Vilborg Inga Guðjónsdóttir fæddist á Gaul, Staðarsveit, þann 1. maí 1950, hún lést á gjörgæsludeild Landspítalans 29. desember 2013. Foreldrar hennar voru Una Jóhannesdóttir, fædd 12. september 1908, dáin 21. janúar 1996 og Guðjón Pétursson, fæddur 6. maí 1894, dáinn 7. ágúst 1968, þau voru bændur á Gaul í Staðarsveit. Vilborg var yngst 12 systkina en 7 af þeim eru enn á lífi. Eftirlifandi maki er Finnbogi Þórarinsson, fæddur á Blönduósi 16.11 1949, börn þeirra eru Guðjón Sæberg, f. 31.1. 1969, maki hans er Oddný Garðarsdóttir, börn þeirra eru Vilborg Inga, f. 29.7. 1988, maki hennar er Gísli Líndal, f. 27.2. 1988 og sonur þeirra er Styrmir Líndal, f. 7.6. 2011. Kolbrún Líndal Guðjónsd., f. 29.5. 1990, maki hennar er Óttar Ágústsson, f. 17.2. 1986 og er sonur þeirra Kristján Bogi, f. 11.8. 2012 og Guðjón Reynir Guðjónsson, f. 29.4, 1994, Þórarinn Kristján Finnbogason, f. 13.3. 1975 og Lára Bogey Finnbogadóttir f. 31.1.1984.

Vilborg ólst upp á Gaul og bjó þar þangað til hún fór á Kvennaskólann á Blönduósi 1967 og kláraði hún nám sitt þar en þar kynntist hún eiginmanni sínum og hófu þau að búa saman á Blönduósi 1967. Þaðan fluttu þau svo á Akranes í ágúst 1970 og voru þau búsett þar alla sína búskapartíð.

Vilborg byrjaði að vinna á Akranesi hjá Haraldi Böðvarssyni og var þar í nokkur ár, þaðan fór hún í Blómaríkið og var hún þar í mörg ár en blóm og skreytingar voru hennar líf og yndi. Þegar hún fór þaðan þá lá leiðin í þvottahúsið á Hjúkrunar- og dvalarheimilinu Höfða en þar vann hún hvað lengst og undi sér vel þar en hún hætti þar 2011 vegna veikinda.

Útför Vilborgar fer fram frá Akraneskirkju í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 14.

Mér er orða vant að koma vel til skila að kveðja hana litlu mágkonu mína, litlu segi ég því að hún var yngst af 12 börnum hjónanna á Gaul og því voru börnin okkar Péturs á líku reki og hún. Ég hefi þekkt hana frá fæðingu og gerði mér til gamans að prjóna á hana peysur og húfur eins og á dóttur mína. Ég á henni mikið að þakka. Þegar við Pétur bróðir hennar fórum með Arnór son okkar til Danmerkur á endurhæfingarhæli eftir mikið slys, því þá var engin Grensásdeild hér, þá flutti hún með sína fjölskyldu heim til okkar og sá um heimilið og syni okkar þrjá á meðan við vorum í Danmörku. Einnig var hún yngsta syni okkar sem þá var 10 ára sérstaklega góð og fór hann alltaf til hennar ef ég þurfti að dvelja í Reykjavík hjá Arnóri á Landspítalanum. Hún var mikið listræn, saumaði út fögur verk, málaði og skar út, einnig nokkur ár skreytti hún fallega grein fyrir mig á leiði Péturs og Sigurjóns, bræðra sinna. Fyrir tveimur og hálfu ári veiktist hún af krabbameini og gekkst undir erfiða meðferð. En alltaf var hún hress og glöð og sagðist hafa það ágætt. Ég læt fylgja lítið ljóð sem segir hug minn betur en ég get gert.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Daprast hugur og hjarta.

Húmskuggi féll á brá.

Lifir þó ljósið bjarta,

lýsir upp myrkrið svarta.

Vinur þó félli frá.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Vilborg mín, þakkir fyrir allt. Þín mágkona,

Sigrún Clausen.

Það var árið 1983 að ég fór á fund þeirra Villu og Finnboga og bað þau að leigja mér lítið verslunarpláss sem þau höfðu í kjallaranum hjá sér. Þau voru meira en til í það og þar opnaði ég Blómaríkið nokkrum vikum síðar. Þetta voru mín fyrstu kynni af Villu. En nokkrum árum síðar þegar ég var flutt með búðina upp á Kirkjubraut kom Villa til mín og spurði hvort mig vantaði ekki aukavinnukraft fyrir jólin. Jú, mig vantaði hann og réð hana á staðnum. Hún vann svo hjá mér þennan desembermánuð og sumarið eftir leysti hún okkur af meðan við hinar fórum í frí. Hún kom eins og kölluð með allri sinni glaðværð og var einstaklega vel liðin bæði af þeim sem áttu eftir að vinna með henni og ekki síður viðskiptavinunum. Hún var sérlega listræn og fljót að læra allt í sambandi við blómin. Blómaskreytingar lágu sérlega vel fyrir henni. Mér er svo minnisstætt að ég bauð henni að fara á blómaskreytinganámskeið í Garðyrkjuskólann í eina viku.

Það var ótrúlegt hvað hún lærði mikið á þessum stutta tíma. Ég gat treyst henni fullkomlega fyrir búðinni ef ég þurfti að fara eitthvað í burtu. Ég man eftir einu skipti að ég fór til Danmerkur í nokkra daga. Á meðan sá hún um skreytingar fyrir tvö brúðkaup, ég leiðbeindi henni svolítið í gegnum síma, svo leysti hún þessi verkefni eins og hver annar meistari. Stundvísari manneskju hef ég ekki kynnst. Þegar Villa gekk upp tröppurnar á Blómaríkinu vantaði klukkuna tíu mínútur í eitt. Þegar ég svo hætti rekstri og seldi búðina þótti mér verst að þurfa að segja henni upp. Ég saknaði hennar líka mikið þegar við hittumst ekki lengur daglega enda vorum við þá búnar að starfa saman í átta ár. En við héldum alltaf sambandi, ég naut þess að kíkja á Sunnubrautina til þeirra hjóna, drekka kaffi og skoða fallega garðinn þeirra sem Villa var búin að fylla af rósum og öðrum blómum og Finnbogi búinn að byggja allskonar hús og gróðurhús og margt annað. Kæra vinkona, ekki datt mér í hug þegar þú komst inn í Blómaval á Þorláksmessukvöld að það yrði í síðasta sinn sem ég hitti þig. Ég spurði þig: hvernig hefur þú það? Þú svaraðir: Ég hef það fínt, það er ekkert að mér. En ég veit að hann Kiddi hefur tekið á móti þér þegar þú komst á leiðarenda og allir sem þekktu ykkur bæði vita hvernig þið hafið látið þá. Ég sendi Finnboga og fjölskyldunni allri mínar innilegustu samúðarkveðjur.

Kirstín Benediktsdóttir.