Breytingar Þegar hann sá ekki fram á að geta fundið sér nýja vinnu í bráð lét Daníel verða af því að kaupa kaffihús. Hann unir sér vel í nýju hlutverki og vinnur með bros á vör.
Breytingar Þegar hann sá ekki fram á að geta fundið sér nýja vinnu í bráð lét Daníel verða af því að kaupa kaffihús. Hann unir sér vel í nýju hlutverki og vinnur með bros á vör. — Morgunblaðið/Þórður
Ásgeir Ingvarsson ai@mbl.is Daníel Tryggvi Daníelsson hefur sjaldan verið ánægðari með lífið. Hann hafði ekki þekkt annað en skrifstofustörf þangað til í nóvember að hann keypti, í félagi við foreldra sína, kaffihúsið C is for Cookie á Týsgötu.

Ásgeir Ingvarsson

ai@mbl.is

Daníel Tryggvi Daníelsson hefur sjaldan verið ánægðari með lífið. Hann hafði ekki þekkt annað en skrifstofustörf þangað til í nóvember að hann keypti, í félagi við foreldra sína, kaffihúsið C is for Cookie á Týsgötu.

„Ég hafði verið án atvinnu um nokkurt skeið og var ekki að sjá að horfurnar væru að fara að batna,“ segir Daníel sem er með meistaragráðu í alþjóðaviðskiptum. „Ég hafði aldrei staðið í veitingarekstri áður, og ekki einu sinni starfað á kaffihúsi. Það eina sem ég þekkti var skrifborðsvinna.“

Kveðst Daníel hafa verið ögn áhyggjufullur yfir því hvort hann myndi finna sig í nýja hlutverkinu. „Ég hafði sumpart talið mér trú um það að ég væri manngerðin sem þyrfti helst að fá að vinna út af fyrir sig, einn í ró og næði. En ég henti mér út í þetta og uppgötvaði fljótt að ef maður er almennilegur, brosir og gerir sitt besta, þá kann fólk vel að meta það og vinnudagurinn verður eintóm ánægja.“

Daníel segir að í grunninn séu lögmálin þau sömu í rekstri kaffihúss og rekstri annarra fyrirtækja og bakgrunnur hans og menntun hafi því nýst vel í nýja starfinu. „Og það sem upp á vantar lærir maður smám saman. Fyrri eigendur staðarins skildu líka vel við, með mjög skýrar áætlanir og gott yfirlit um hvað þarf að panta hvaðan, og hvenær. Ég er alls ekki svo viss um að það hefði verið svona auðvelt og áreynslulaust fyrir óreyndan mann eins og mig að hefja rekstur af þessu tagi frá grunni.“

C is for Cookie sker sig frá öðrum kaffihúsum með miklu úrvali af réttum og bakkelsi handa þeim sem hugsa um mataræðið. Segir Daníel að þar megi t.d. finna sittvað af góðgæti sem hentar grænmetisætum og þeim sem vilja dýraafurðalaust eða glútenlaust mataræði. „Nafnið á staðnum er fengið að láni úr barnaþáttunum vinsælu Sesame Street, og endurspeglar andann hérna inni. Þetta á að vera heimilislegur og notalegur staður og gera fastakúnnarnir sig stundum svo heimakomna að maður veit ekki fyrr en þeir eru búnir að afgreiða sig sjálfa um einn kaffibolla eða kökusneið.“