Brynhildur Maack Pétursdóttir fæddist í Reykjavík 18. september 1945. Hún varð bráðkvödd á bráðadeild Landspítalans í Fossvogi 7. desember 2013.

Útför hennar fór fram frá Fossvogskirkju 20. desember 2013.

Það var ekki hægt að hugsa sér betri ömmu en hana Brynhildi. Það var alltaf svo gott að koma til hennar og afa upp í Rauðahjalla. Þar var svo rólegt og gott andrúmsloft. Við eigum ótrúlega margar góðar minningar um ömmu Brynhildi. Ein þeirra var þegar við gistum hjá henni þegar við vorum yngri. Þá elduðu amma og afi hafragraut í morgunmat og við horfðum saman á Tomma og Jenna. Við eigum líka mjög góðar minningar um ömmu saman uppi í sumarbústað. Amma var alltaf í góðu skapi þegar við komum til hennar og það var svo gott og þægilegt að tala við hana. Andlát hennar var okkur mikið áfall þar sem við litum alltaf á hana sem unga og hressa ömmu sem ætti eftir að vera með okkur í mörg ár í viðbót. Við söknum hennar sárt en vitum þó að hún er enn með okkur og fylgist með okkur.

Elsku amma, takk fyrir allt sem þú gerðir fyrir okkur og gafst okkur.

Brynja, Logi og Hlini.

Að morgni 8. desember sl. hringdi síminn og okkur barst þessi sorgarfregn. Brynhildur er farin, hún er dáin. Að kvöldi 7. desember hafði hún sofnað svefninum langa. Síðustu sjö árin hafði hún glímt við sífellt áreitnari veikindi, en ekkert okkar bjóst samt við að dauðann bæri að svo brátt að sem raun varð á. Þrautseigja Brynhildar og æðruleysi var slíkt að henni tókst að halda von okkar vakandi um að batinn væri á næsta leiti.

Kynni okkar Brynhildar hófust þegar ég réð mig hjá Skil sf. um 1980, og hefur vinátta okkar ekki bara haldist, heldur aukist og vaxið æ síðan, svo og vinátta eiginmanna okkar.

Margar ljúfar og góðar minningar sækja á hugann við þessi tímamót. Brynhildur var hinn fullkomni leiðbeinandi með allt sem að starfinu laut, ætíð hjálpandi, aldrei dæmandi þótt öðrum yrði eitthvað á, heldur jákvæð, réttsýn og hjálpsöm. Við hjónin eigum margar góðar minningar frá samveru okkar Brynhildar og Ægis, bæði á heimili þeirra og sem ferðafélagar víða um Evrópu.

Ferðalögin okkar urðu mörg um m.a. Svíþjóð og Danmörku, en sérstaklega minnisverð er ferðin okkar til Helsingfors í Finnlandi í tilefni sextugsafmælis Brynhildar, sem Pétur bróðir hennar og Margrét kona hans fóru líka með okkur. Við ferðuðumst einnig um Þýskaland, fórum saman til Parísar og í sólarferðir til Mallorca. Þegar við Heimir komum og gistum hjá Brynhildi og Ægi fórum við oft í ferðir saman, nú síðast í sumar, þegar við ókum um Fljótshlíðina og nutum síðsumarsfegurðarinnar, eða þegar við fórum Uxahryggjaleið og áðum á heiðinni og nutum útsýnisins. Ekki grunaði mig þá að þetta yrðu síðustu stundirnar sem við ættum eftir að eiga saman.

Kæra vinkona, þín er og verður sárt saknað, ekki síst af vinum þínum. Sárastur verður þó alltaf söknuður ástvinanna. Kæru Ægir, Ásgeir, Sigrún og barnabörnin þrjú sem Brynhildi þótti svo vænt um og var svo stolt af, hugurinn hefur verið og er hjá ykkur, góður Guð styrki ykkur í sorg ykkar.

Guðrún S. Frederiksen,

Heimir Svavarsson.