Stefán Baldursson
Stefán Baldursson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Silja Björk Huldudóttir silja@mbl.

Silja Björk Huldudóttir

silja@mbl.is

„Mér finnst þetta afskaplega spennandi verkefni sem ég hlakka til að takast á við, enda ekki á hverjum degi sem settar eru upp nýjar íslenskar óperur,“ segir Stefán Baldursson óperustjóri, en hann mun leikstýra Ragnheiði , nýrri óperu Gunnars Þórðarsonar og Friðriks Erlingssonar um Ragnheiði Brynjólfsdóttur. Óperan, sem frumflutt var í tónleikaformi í Skálholti sl. sumar, verður sviðsett og frumsýnd hjá Íslensku óperunni í Eldborg 1. mars nk.

„Tónlist Gunnars er falleg, rómantísk og aðgengileg, en ber samt klassískt yfirbragð og líbrettó Friðriks er sérlega vandað og fallegt,“ segir Stefán og bætir við: „Ég gat því ekki annað en tekið verkefnið að mér þegar höfundarnir óskuðu eftir því að ég leikstýrði því.“

Stefán er ekki ókunnugur óperuleikstjórn, því hann hefur leikstýrt óperum ýmist á vegum Íslensku óperunnar eða Listahátíðar í Reykjavík og Sinfóníuhljómsveitar Íslands. Ragnheiður verður þriðja uppfærslan hans hjá Íslensku óperunni síðan hann settist í stól óperustjóra árið 2007, en árið 2010 leikstýrði hann óperunni Rigoletto eftir Verdi og árið 2007 setti hann upp óperudagskrána Óperuperlur .

Einvalalið á öllum póstum

Titilhlutverkið í Ragnheiði er sem fyrr í höndum Þóru Einarsdóttur en Elmar Gilbertsson fer með hlutverk Daða. „Elmar þreytir hér frumraun sína á íslensku óperusviði en hann lauk nýlega námi í Hollandi og hefur sungið þar í nokkrum óperuuppfærslum og vakið mikla athygli,“ segir Stefán. Líkt og áður fer Viðar Gunnarsson með hlutverk Brynjólfs biskups, en aðrir söngvarar úr frumflutningnum eru Jóhann Smári Sævarsson, Guðrún Jóhanna Ólafsdóttir, Bergþór Pálsson og Björn I. Jónsson, auk þess sem Elsa Waage og Ágúst Ólafsson bætast ný í sönghópinn. Þrjátíu manna kór Íslensku óperunnar og fimmtíu manna sinfóníuhljómsveit taka einnig þátt í sýningunni.

Að sögn Stefáns hefur hann fengið einvalalið á alla listræna pósta. „Hljómsveitarstjóri er Petri Sakari, en hann stjórnaði frumflutningnum, og aðstoðarhljómsveitarstjóri Guðmundur Óli Gunnarsson. Um lýsingu sér Páll Ragnarsson en hann er einn reyndasti ljósahönnuður landsins. Þórunn S. Þorgrímsdóttir sér um búninga og höfundur leikmyndar er Gretar Reynisson, en ég hef unnið mikið með þeim í gegnum tíðina,“ segir Stefán.

Allar nánari upplýsingar um uppsetninguna og miðasala er á opera.is og harpa.is.