Aron Jóhannsson
Aron Jóhannsson
Forráðamenn danska knattspyrnuliðsins AGF vonast svo sannarlega eftir því að Aron Jóhannsson verði seldur frá hollenska liðinu AZ Alkmaar en verði það niðurstaðan mun það tryggja AGF væna summu í kassann.

Forráðamenn danska knattspyrnuliðsins AGF vonast svo sannarlega eftir því að Aron Jóhannsson verði seldur frá hollenska liðinu AZ Alkmaar en verði það niðurstaðan mun það tryggja AGF væna summu í kassann. AGF kom nefnilega því mikilvæga ákvæði inn í samninginn sem það gerði við AZ Alkmaar þegar það keypti Aron í janúar í fyrra að AGF fengi greiðslu yrði hann seldur frá hollenska liðinu. Danska blaðið Jyllandsposten greinir frá þessu.

11 mörk í 18 leikjum

Aron, sem er eins og kunnugt er orðinn bandarískur landsliðsmaður, hefur átt afar góðu gengi að fagna með AZ Alkmaar en hann hefur skorað 11 mörk í 18 leikjum með liðinu í hollensku úrvalsdeildinni það sem af er þessu keppnistímabili. Hann er í 3. og 4. sæti á markalista deildarinnar en Alfreð Finnbogason hjá Heerenveen, sem hefur skorað 17 mörk, og Graziano Pelle hjá Feyenoord, sem er með 13, eru þeir einu sem hafa gert betur. Framganga Arons hefur vakið verðskuldaða athygli og á dögunum var hann orðaður við enska úrvalsdeildarliðið Stoke. Sú upphæð sem var nefnd sem hugsanlegt kaupverð var fimm milljónir punda, 960 þúsund íslenskra króna, og ef Aron yrði seldur fyrir þá upphæð myndi AGF fá í sinn hlut upphæð sem nemur um 75 milljónum íslenskra króna. gummih@mbl.is