Elísabet Reykdal fæddist á Setbergi, Garðahreppi, 17. desember 1912. Hún lést á Sólvangi 21. desember 2013.

Útför Elísabetar fór fram frá Fríkirkjunni í Hafnarfirði 3. janúar 2014.

Þegar ég hugsa til Betu frænku, því það hefur hún alltaf heitið í huga mér, þá er hún alltaf brosandi og kát. Það er allt frá fyrstu minningum um hana, þegar ég var lítil stelpa og bjó sjálf í Setbergshverfinu, allt til þess þegar ég hitti hana síðast í 100 ára afmæli hennar.

Beta var dugnaðarforkur alla sína tíð og þegar tækifæri gafst til ferðaðist hún mikið og naut lífsins til fulls. Það var því ekki spurning hver kom mér fyrst í hug þegar vinkona mín og ljósmyndarinn Anna María Sigurjónsdóttir var að leita að skemmtilegum og fallegum „fyrirmyndum“ á efri árum, fyrir ljósmyndasýningu sem hún setti upp á Grandanum í árslok 2012 og Beta var að sjálfsögðu til í enn eitt ævintýrið. Beta var stórglæsileg á myndinni sinni og ég er stolt af því að hafa getað sagt að þessi flotta kona í alla staði var frænka mín.

Kær kveðja,

Helga Margret Reykdal.

Á vetrarsólstöðum, fáeinum stundum eftir að daginn tók að lengja á ný, þá létti hún akkerum og lét úr höfn. Hinsta ferðin var hafin. – Þessi fallega gamla kona gat kvatt sátt við guð og menn. Hún hafði lokið síðasta hluta af ætlunarverki sínu, að halda upp á 100 ára afmæli kirkjunnar sinnar, sem faðir hennar hafði byggt og einnig að ná 101 árs afmæli sínu, en þann dag 17. desember fór ég til hennar og þegar hún kvaddi sagði hún: Þakka þér fyrir komuna, þú mátt fara núna. – Þá var ljóst að hverju stefndi, því alltaf hafði hún verið tilbúin að spjalla, enda með skýra hugsun til síðasta dags. – Lífið hafði ekki alltaf farið mjúkum höndum um hana, hún var nokkurn veginn í miðjum hópi 12 barna foreldra sinna, en tvö höfðu dáið í frumbernsku og áður en hún náði tvítugsaldri hafði hún misst fjögur önnur systkini af slysförum og úr berklum og nokkrum árum síðar einn bróður til viðbótar. Þau voru fimm sem eftir voru og tókst að stofna fjölskyldur. Mann sinn missti Elísabet langt um aldur fram en þeim varð 6 barna auðið.

Það sem einkenndi þessa konu var æðruleysi, glaðværð og gæzka, hún var létt í spori, létt í lund og full af fróðleik sem hún gat miðlað til okkar hinna. Hún var líka síðasti hlekkurinn af þessari kynslóð í fjölskyldu okkar og þegar ættingjar komu utan úr heimi og vildu skoða landið sitt og hitta fjölskylduna, þá var „tante Beta“ alltaf efst á óskalistanum. – Sl. sumar komu átta manns frá Noregi og þá hafði hún á orði að hún væri aðeins farin að ryðga í norskunni. Örlagadísirnar höguðu því þannig til, að síðari hluta ævi sinnar gat hún ferðast vítt og breitt um heiminn og fræðst um hann, en það hafði hún alltaf þráð.

Nú er komið að kveðjustund og þá er þakklæti og virðing efst í huga. Skarðið sem hún skilur eftir er stórt, það verður ekki fyllt, en það er stútfullt af fallegum minningum sem gerir okkur öll ríkari.

Kærar þakkir fyrir samfylgdina, elsku frænka.

Lovísa.