Ísafjörður Ekki urðu neinar skemmdir í snjóflóðum á Vestfjörðum.
Ísafjörður Ekki urðu neinar skemmdir í snjóflóðum á Vestfjörðum. — Morgunblaðið/Halldór Sveinbjörnsson
Snjóflóðavakt Veðurstofunnar ákvað síðdegis í gær að aflétta óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Fyrr um daginn var aflýst hættustigi á svæði á Ísafirði þar sem rýmt var vegna snjóflóðahættu.

Snjóflóðavakt Veðurstofunnar ákvað síðdegis í gær að aflétta óvissustigi vegna snjóflóðahættu á norðanverðum Vestfjörðum. Fyrr um daginn var aflýst hættustigi á svæði á Ísafirði þar sem rýmt var vegna snjóflóðahættu.

Ný snjóflóð af stærri gerðinni sáust ekki í gær. Þó voru skráð á snjóflóðavef Veðurstofunnar sex minni flóð utan Ytra-Bæjargils við Flateyri. Þau höfðu fallið á um einni klukkustund en náðu rétt út úr gilkjöftum.

Veðurstofan gat þess í tilkynningu að mikill snjór væri til fjalla á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum. Stór snjóflóð gætu því enn fallið, þótt óvissustigi hefði verið aflétt. Ferðalangar voru beðnir að hafa varann á í fjöllum, sér í lagi þegar farið væri um brattlendi.

Á Vestfjörðum var þæfingsfærð í gærkvöldi og skafrenningur á Klettshálsi en snjóþekja og skafrenningur á Þröskuldum. Hálka er á öðrum fjallvegum á Vestfjörðum og víða um land en auk þess skafrenningur á Steingrímsfjarðarheiði.

Veðurstofan spáir vaxandi austanátt á landinu í dag og að vindurinn verði 10 til 18 metrar á sekúndu síðdegis, hvassast við suðurströndina. Dálítil él geta fallið austanlands. Víða þykknar upp í kvöld. Hiti verður að fimm stigum sunnanlands en annars um frostmark. Spáð er kólnandi veðri á morgun með rigningu, slyddu eða snjókomu sunnan- og austantil, en úrkomulitlu annars staðar um landið.