Óskar Bergsson
Óskar Bergsson
Eftir Óskar Bergsson: "Það eru ekki bara hagsmunaaðilar í Úlfarsárdal sem orðið hafa fyrir forsendubresti, því Reykvíkingar allir bera skaðann af því að sú fjárfesting sem ráðist var í verði ekki nýtt eins og til stóð."

Verkið lofar meistarann er sagt um það sem er faglega unnið. Byggðin í Úlfarsárdal er metnaðarfull og dalurinn er sannarlega fallegur staður. Þar var ákveðið í Aðalskipuagi Reykjavíkur 2001-2024 að byggja glæsilegt íbúðarhverfi og öflugt atvinnusvæði með góðri tengingu við stofnbrautir höfuðborgarsvæðisins. Hverfið tengist við og styrkir íbúðarbyggðina í Grafarholti og var hugsað sem byggð handan við atvinnusvæðin við Vesturlandsveg nálægt Bauhaus. Umhverfi dalsins er fallegt frá náttúrunnar hendi, byggðin snýr á móti suðri með glæsilegu útsýni yfir Grafarholtið til Heiðmerkur, Bláfjalla og allt til Suðurnesja. Í miðjum dalnum rennur laxveiðiáin Korpa með brúm yfir í Grafarholt. Vestast í hlíðinni eru starfræktar gróðrarstöðvar þar sem gróðurinn hefur vaxið og eflst og veitir byggðinni bæði fegurð og skjól. Byggðin er vel tengd samgöngukerfi borgarinnar og sem dæmi má nefna eru fyrstu umferðarljós frá Úlfarsárdal við Grensásveg. Þetta fallega landsvæði getur tekið við miklu magni bygginga, bæði fyrir íbúðir og fyrirtæki, og hefur borgin möguleika á að úthluta margskonar byggingarlóðum á þessu svæði. Þrátt fyrir landgæði og staðfest skipulag hefur borgarstjórn ákveðið að ekkert verði af fyrirhugaðri uppbyggingu í dalnum. Þessi órökstudda og óábyrga ákvörðun hefur farið ótrúlega hljótt í fjölmiðlum eins og margt annað miður gáfulegt sem komið hefur frá borgarstjórn Reykjavíkur á undanförnum fjórum árum.

Fólk fjárfesti á grundvelli skipulags

Í nýsamþykktu aðalskipulagi Reykjavíkur 2010-2030 er staðfest að hætt verði við fyrirhugaða byggð í Úlfarsárdal. Enginn rökstuðningur er fyrir þessari stefnubreytingu og ekkert nýtt byggingarsvæði tekur við, nema þá helst þéttingarreitir í miðborginni sem flestir eru í eigu banka og byggingarfyrirtækja. Það er eins og borgarfulltrúar í dag láti sér í léttu rúmi liggja þá fjárhagslegu ábyrgð sem einstaklingar og fyrirtæki hafa lagt í á grundvelli skipulagsákvarðana sem almenningur hefur fram að þessu getið reitt sig á. Eins er ábyrgð borgarfulltrúa gagnvart sameiginlegum sjóðum Reykvíkinga mikil þar sem búið er að leggja í gríðarlegan kostnað við hönnun, veitukerfi og gatnagerð sem var hugsuð áratugi fram í tímann, en verður ekki nýtt nema að litlu leyti. Fyrirhugaðar tekjur af þeim fjárfestingum sem fyrir liggja munu ekki skila sér eins og ráð var fyrir gert. Lítið hefur farið fyrir umræðu og engin fyrirspurn komið fram um sokkinn kostnað borgarinnar vegna stefnubreytingar sem hreinsar hundruð byggingarlóða út af borðinu.

Pólitísk ákvörðun á faglegum forsendum

Í síbylju umræðunnar glymur það æ oftar að það sem er pólitískt sé ófaglegt og það sem er ópólitískt sé faglegt. Besti flokkurinn skilgreinir sig sem ópólitískt afl og reynir að láta líta út fyrir að þau tengist meira því faglega og skemmtilega. Þessi trumbusláttur hefur glumið nokkuð lengi og aðrir flokkar í borgarstjórn virðast vera komnir með hlustarverk af þessu, jafnvel slegnir pólitískri skákblindu því þeir virðast ekki þora að taka slaginn þótt staðreyndirnar blasi við. Ef vinnubrögðin við ákvarðanatökurnar í Úlfarsárdalnum eru eingöngu skoðuð faglega og án allrar pólitíkur þá blasa við ófagleg vinnubrögð: Fjárfesting borgarinnar í hönnun, gatnagerð og veitukerfi á grundvelli rammaskipulags er ekki lögð til grundvallar við stefnubreytinguna. Forsendubrestur þeirra sem fjárfestu í fyrstu áföngum nýs hverfis virðist ekki skipta máli. Fyrirhugað heildarumfang byggðar Reykjavíkur sem keypt var dýru verði til uppbyggingar virðist ekki skipta máli. Knattspyrnufélagið Fram, sem lagði framtíð sína undir þegar ákvörðun um skipulag þessa hverfis var tekin, situr uppi með meira en helmingi minna hverfi en reiknað var með í upphafi. Engin efnisleg rök virðast liggja til grundvallar þessari ákvörðun, sem hefur umtalsverð áhrif á fjárhag allra þeirra sem að málinu hafa komið. Borgarstjórnin, sem gefur sig út fyrir að vera ópólitísk, er sannarlega ekki fagleg, svo mikið er víst. Ef grannt er skoðað virðist upphaf þess að hætta við byggð í dalnum liggja í prívatskoðunum þeirra sem sitja í borgarstjórn um þessar mundir, búa flest í sama hverfinu og vilja að næsta íbúðarhverfi Reykjavíkur rísi þar sem miðstöð innanlandsflugsins er nú. Miklu á að fórna til að draumsýn þeirra nái fram að ganga. Það blasir við í þessu máli, eins og fleiri skipulagsmálum í borginni, að þessari ákvörðun þarf að breyta. Hér þarf pólitíska ákvörðun byggða á faglegum forsendum. Það verður að taka upp aðalskipulagið og leiðrétta þann forsendubrest sem íbúar og hagsmunaaðilar í Úlfarsárdal hafa orðið fyrir. Það eru ekki bara hagsmunaaðilar í Úlfarsárdal sem orðið hafa fyrir forsendubresti, því Reykvíkingar allir bera skaðann af því að sú fjárfesting sem ráðist var í verði ekki nýtt eins og til stóð. Nýtum fallegt land til uppbyggingar, gefum íbúunum staðfestingu á því að hverfið þeirra muni byggjast upp og klárum það verk sem hafið er í Úlfarsárdalnum.

Höfundur er oddviti Framsóknarflokksins fyrir borgarstjórnarkosningarnar.

Höf.: Óskar Bergsson