Þó ekki fari mikið fyrir því, þá hefst knattspyrnuvertíðin 2014 í kvöld. Flautað verður til fyrsta leiksins í Reykjavíkurmóti karla í Egilshöllinni klukkan 19 og þar með rúllar boltinn af stað á ný.
Þó ekki fari mikið fyrir því, þá hefst knattspyrnuvertíðin 2014 í kvöld. Flautað verður til fyrsta leiksins í Reykjavíkurmóti karla í Egilshöllinni klukkan 19 og þar með rúllar boltinn af stað á ný. Við notalegar aðstæður, bæði fyrir leikmenn og þjálfara. Þetta er fimmtándi veturinn þar sem íslenskir fótboltamenn geta spilað á stórum völlum innanhúss, en um þetta leyti árið 2000 var fyrsta knattspyrnuhúsið, Reykjaneshöllin, tekið í notkun. Hún markaði mikil tímamót.

En þó aðstaðan sé óvíða betri að vetrarlagi í norðurhluta Evrópu, búa ekki allir við slík gæði. Eins og ítarlega var fjallað um í blaðinu í gær er aðstöðuleysið hjá 1. deildarliði Tindastóls á Sauðárkróki algjört á veturna. Þar er ekki einu sinni upphitaður sparkvöllur utanhúss þó slíka sé að finna í flestum þorpum og við fjölmarga af skólum landsins.

Það er dapurlegt að Sauðkrækingar skuli vera í þeim sporum að vera í þann veginn að draga lið sitt úr keppni í 1. deild. En afstaða þeirra er samt bæði skiljanleg og ábyrg. Til að halda út liði í efstu deildum í litlum bæjarfélögum þarf annaðhvort að fá leikmenn af höfuðborgarsvæðinu eða frá útlöndum til að liðið verði samkeppnishæft, og oftast verður síðari kosturinn fyrir valinu. Ungir leikmenn eru nefnilega mikið tregari en á árum áður til að fara út á land á sumrin og spila þar. Ef þeir fást til þess eru þeir jafnvel dýrari í rekstri en útlendingarnir.

Tindastólsmenn ætla að vinda ofan af þessu, einbeita sér að sínum ungu leikmönnum og láta þá um að spila fyrir hönd félagsins. Það kæmi mér ekki á óvart þó fleiri félög myndu feta í þeirra fótspor á næstu árum.