Björgunarsveitarmenn björguðu þremur fimmtán ára drengjum niður af Ingólfsfjalli í gærkvöldi. Drengirnir lentu þar í sjálfheldu.

Björgunarsveitarmenn björguðu þremur fimmtán ára drengjum niður af Ingólfsfjalli í gærkvöldi. Drengirnir lentu þar í sjálfheldu.

Björgunarsveitir Slysavarnafélagsins Landsbjargar í Árnessýslu voru kallaðar út rétt eftir klukkan fimm í gær til aðstoðar drengjunum. Þyrla Landhelgisgæslunnar var í æfingaflugi og var beint á staðinn þar sem í fyrstu var talið að leita þyrfti að fjórða drengnum sem fór á undan félögum sínum úr fjallinu. Hann kom fljótlega fram.

Um þrjátíu björgunarmenn sem sérhæfðir eru í fjallabjörgun tóku þátt í björguninni. Samkvæmt upplýsingum frá Landsbjörgu þurfti nokkra línuvinnu til að koma drengjunum niður af fjallinu en aðstæður til björgunar voru sagðar nokkuð krefjandi.

Ólöf Snæhólm Baldursdóttir, upplýsingafulltrúi Slysavarnafélagsins Landsbjargar, sagði í samtali við mbl.is í gærkvöldi að piltarnir hefðu verið nokkuð kaldir eftir vistina á fjallinu enda ekki búnir til fjallgöngu.