Uppgjör Kröfuhafar Glitnis eru óánægðir með hversu lítið þokast í nauðasamningsferlinu.
Uppgjör Kröfuhafar Glitnis eru óánægðir með hversu lítið þokast í nauðasamningsferlinu. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Hörður Ægisson hordur@mbl.is Til stendur á allra næstu vikum að ráða nýja fjármálaráðgjafa í stað breska ráðgjafarfyrirtækisins Talbot Hughes & McKillop (THM) sem hefur unnið náið með slitastjórn Glitnis og erlendum kröfuhöfum bankans síðustu ár.

Hörður Ægisson

hordur@mbl.is

Til stendur á allra næstu vikum að ráða nýja fjármálaráðgjafa í stað breska ráðgjafarfyrirtækisins Talbot Hughes & McKillop (THM) sem hefur unnið náið með slitastjórn Glitnis og erlendum kröfuhöfum bankans síðustu ár. Það er að frumkvæði stærstu kröfuhafa Glitnis, í gegnum óformlegt kröfuhafaráð bankans, að THM fær reisupassann en vaxandi óánægju hefur gætt á meðal margra kröfuhafa með hversu lítið hefur þokast við að ljúka uppgjöri bankans með gerð nauðasamnings.

Samkvæmt heimildum Morgunblaðsins vilja kröfuhafar Glitnis ráða innlent fjármálafyrirtæki og er þar einkum horft til Straums fjárfestingabanka. Stærsti einstaki kröfuhafi Glitnis, bandaríska sjóðstýringarfyrirtækið Davidson Kempner, á stóran hlut í Straumi í gegnum eignaumsýslufélagið ALMC, áður Straumur-Burðaráss. Nái það fram að ganga að Straumur verði fenginn sem ráðgjafi yrði um að ræða gríðarlega stórt verkefni fyrir bankann. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins er áformað að um tíu manna teymi – meira en fjórðungur af öllum starfsmönnum Straums – kæmi að slíku ráðgjafarverkefni.

Að sögn þeirra sem þekkja vel til stöðu mála eru MP banki og fjármálafyrirtækið Arctica Finance einnig nefnd sem mögulegir arftakar THM sem ráðgjafar fyrir kröfuhafa Glitnis en Arctica hefur meðal annars unnið að fjárhagslegri endurskipulagningu sumra af stærstu fyrirtækjum landsins. Ekki liggur fyrir á þessari stundu hvort slitastjórn Kaupþings mun einnig ráða á næstunni nýjan innlendan ráðgjafa í stað THM sem myndi starfa með stærstu kröfuhöfum bankans í gegnum hið óformlega kröfuhafaráð.

Ekki fengið áheyrn hjá stjórnvöldum

Meira en ár er síðan slitastjórnir Glitnis og Kaupþings óskuðu fyrst eftir beiðni um undanþágu frá höftum frá Seðlabanka Íslands í tengslum við nauðasamningsfrumvarp bankanna. Þeim beiðnum hefur í reynd verið hafnað af Seðlabankanum enda hafa slitastjórnir og fulltrúar þeirra ekki enn haft frumkvæði að því að koma með að borðinu útfærða lausn sem snýr að 420 milljarða krónueign búanna.

Það hefur legið fyrir í talsverðan tíma að staða helstu ráðgjafa kröfuhafa, einkum THM, hefur veikst. Rétt eins og fjallað var um í úttekt viðskiptablaðs Morgunblaðsins 12. desember sl. hefur það valdið ráðgjafahópi kröfuhafa áhyggjum að þeir hafa ekki fengið neina áheyrn hjá forystumönnum stjórnvalda. Sú staðreynd ræður miklu um að THM skuli nú vera skipt út fyrir innlent fyrirtæki.

Er það mat Glitnis og helstu kröfuhafa bankans að með aðkomu íslenskra fjármálaráðgjafa væri hugsanlega hægt að draga úr tortryggni gagnvart nauðasamningsferlinu. Þannig séu meiri líkur á að það takist fyrr en ella að ná lausn í þessu risavaxna máli.

Forsenda þess að hægt sé að stíga fyrstu skref í átt að afnámi fjármagnshafta er að það takist að ljúka uppgjöri Glitnis og Kaupþings með þeim hætti að það hafi ekki neikvæð áhrif á greiðslujöfnuð Íslands. Þótt nauðasamningsleiðin sé fyrsti kostur eru íslensk stjórnvöld um leið að vinna samtímis að hliðstæðri lausn sem yrði farin ef nauðasamningar nást ekki – að búin verði tekin til gjaldþrotaskipta og kröfuhafar fái aðeins greitt út í krónum. Kröfuhafar bankanna eru mjög áfram um að koma í veg fyrir að sú leið verði farin. 2