Georg Þór Steindórsson fæddist í Reykjavík 28. júlí 1972. Hann lést af slysförum 26. desember 2013.

Hann var sonur Önnu Marie Georgsdóttur, f. í Reykjavík 28. júlí 1954 og Steindórs Steinþórssonar, f. í Reykjavík 20. júlí 1950. Foreldrar Önnu Marie eru Georg Jósefsson, f. 3. október 1928, d. 31.12. 1994 og Steinlaug Sigurjónsdóttir, f. 21. desember 1935. Foreldrar Steindórs voru Steinþór Eiríksson, f. 8. október 1904, d. 4. mars 1994 og Guðríður Steindórsdóttir, f. 12. október 1916, d. 26. ágúst 2001.

Barn Georgs Þórs og fyrrverandi sambýliskonu, Katrínar Guðjónsdóttur, f. 24. september 1974, Tinna, f. 11. desember 1993. Þau slitu samvistum. Systir Georgs er Margrét Lind Steindórsdóttir, f. 16. maí 1979, gift Björgvini Guðjónssyni, f. 29. janúar 1975. Börn Margrétar og Björgvins eru Bjarki Freyr, f. 4. ágúst 2003 og Breki Þór, f. 24. október 2012. Í sambúð með Sigrúnu Hörpu Grétarsdóttur, f. 5. mars 1975, þau slitu samvistum. Í sambúð með Bergþóru Ólafsdóttur, f. 29. september 1984, þau slitu samvistum og síðast í nýlegu sambandi við Sigrúnu Þorvaldsdóttur, f. 10 október 1974.

Georg Þór ólst upp með foreldrum sínum fyrstu árin að Reynimel 24, í sama húsi og æskuheimili föður hans var. Síðan lá leiðin í Seljahverfið þar sem fjölskyldan hreiðraði um sig stuttu eftir að Margrét Lind, systir hans, kom í heiminn. Georg Þór var fyrsta námsárið í Melaskóla og síðan í Seljaskóla. Um tíma var hann á samningi í málaraiðn og í námi við Iðnskólanum í Reykjavík.

Georg hóf snemma að vinna við hin ýmsu störf, m.a. hjá Ístaki í byggingarvinnu og um tíma var hann til sjós. En segja má að alla sína starfsævi hafi Georg Þór unnið við húsamálun, bæði hjá öðrum og sem sjálfstætt starfandi. Hann átti m.a. öfluga jeppa sem hann fór á fjölmargar ferðirnar á fjöll með vinum sínum og var félagi í 4x4 klúbbnum. Þá áttu mótorhjól hug hans enda eignaðist hann fjölmörg hjól.

Útför Georgs Þórs fer fram í Vídalínskirkju í Garðabæ í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Þú ert besti faðir sem ég hefði nokkurn tímann getað óskað mér. Ég hef alltaf verið svo stolt af þér. Þú varst alltaf til staðar fyrir mig og tilbúinn til að hlusta á mig, ég gat talað við þig um allt, eins og besta vin. Þú verður alltaf í hjarta mínu.

Ég mun aldrei gleyma góðu minningunum okkar saman. Þegar ég var lítil þá varstu mín stóra fyrirmynd, ég vildi vera alveg eins og þú, hlusta á sömu tónlist, verða húsamálari. Við vorum líka mjög lík.

Hef alltaf verið svo mikil pabbastelpa, hlustaði meira á þig heldur en nokkurn annan. Ef einhver sagði annað þá hugsaði ég bara: „Nei, pabbi segir að það sé ekki rétt.“

Þegar ég varð eldri, þá hlustaði ég ennþá á þig, vildi ennþá verða húsamálari, uppáhaldshljómsveitirnar mínar voru þínar uppáhaldshljómsveitir. Vildi eignast eins bíla og þú, þú varst mikið fyrir flotta bíla. Ég hafði mikinn áhuga á að vita flestallt um bíla bara svo ég gæti verið nánari þér, átt meira sameiginlegt.

Þó þú sért farinn þá muntu samt alltaf vera hjá mér. Hjálpa mér í gegnum framtíðina. Okkar uppáhaldshátíð voru áramótin og ég hefði viljað að þú hefðir getað notið þín þessi áramót, varst alltaf með svo mikla sýningu fyrir fjölskylduna. Þetta var þinn dagur. Ég man ekki eftir neinum áramótum þar sem ég var ekki við hliðina á þér horfandi á flugeldana saman og að skemmta okkur. Við eltum allar flugeldasýningar með bros á vör, bentum á stóru flugeldana og hrópuðum „VÁ!!!“

Hver flugeldur minnir mig á þig, þú varst með besta útsýnið þessi áramót og þau sem eiga eftir að koma.

Ég elska þig og bíð eftir þeim degi þegar við hittumst aftur.

Tinna

Georgsdóttir.

Elsku hjartans Georg minn. Það er erfitt að trúa því að þú sért horfinn frá okkur svona ungur og það verður tómlegt að fá þig ekki í heimsókn lengur, þú sem varst svo duglegur að skjótast til mín, alltaf hress og faðmur þinn traustur og hlýr. Það var aldrei nein lognmolla í kringum þig, algjör sólargeisli, elsku vinurinn minn, svo lífsglaður og skemmtilegur. Alltaf stutt í glens og smitandi hlátur. Það verður aldrei hægt að fylla það skarð í fjölskyldunni.

Við áttum ógleymanlega ferð þegar við fórum til Danmerkur, þar sem fjölskyldan leigði sumarbústað til að halda upp á fertugsafmælið þitt þar sem við vorum tíu saman og skemmtum okkur vel.

Þú varst mjög góður málari, bæði vandvirkur og öruggur. Sérlega góður faðir og hugsaðir vel um dóttur þína, sem dáði þig, enda hefur hún misst mikið, bæði góðan vin og föður.

Það er átakanlegt fyrir foreldra þína að missa sinn einkason, sem þau voru svo stolt af. Guð gefi þeim styrk. En enginn veit hvenær kallið kemur. Systir þín og hennar fjölskylda sem býr í Danmörku eiga um sárt að binda og synir þeirra löðuðust að þér og sjá á eftir góðum frænda. Þú varst góður bróðir, mágur og félagi.

Ég bið Guð að varðveita þig, elsku vinurinn minn, og þakka þér yndislegar og ógleymanlegar ánægjustundir sem við áttum saman, þar til við hittumst á ný.

Hvert örstutt spor var auðnuspor með þér,

hvert andartak er tafðir þú hjá mér.

(Halldór Kiljan Laxness)

Þín elskandi amma,

Steinlaug Sigurjónsdóttir.

Elsku hjartans Goggi minn, hver hefði getað trúað því að ég væri að kveðja þig í síðasta sinn þegar þú kvaddir mig með fallegum orðum og kysstir mig bless.

Ég er svo þakklát í hjarta mínu fyrir allan þann tíma sem við áttum saman. Við vorum búin að þekkjast í 15 ár og búin að búa saman í tæpt ár, þessir tímar eru mér svo dýrmætir. Ég gat talað við þig um mín dýpstu leyndarmál og þú hvorki dæmdir mig né gagnrýndir. Þú sagðir mér líka þín dýpstu leyndarmál sem enginn vissi af. Ég geymi það í hjarta mínu, þar til við hittumst á ný.

Það var alltaf stutt í grínið hjá þér enda ofboðslega skemmtilegur með yndislegt bros sem bræddi mann alla leið, enda ekki skrítið að lagið okkar Ég ætla að brosa með Ný danskri sé lagið okkar. Við grínuðumst mikið og gerðum gott úr öllu saman.

Takk fyrir að hafa trú á mér og hjálpa mér að komast á þann stað sem ég er á. Ég er að byrja í námi þar sem þú sagðir að mínir hæfileikar væru og þar væri framinn minn. Þú dáðist oft að því hvað ég væri búin að föndra mikið og gera heimilið okkar fallegt. Þú áttir stóran þátt í því, fallegi málarinn minn.

Dagur Smári spyr og spyr um þig og ég reyni eftir bestu getu að svara honum, hann var orðinn mjög hændur að þér og saknar þín ofboðslega.

Elsku hjartans Tinna mín, þú veist að dyrnar eru alltaf opnar hjá mér og ég er bara eitt símtal í burtu. Ég sendi mínar innilegustu samúðarkveðjur á sorgarstund. Góður Guð styrki þig og leiði.

Elsku Goggi minn, það er stórt gat í hjarta mínu en minningarnar munu ávallt lifa í hjarta mér. Takk fyrir allt, elsku ástin mín.

Ég ætla að brosa

brosa til þín

því allt verður betra

er þú brosir til mín.

Sælan hún hríslast,

hríslast um mig

þegar ég sé þig

og ég brosi til þín

eigum við eitthvað

annað en hvort annað

sem skiptir máli á örlagabáli

við eigum hvort annað,

eigum hvort annað að.

Ég ætla að brosa

brosa til þín

því allt verður betra

er þú brosir til mín

við eigum hvort annað,

eigum hvort annað að.

Þín elskandi að eilífu,

Sigrún Þorvaldsdóttir.

Hjarta mitt er brostið. Ég mun aldrei gleyma því símtali sem breytti öllu á einu andartaki, aðfaranótt annars dags jóla, mamma var í símanum grátandi: „Hann er dáinn, Georg er dáinn.“

Tíminn eftir þetta samtal hefur verið sá erfiðasti í mínu lífi, dofinn, tómleikinn, sem umlykur hjarta mitt er óyfirstíganlegur, hjarta mitt er brostið og mun aldrei gróa að fullu aftur, því brotin fóru með þér þegar þú yfirgafst þennan heim.

Eina huggun mín er sú að ég veit að þú munt varðveita þessi brot mín, þú munt varðveita þau sem dýrmætar stjörnur á himni, því þessi brot eru ég og þú, blóðband okkar, kærleikur okkar, æska okkar og allar þær yndislegu minningar sem ég á um okkur saman.

Ég mun ávallt geta horft upp til stjörnubjarts himins með gleði og söknuð í hjarta vitandi það að þú munt fylgjast með mér, litlu systur þinni, og gefa mér styrk í minni lífsgöngu sem eftir er.

Og ég mun áfram horfa upp til þín, elsku bróðir, einungis með öðrum hætti nú, með endalausu þakklæti fyrir að hafa átt þig að þó að klippt hafi verið á streng okkar allt of fljótt.

Englar eins og þú:

Þú tekur þig svo vel út

hvar sem þú ert.

Ótrúlega dýrmætt eintak,

sólin sem yljar

og umhverfið vermir.

Þú gæðir tilveruna gleði

með gefandi nærveru

og færir bros á brá

svo það birtir til í sálinni.

Sólin sem bræðir hjörtun.

Í mannhafinu

er gott að vita

af englum

eins og þér.

Því að þú ert sólin mín

sem aldrei dregur fyrir.

(Sigurbjörn Þorkelsson)

Margrét Lind

Steindórsdóttir.

Ég trúi því varla að bróðursonur minn, Georg Þór, sé horfinn okkur úr þessari jarðvist.

Mér finnst svo stutt síðan hann var trítlandi um á Reynimelnum, búandi í ömmu og afa húsi fyrstu árin. Líflegur gutti, bjartur yfirlitum, ævinlega svo fallega klæddur í fatnað sem móðir hans saumaði og prjónaði af svo miklum myndarskap.

Við minnumst samverustunda með stórfjölskyldunni, við leik og störf í sumarhúsi foreldra minna í Hveragerði, stórhátíða og þorrablótanna okkar.

Brosið þitt breiða og hlýja, hressileikinn sem einkenndi þig, allt eru þetta dýrmætar perlur í sjóði minninganna.

Ég bið algóðan guð að styrkja Tinnu, foreldra þína, Margréti einkasystur þína og fjölskyldu hennar, ömmu Steinu og annað náið venslafólk í sorg þeirra.

Lífið hefur hendur kaldar,

hjartaljúfur minn.

Allir bera sorg í sefa,

sárin blæða inn.

Tárin fall heit í hljóði,

heimur ei þau sér.

Sofna vinur, svefnljóð

meðan syng ég yfir þér

Þreyttir hvílast, þögla nóttin

þaggar dagsins kvein.

Felur brátt í faðmi sínum

fagureygðan svein.

Eins og hljóður engill friðar

yfir jörðu fer.

Sof þú væran, vinur,

ég skal vaka yfir þér.

(Kristján frá Djúpalæk)

Sveinbjörg Steinþórsdóttir.

Elsku Georg, þú varst besti frændi í heimi. Þú skildir mig alltaf, öll orð sem ég sagði. Það var alltaf gaman hjá okkur og allri fjölskyldunni. Þú hafðir alltaf tíma fyrir mig og þá var skemmtilegt. Það var notalegt þegar þú komst í heimsókn til okkar. Þú sagðist stundum heita Gísli og við grínuðumst oft með það.

Ég veit að þú ert hjá Guði núna sem passar þig vel.

Þinn frændi,

Bjarki Freyr.

Það var harkalegt að vakna að morgni annars í jólum við þau tíðindi að frændi minn og vinur, Georg Þór, hefði látist þá um nóttina af slysförum. Við fráfall streyma minningarnar fram sem eru dýrmætar og munu fylgja mér.

Við vorum nær jafnaldrar systkinasynirnir og ólumst upp í nánum samgangi fjölskyldunnar. Um tíma bjuggum við í sama hverfi og gengum í sama grunnskóla. Það þarf varla að tíunda að skólaár okkar einkenndust af prakkarastrikum, par excellence. Flest, eðlilega, við litla hrifningu foreldra okkar og stundum skólayfirvalda í ofanálag.

Margt var brallað, t.d. dúfnarækt í stórhýsi miklu sem við reistum úr efnivið sem við áttuðum okkur ekki á að væri ekki til frjálsrar notkunar en þá var efri hluti Seljahverfis í uppbyggingu. Það dæmdist á Gogga, eins og hann var ávallt kallaður, að sitja fyrir svörum þegar húsbyggjendur í nágrenninu komu til okkar og þóttust þekkja efniviðinn sem dúfnahöllin var reist úr. Stóð þá ekki á svörum hjá mínum manni frekar en vanalega.

Áhugi hans á vélknúnum tækjum og tólum byrjaði snemma. Við vorum settir í unglingavinnuna í uppeldisskyni þegar við höfðum aldur til. Hamingjusamir á sláttuorfunum allt þar til aðrir fóru að sjá ofsjónum yfir þessum sérverkefnum okkar og báru fram kvörtun. Við teknir af orfunum og settir á strákústa, þar með lögðum við niður störf. Síðar tóku við hjá Gogga skellinöðrur, torfæruhjól, bílar og stór vélhjól. Allt sem kallaði fram hraða, kraft og aksjón átti hug hans.

Tíminn milli jóla og nýárs var annatími hjá okkur frændunum, gerð púðurkerlinga og mikið sprengt. Ávallt var gamlárskvöld skemmtilegasta kvöld ársins hjá frænda mínum og ekki til sparað að gera það sem eftirminnilegast.

Við völdum sömu starfsgrein og unnum mikið saman í málningargeiranum. Það var ofsalega gaman að vinna með honum og þægilegt, mikið grín og léttleikinn í fyrirrúmi. Við unnum saman eins og vel smurð vél þar sem allt gekk hratt og örugglega fyrir sig. Hann var góður fagmaður og duglegur, hann var einnig mjög lagtækur við smíðar.

Á seinni árum höfðum við daglegt samband atvinnu okkar vegna. Hans verður sárt saknað í daglegum kaffisopa og spjalli þar sem oft voru rifjaðar upp gamlar og góðar minningar.

Það er sárt að sjá á eftir þér, Goggi minn, svona ungum, svo margt ógert eins og að fygjast með henni Tinnu þinni. Ég bið algóðan Guð að styrkja hana og styðja, foreldra þína, systur, fjölskyldu og aðra nákomna aðstandendur.

Kallið er komið,

komin er nú stundin,

vinaskilnaðar viðkvæm stund.

Vinirnir kveðja

vininn sinn látna,

er sefur hér hinn síðsta blund

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem)

Emil Orri

Michelsen.