnslu afurða, í stað þess að afli sé unninn um borð í skipunum og frystur þar, þýðir að störfum í landi fjölgar um allt að 200 á þessu ári. Þetta segir Arnar Sigurmundsson, formaður Samtaka fiskvinnslustöðva. „Auðvitað er misjafnt milli fyrirtækja hvernig brugðist er við. Menn hafa sömuleiðis fært kvóta meira yfir á línubáta og afli þeirra er unninn í landi,“ segir Arnar. Hann segir að verði þorskkvóti aukinn á næsta fiskveiðiári, eins og margt bendir til, fjölgi störfum í fiskvinnslu enn meira.

Verð sjófrystra afurða lækkað um 14%

Um 4.000 manns starfa í landvinnslu í sjávarútvegi. Talið er að 35-40% af því sé fólk frá útlöndum, sem margt hefur unnið í áraraðir á Íslandi og fest hér rætur. Misjafnt er frá stað til staðar hve stór hlutur þessa fólks er, en á Vestfjörðum eru Íslendingar aðeins 20% fiskvinnslufólks.

Samkvæmt upplýsingum frá Landssambandi íslenskra útvegsmanna hefur verð sjófrystra afurða sl. tvö ár lækkað um 14% og er þar byggt á tölum Hagstofunnar. Þá sé hlutfall launa af heildarinntekt frystitogara mjög hátt. Rekstur þeirra er sömuleiðis þyngri en annarra togskipa af ýmsum ástæðum. Ýmis kostnaður hafi aukist á síðustu misserum, svo sem olíuverð. Þá hafi kolefnisgjald verið lagt á og veiðigjaldið vegi sömuleiðis þungt.

Útgerð frystitogara, þar sem bolfiskur er unninn um borð, ruddi sér til rúms upp úr 1980. Óx henni mjög ásmegin næstu ár þar á eftir, að sögn Sveins Hjartar Hjartarsonar, hagfræðings LÍÚ. Flestir urðu þessir togarar árið 1993, alls 35 talsins. Í dag eru þeir nítján.

Til marks um þær breytingar sem nú eru að verða má nefna að Ögurvík hefur sett frystitogarann Frera RE á söluskrá, togarinn Hrafn GK sem Þorbjörn hf. í Grindavík gerir út fiskar yfirstandandi fiskveiðiár en verður svo seldur eða honum lagt, FISK Seafood ehf. á Sauðárkróki ætlar að selja togarann Örvar HU, Brim hf. mun gera Skálaberg RE út frá Grænlandi og áhöfninni á Þór HF, sem Stálskip í Hafnarfirði hafa gert út, hefur verið sagt upp.

Gengið vel að fá fólk

Í desember seldi HB Grandi frystitogarann Venus og unnið er að því að breyta Helgu Maríu, sem var frystitogari, í ísfiskskip. Af þessu leiðir að sjómönnum á Grandaskipunum hefur fækkað um 35 en á móti kemur að starfsfólki í landvinnslu hefur fjölgað um rúmlega fimmtíu.

Til marks um aukna áherslu á landvinnslu hjá HB-Granda segir Vilhjálmur Vilhjálmsson forstjóri, að árið 2012 hafi 4.000 tonn af þorski verið unnin í húsi félagsins á Akranesi en væntanlega um 6.500 tonn á þessu ári. Í vinnslunni á Norðurgarði í Reykjavík hafi um 16.000 tonn af karfa og ufsa farið í gegn 2012, en verði væntanlega 20.000 tonn á þessu ári.

„Það hefur gengið mjög vel að fá gott starfsfólk í landsvinnsluna. Það eru ekkert síður Íslendingar en fólk af erlendum uppruna sem við höfum ráðið,“ segir Vilhjálmur Vilhjálmsson.

„Við erum að endurskipuleggja reksturinn í samræmi við breyttar aðstæður, það er fyrst og fremst vegna ofurskattlagningar og lækkunar á verði afurða,“ segir Eiríkur Tómasson, framkvæmdastjóri Þorbjörns í Grindavík. Á vegum fyrirtækis hans eru gerðir út þrír frystitogarar, það er Hrafn GK, Hrafn Sveinbjarnarson GK og Gnúpur GK. Eins og fram kemur hér að framan verður Hrafn tekinn úr útgerð síðar á árinu. Til stendur svo að lengja og breyta nafna hans Sveinbjarnarsyni en með þessu ætla Þorbjarnarmenn að ná hagræðingu í starfsemi sinni.

Landvinnslan nær tvöfaldast

„Aflaheimildir okkar í þorski hafa aukist um 3.500 tonn frá því þegar þær voru minnstar. Hafa línubátarnir okkar veitt það og landað til vinnslu og þannig hefur landvinnslan nær tvöfaldast síðastliðin fjögur ár,“ segir Eiríkur. Kvóti línubáta félagsins er nú 7.200 tonn og er skráður á bátana Sturlu GK, Valdimar GK, Ágúst GK og Tómas Þorvaldsson GK. Í landvinnslu Þorbjarnarins er unninn þorskur, ýsa, keila og langa. Heildarmagnið á ári er á bilinu 10.000-11.000 þúsund tonn. Þeim verkum sinna nú um 100 manns – og hefur fjölgað um fjórðung á síðustu þremur til fjórum árum.

Áhrifin eru afgerandi

Í dag eru um 5.000 manns munstraðir á íslensk fiskiskip. „Sú þróun að vægi landvinnslunnar eykst og frystitogurum fækkar hefur afgerandi áhrif. Sjómönnum mun fækka,“ segir Árni Bjarnason, forseti Farmanna- og fiskimannasambands Íslands. Mikið er um og hefur aukist að tvær áhafnir séu á hverjum togara og er reglan þá gjarnan sú að menn taka einn túr og eru annan í fríi. Árni segir að hluti frystitogarasjómanna fái störf á ísfisktogurum. Það brúi samt ekki bilið að öllu leyti. Aukin tæknivæðing til sjós og lands valdi því einnig að störfum fækkar. Hann treystir sér hins vegar ekki til að kveða upp úr með hve margir fari í land miðað við þá þróun sem nú er yfirstandandi.