Þjórsárver Sveitarstjórnir Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Ásahrepps fjalla um tillögu að breyttum mörkum fyrirhugaðs friðlands í Þjórsárverum. Undirritun friðlýsingarskilmála hinn 21. júní 2013 var frestað.
Þjórsárver Sveitarstjórnir Skeiða- og Gnúpverjahrepps og Ásahrepps fjalla um tillögu að breyttum mörkum fyrirhugaðs friðlands í Þjórsárverum. Undirritun friðlýsingarskilmála hinn 21. júní 2013 var frestað. — Morgunblaðið/RAX
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps leggur til að frestað verði að stækka friðland Þjórsárvera þar til ákveðin atriði eru komin á hreint.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Sveitarstjórn Skeiða- og Gnúpverjahrepps leggur til að frestað verði að stækka friðland Þjórsárvera þar til ákveðin atriði eru komin á hreint. „Meginhluti Þjórsárvera er nú þegar friðland og ekki eru nein svæði í hættu þó svo að stækkun svæðisins frestist eitthvað,“ segir í tillögu sem var samþykkt einum rómi á fundi sveitarstjórnarinnar sl. þriðjudag.

Á fundinum var lagt fram bréf Umhverfisstofnunar frá 27. desember 2013 varðandi breytingu á friðlýsingarmörkum Þjórsárvera. Björgvin Skafti Bjarnason oddviti lagði fram bókun þess efnis að sveitarstjórnin teldi að ekki væri hægt að fjalla um breytingar á friðlandsmörkunum fyrr en fram hefðu komið tillögur verkefnisstjórnar um vernd og orkunýtingarmörk þess svæðis sem færi í verndarflokk. „Ekki eru gerðar athugasemdir við friðlýsingarskilmálana frá 21. júní 2013 að því gefnu að tryggt verði fjármagn til að fylgja þeim eftir sbr. viðauka þar um,“ segir í bókuninni.

Gunnar Örn Marteinsson sveitarstjórnarmaður lagði einnig fram bókun. Í henni sagði m.a. að öll umræða undanfarinna ára um stækkun friðlandsins í Þjórsárverum hefði snúist um Norðlingaölduveitu fremur en almenn verndarsjónarmið. Hann kvaðst telja nauðsynlegt, áður en friðlandsmörk yrðu ákveðin eins og nú væri lagt til, að breyta lögum um rammaáætlun þannig að ljóst væri að stefnt væri að því að fara í veituframkvæmdir á svæðinu. Áður en slík ákvörðun væri tekin þyrfti að gera umhverfismat fyrir framkvæmdina og jafnframt þyrfti að liggja fyrir hvaða áhrif hún hefði á rennsli Þjórsár.

Ekki nóg að breyta strikum

Björgvin Skafti oddviti sagði að sveitarstjórnin hefði verið búin að samþykkja friðlýsingarskilmálana sem átti að undirrita 21. júní 2013. Hún væri ekki tilbúin að fallast á umbeðnar breytingar á fyrirhuguðum friðlandsmörkum án umræðu.

„Það þarf að skoða fleira en bara að breyta strikum,“ sagði Björgvin Skafti. „Við erum ekki að segja að við séum á móti virkjunum. Við erum bara á móti vinnubrögðunum.“

Hann sagði að breyta ætti friðlýsingarskilmálunum sem samþykkja átti í júní í fyrra og að fást þyrftu nánari skýringar á þeim breytingum.