Er þetta ég? Rúnar Kárason og Aron Kristjánsson fara yfir málin á æfingu íslenska landsliðsins. Þeir fara til Danmerkur í fyrramálið.
Er þetta ég? Rúnar Kárason og Aron Kristjánsson fara yfir málin á æfingu íslenska landsliðsins. Þeir fara til Danmerkur í fyrramálið. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
EM 2014 Tómas Þór Þórðarson tomas@mbl.is Rúnar Kárason, 25 ára gömul hægriskytta íslenska landsliðsins í handbolta, er hluti af nýrri kynslóð landsliðsins sem ber nú meira á í landsliðshópnum.

EM 2014

Tómas Þór Þórðarson

tomas@mbl.is

Rúnar Kárason, 25 ára gömul hægriskytta íslenska landsliðsins í handbolta, er hluti af nýrri kynslóð landsliðsins sem ber nú meira á í landsliðshópnum. Rúnar lofaði góðu þær mínútur sem hann spilaði á EM í Serbíu 2012 en hann gat því miður ekki verið með á HM á Spáni í fyrra vegna meiðsla.

Hann og Ásgeir Örn Hallgrímsson fá það vandasama verkefni að leysa Alexander Petersson af hólmi en miklar væntingar eru bundnar við Rúnar, sem er skytta góð og kominn með fína reynslu í efstu deild Þýskalands.

Hann gat ekki æft með liðinu í gær vegna ælupestar en var nokkuð brattur þegar Morgunblaðið sló á þráðinn til hans seinna um daginn. „Ég var með á æfingunni á þriðjudaginn en svo fékk ég þessa ælupest sem er að ganga,“ segir Rúnar.

Verðum að vera á fullu

Ísland vann tvo leiki og tapaði einum fyrir Þýskalandi á fjögurra landa móti í Þýskalandi um síðustu helgi en það voru einu æfingaleikir liðsins fyrir EM. Þegar heim var komið fóru menn yfir hvað var gott og hvað mætti betur fara.

„Við fórum yfir þetta á æfingu og sáum bara að þegar við erum á fullu erum við alveg drullugóðir. En þegar við erum ekki á fullu erum við bara ekkert merkilegir,“ segir Rúnar.

„Svona er handboltinn. Við getum ekkert verið með hálfum huga í þessu. Maður þarf að vera á fullu til að ná árangri. Við getum tekið fullt gott með okkur frá þessu móti til Danmerkur en líka lært helling eins og af Þjóðverjaleiknum. Rússaleikurinn var góður að mörgu leyti en þar voru líka slæmir hlutir eins og varnarleikurinn.“

Vörnin ekki svo slæm

Varnarleikur íslenska liðsins var gagnrýndur mikið eftir fjögurra landa mótið en liðið fékk á sig 35 mörk gegn Rússlandi og 32 gegn Þýskalandi.

„Vörnin var ekkert svo slæm gegn Þýskalandi, þannig séð. Við fórum oft illa að ráði okkar í sókninni og fengum því mikið af mörkum á okkur úr hraðaupphlaupum, bæði í fyrstu og annarri bylgju,“ segir Rúnar, sem er ekki jafnáhyggjufullur yfir varnarleiknum.

„Í uppstilltum leik, sex á sex, var vörnin mín. Það er allavega mín tilfinning. Hún var engin katastrófa. Þjóðverjarnir fengu bara mörg auðveld mörk og keyrðu yfir okkur í fyrri hálfleik.“

Vil sýna að ég á heima þarna

Það mátti sjá strax á fyrstu sókn Rúnars í Þýskalandi að hann var áræðinn enda skoraði hann þrjú mörk á sjö mínútum þegar hann kom inn á í fyrsta leiknum gegn Rússlandi. Hann segist hafa verið staðráðinn í að láta til sín taka.

„Ég mætti til Þýskalands til að spila minn leik og tel mig hafa náð því nokkuð vel fram. Mann langar ekkert til að vera farþegi í þessu heldur vera með og sýna að maður eigi heima þarna. Ég vil fyrst og fremst bara spila en í handboltanum er svo mikið af leikjum að það þarf tvo í hverja stöðu til að halda gæðum út allan leikinn. Við Ásgeir erum ólíkir leikmenn, sem gefur okkur vopn í sókninni því með einni skiptingu er hægt að breyta hraða leiksins og ógninni í sóknarleiknum,“ segir Rúnar.

Hann er spenntur fyrir framtíðarmönnum landsliðsins en bendir á að kynslóðaskipti taki sinn tíma.

„Þótt leikmenn séu að tínast úr liðinu er engin ástæða til örvæntingar. Ég á ekki von á öðru en þessi nýja kynslóð muni standa sig en tíminn leiðir það samt bara í ljós. Síðustu kynslóðaskipti urðu í kringum 2004 og 2005. Þeir sem komu inn þá urðu engar hetjur á einni nóttu. Þeir þurftu tvö eða þrjú mót til að komast í gang en óx eftir það ásmegin. Það er það sama með okkur ungu strákana,“ segir Rúnar, sem áttar sig þó á að hann er enginn kjúklingur.

„Ég er kominn með fimm ár í bundesligunni og er ekkert splunkunýr í þessu lengur. Maður þarf bara að fara að sýna að maður sé klassaleikmaður og tilbúinn í að gera það sem þarf að gera.“

Norðmenn elska að skjóta

Ísland er í erfiðum riðli á EM með Ungverjalandi, Noregi og Spáni. Fyrsti leikurinn er gegn Norðmönnum á sunnudaginn en þeir hafa á að skipta öflugu liði sem margir hafa beðið lengi eftir að láti til sín taka á stórmóti. Rúnar segir þá með frábært lið og mörg vopn sem þurfi að stoppa.

„Þeir eru með marga mjög góða skotmenn og skotglaða menn; leikmenn sem geta skorað langt fyrir utan punktalínu fái þeir að vera óáreittir. Síðan eru þeir með leikmenn eins og Borge Lund og Erlend Mamelund sem eru góðir alhliðaleikmenn og auðvitað einn besta línumann heims í Bjarte Myrhol. Nái þeir að virkja hann vel verður erfitt að stöðva þá en ég sé ekkert því til fyrirstöðu að við getum komist upp úr þessum riðli og tekið með okkur 2-4 stig í milliriðil,“ segir Rúnar Kárason.

Rúnar Kárason
» Hann er 25 ára gamall, örvhent skytta, og leikur með Hannover- Burgdorf í þýsku 1. deildinni.
» Rúnar kom þangað frá Rhein-Neckar Löwen í nóvember og samdi við félagið út tímabilið.
» Rúnar lék með Fram til 2009 og hefur frá þeim tíma spilað í 1. deild í Þýskalandi, Fyrst með Füchse Berlín og Grosswallstadt en hann fór síðan til Löwen sumarið 2013.
» Rúnar hefur leikið 41 A-landsleik fyrir Íslands hönd og skorað 81 mark.