— AFP
Marissa Mayer, forstjóri bandaríska netfyrirtækisins Yahoo, flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu um tækni- og neytendamál, International CES, í Las Vegas í gær.

Marissa Mayer, forstjóri bandaríska netfyrirtækisins Yahoo, flutti erindi á alþjóðlegri ráðstefnu um tækni- og neytendamál, International CES, í Las Vegas í gær. Ráðstefnan hófst í gær og stendur fram á sunnudag en þar munu fjöldamörg fyrirtæki, þar á meðal Yahoo, kynna nýjustu vörurnar sínar. Búist er við því að um 150 þúsund manns sæki ráðstefnuna í ár.

Mayer, sem er aðeins 38 ára gömul, settist í forstjórastól Yahoo í júlí árið 2012, en áður var hún yfirmaður hjá helsta keppinautnum, Google. Henni hefur heldur betur tekist að snúa rekstrinum við eftir erfið ár, en hún er sjötti forstjóri fyrirtækisins á fimm árum. Til marks um velgengni hennar hjá Yahoo hafa hlutabréf fyrirtækisins hækkað um 160% í verði frá því að hún settist í forstjórastólinn.

Afkoma fyrirtækisins var ofar væntingum greinenda í fyrra en það skilaði meðal annars 297 milljóna dala hagnaði á þriðja ársfjórðungi. Hækkuðu bréfin um 5% í kjölfarið. kij@mbl.is