Efsta deild Borghildur hefur séð menn senda upplýsingar um gang leikja í efstu deild kvenna út í heim. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Efsta deild Borghildur hefur séð menn senda upplýsingar um gang leikja í efstu deild kvenna út í heim. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. — Morgunblaðið/Kristinn
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Knattspyrnudeild Breiðabliks byrjaði í haust að setja inn ákvæði í samninga við starfsmenn deildarinnar sem bannar þeim að veðja á leiki Breiðabliks eða Augnabliks sem tengist félaginu.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Knattspyrnudeild Breiðabliks byrjaði í haust að setja inn ákvæði í samninga við starfsmenn deildarinnar sem bannar þeim að veðja á leiki Breiðabliks eða Augnabliks sem tengist félaginu. Stefnan er að ákvæðinu verði smátt og smátt komið inn í samninga allra starfsmanna deildarinnar.

„Við þurfum að bregðast við umheiminum eins og hann er að þróast og reyna að setja varnagla áður en barnið er dottið í brunninn. Við vitum og höfum heyrt og séð erlendis að veðmál leikmanna og aðila sem tengjast liðum og hagræðing úrslita eru að verða meira og meira vandamál þar. Það var kveikjan að þessu,“ segir Borghildur Sigurðardóttir, formaður knattspyrnudeildarinnar.

Aðgengi að veðmálasíðum og fjárhættuspili á netinu hefur stóraukist á undanförnum árum. Borghildur segir að þetta hafi verið til umræðu hjá félaginu í nokkur ár, meðal annars eftir að ungur maður sem þjálfaði fyrir Breiðablik svipti sig lífi. Hann hafði staðið í fjárhættuspili, þó ekki sem tengdist knattspyrnu.

„Þetta var drengur sem félagið mat mikils og þetta var nokkuð sem enginn gat trúað að gæti gerst. Þetta var búið að vera til umræðu um nokkurn tíma. Við gátum ekki bannað fjárhættuspil en þetta er okkar leið til að sýna fram á að þetta sé varasamt og óæskilegt,“ segir hún.

Hægt að veðja á nánast allt

Borghildur segist ekki hafa heyrt af því að það sé vandamál á Íslandi að leikmenn eða starfsmenn hagræði úrslitum eða veðji á eða gegn eigin liði. Það sé ekki kveikjan að því að setja slíkt ákvæði inn í samninga félagsins. Henni hafi þó virst að nú til dags sé hægt að veðja á nánast allt í leikjum.

„Maður hefur séð menn á kvennaleikjum og öðrum leikjum sem eru að senda upplýsingar eitthvað út í heim um hvernig gangur mála er í leikjum. Þetta er til dæmis í Pepsídeild kvenna og ég held 1. deildinni líka. Þetta er komið út um allt,“ segir Borghildur.

Hún segist þó ekki geta dæmt um það hvort auðveldara sé að hagræða úrslitum í minni deildum eins og hér á landi.