Sumarfegurð Breiðdalsvík á fallegum sumardegi, en unnið er að uppbyggingu í atvinnulífi á staðnum.
Sumarfegurð Breiðdalsvík á fallegum sumardegi, en unnið er að uppbyggingu í atvinnulífi á staðnum. — Morgunblaðið/Golli
Meðal hugmynda ungra Breiðdælinga er að koma upp dyrum og staðsetja úti á víðavangi ( The Pointless Door of Iceland ), þar sem gestir og gangandi gætu látið taka af sér mynd og fengið staðfestingu á að hafa farið í gegnum dyrnar. Þessi hugmynd var m.a.

Meðal hugmynda ungra Breiðdælinga er að koma upp dyrum og staðsetja úti á víðavangi ( The Pointless Door of Iceland ), þar sem gestir og gangandi gætu látið taka af sér mynd og fengið staðfestingu á að hafa farið í gegnum dyrnar. Þessi hugmynd var m.a. reifuð á íbúaþingi sem haldið var í Grunnskólanum á Breiðdalsvík í nóvember og um 50 manns sóttu.

Atvinnumál eru mikilvægasti þátturinn í eflingu byggðar í Breiðdalshreppi, að mati þátttakenda á íbúaþinginu. Ýmsir möguleikar eru til fjölgunar atvinnutækifæra, ekki síst með því að byggja á sérstöðu svæðisins, náttúru, sögu og matvælaframleiðslu.

Horft er til ferðaþjónustu, nýtingar á aflögðu frystihúsi og loks fékk hugmynd um slipp fyrir báta að 30 tonnum góðan hljómgrunn. Þá er áhugi á að fjölga opinberum störfum, sem hefur fækkað verulega á síðustu þremur áratugum, segir í skýrslu um íbúaþingið.

Þrjú setur til umræðu

Þrír hópar ræddu um þrjú mismunandi setur; Einarsstofu, Breiðdalssetur og frumkvöðlasetur. Breiðdalssetur var stofnað 2008 en unnið er að undirbúningi vegna Einarsstofu. Hugmynd um frumkvöðlasetur er komin skemmra á veg.

Einarsstofa yrði setur helgað ævistarfi sr. Einars Sigurðssonar (1539-1626), sem var prestur í Eydölum í Breiðdal og var helsta trúarskáld sinnar tíðar, eins og segir í skýrslunni. Þar kemur fram að um nokkurt skeið hafi verið unnið að verkefni sem tengist 500 ára siðbótarafmæli Lúters, árið 2017. Einarsstofa yrði reist við Heydalakirkju, sem tengdist þar með sálmaskáldinu.

Heydalakirkja á fjármuni, sem hafa verið „eyrnamerktir“ þessu verkefni. Þeir fengust vegna afnota og leigu til Fljótsdalshéraðs af urðunarstað á Heydalamelum, sem nýttur var um nokkurt skeið.

Framtíðin mótuð

„Breiðdælingar móta framtíðina“ er yfirskrift byggðaþróunarverkefnis í Breiðdalshreppi, sem leitt er af Byggðastofnun í samstarfi við Breiðdalshrepp, Austurbrú, Samband sveitarfélaga á Austurlandi, Háskólann á Akureyri og íbúa Breiðdalshrepps.

Breiðdalshreppur er einn af fjórum stöðum þar sem Byggðastofnun stendur fyrir sambærilegum verkefnum, í svokölluðum „brothættum byggðum“. Hinir staðirnir eru Bíldudalur, Skaftárhreppur og Raufarhöfn, þar sem verkefnið er lengst komið. Umsjón með íbúaþinginu hafði Ildi, þjónusta og ráðgjöf. aij@mbl.is