Hótel Á Hverfisgötu 103 verður lúxushótel. Myndin hér að ofan sýnir ekki endanlegt útlit hússins.
Hótel Á Hverfisgötu 103 verður lúxushótel. Myndin hér að ofan sýnir ekki endanlegt útlit hússins. — Teikning/Opus
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is Byggingarfulltrúi Reykjavíkur samþykkti á þriðjudaginn niðurrif á húsunum á lóð Hverfisgötu 103. Verslunin Nexus var áður þarna til húsa.

Gunnar Dofri Ólafsson

gunnardofri@mbl.is

Byggingarfulltrúi Reykjavíkur samþykkti á þriðjudaginn niðurrif á húsunum á lóð Hverfisgötu 103. Verslunin Nexus var áður þarna til húsa. Lóðin er á svæðinu milli Barónsstígs og Snorrabrautar, neðan við Hverfisgötuna. Til stendur að reisa 100 herbergja lúxushótel á lóðinni.

„Niðurrifið hefst bara núna í janúar,“ segir Sigurður Andrésson, framkvæmdastjóri og eigandi SA Verks ehf., sem sér um niðurrifið og uppbygginguna. Sigurður vonast til að framkvæmdum verði að miklu leyti lokið í sumarbyrjun.

Hótelið á að taka til starfa í maí 2015 og verður rekið af KEA-hótelum, hannað á teiknistofunni Opus á Akureyri.

KEA mun einnig hafa tryggt sér gamla Reykjavíkurapótekshúsið við Austurstræti 16 undir hótelrekstur.

U-laga hótelbygging

„Hótelið verður á allri lóðinni, U-laga og opnast til vesturs,“ segir Sigurður, en sjá má drög að útliti hússins á myndinni hér að ofan til hliðar. Útlitið gæti þó tekið nokkrum breytingum frá því sem hér birtist, þar sem hönnunarvinnu er ekki lokið.

„Þetta verður myndarlegt hótel og löngu kominn tími til að lyfta þessari götu aðeins upp,“ segir Sigurður. Hann bendir á að mikil uppbygging sé á Hverfisgötunni, og nefnir Hljómalindarreitinn sem dæmi.

„Sú framkvæmd nær alveg niður að Hverfisgötunni.“ Inngangur hótelsins verður á jarðhæð, en í dag er reiturinn nokkru lægri en nærliggjandi Hverfisgata. Sigurður segir að þar verði bílakjallari, auk þess sem veitingastaður verður að öllum líkindum á hótelinu.

„Það er gert ráð fyrir að hægt verði að sitja úti inni í U-inu,“ segir Sigurður. Sóldýrkendur ættu að geta notið sólarinnar á hótelinu yfir sumarmánuðina, því nærliggjandi hús eru ekki það há að þau skyggi algjörlega á sumarsólina. „Það verður örugglega notalegt.“

Veitingahús á Hverfisgötu 12

Sæmundur í sparifötunum, eigandi KEX-hostels, sótti um byggingarleyfi til að innrétta veitingastað í húsnæði neðar í sömu götu, við Hverfisgötu 12, á horni Ingólfsstrætis og Hverfisgötu.

Pétur Marteinsson, einn eigenda fyrirtækisins, vildi lítið gefa upp um hvað til stæði að gera í húsnæðinu, en sagði að von væri á að það myndi skýrast mjög fljótlega. Sama teymi og er að baki KEX sækir um leyfið, en við Hverfisgötuna verður þó ekki gistiaðstaða.

Byggingarfulltrúi hafnaði umsókn fyrirtækisins á þeim grundvelli að umsögn Reykjavíkur vantaði, en húsið er eitt elsta steinsteypta hús í Reykjavík, byggt árið 1910. Pétur segir að það setji ekki strik í reikninginn því þeir ætli sér að færa húsið nær upprunalegri mynd frekar en hitt. Guðmundur Hannesson læknir byggði húsið, en hann er sagður einn helsti arkitektinn á bak við aðalskipulag Reykjavíkur árið 1927.