[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
• Aldrei hafa fleiri ferðamenn sótt landið heim en á seinasta ári • Ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgrein okkar Íslendinga • Störfum í greininni hefur fjölgað mjög, eða um 1.

• Aldrei hafa fleiri ferðamenn sótt landið heim en á seinasta ári • Ferðaþjónustan er orðin stærsta útflutningsgrein okkar Íslendinga • Störfum í greininni hefur fjölgað mjög, eða um 1.800 á seinustu fimm árum • Margt bendir til þess að árstíðasveiflan sé á undanhaldi en nýting á heilsárshótelum hefur farið batnandi • Jákvæður kortaveltujöfnuður

Baksvið

Kristinn Ingi Jónsson

kij@mbl.is

Met var slegið á fyrstu ellefu mánuðum ársins 2013 en aldrei hafa fleiri erlendir ferðamenn sótt landið heim. Um 739.328 erlendir ferðamenn fóru frá landinu um Flugstöð Leifs Eiríkssonar sem er aukning upp á næstum tuttugu prósent milli ára. 2013 er því þriðja árið í röð sem svo mikil fjölgun milli ára hefur orðið, en á árunum 2011 og 2012 nam aukningin 19,6% og 17,8% á árunum 2010 og 2011.

Ferðaþjónustan sem atvinnugrein stóð lengi vel í skugganum af meginútflutningsgreinunum tveimur, áli og sjávarútvegi, en allt bendir til þess að greinin hafi á liðnu ári verið leiðandi þáttur í gjaldeyrisöflun í fyrsta sinn. Hefur því þessi tiltölulega unga atvinnugrein tekið við keflinu sem stærsta útflutningsgrein okkar Íslendinga.

Samkvæmt spám greinenda mun ekkert lát verða á þessari miklu fjölgun ferðamanna á næstu misserum. Greiningardeild Arion banka spáir því til dæmis að ferðamönnum muni fjölga í 809 þúsund á þessu ári og í 876 þúsund á því næsta. Gangi spáin eftir þýðir það að ferðamenn verði tæplega 230 þúsund fleiri á næsta ári en þeir voru árið 2012. Þá gerir ráðgjafafyrirtækið Boston Consulting, sem vann ítarlega skýrslu um stöðu íslenskrar ferðaþjónustu, ráð fyrir 7% árlegum vexti næstu tíu ár og að fjöldi ferðamanna verði 1,5 milljónir innan áratugar.

Uppgangur íslenskrar ferðaþjónustu hefur verið með ólíkindum eftir efnahagskreppuna haustið 2008. Árið 2012 skilaði greinin um 240 milljarða króna útflutningstekjum en til samanburðar námu útflutningstekjur sjávarútvegs 269 milljörðum króna og álframleiðslufyrirtækja 225 milljörðum króna. Kom rúmlega helmingur útflutningsteknanna frá farþegaflutningum með flugi, að því er fram hefur komið í greiningum hagfræðideildar Landsbankans.

Stærsta útflutningsgreinin

Í nýlegri greiningu hagfræðideildarinnar eru líkur leiddar að því að útflutningstekjur ferðaþjónustunnar hafi numið 285 milljörðum króna á síðasta ári og hafi því verið hærri en útflutningstekjur sjávarútvegsins.

Tekjurnar hafa jafnframt aukist mun meira en tekjur af sjávarafurðum og áli. Frá árinu 2009 til 2012 óx ferðaþjónusta um 54% en á sama tíma jókst útflutningur sjávarafurða um 29% og áls um 32%. Spáir hagfræðideildin því að útflutningstekjurnar muni taka mjög stór stökk á næstu árum og verði 392 milljarðar króna árið 2016. Það þýðir að aukningin verði rúmlega 150 milljarðar frá því sem var í lok árs 2012. Til að setja aukninguna í samhengi bendir hagfræðideildin á að áætlaðar afborganir af erlendum lánum annarra en ríkissjóðs og Seðlabanka Íslands nemi 134 milljörðum króna árið 2016.

„Aukið gjaldeyrisinnstreymi vegna ferðaþjónustunnar eingöngu mun því verða umfram afborganir erlendra lána árið 2016,“ segir í greiningunni.

Vöxtur þjónustuútflutnings hefur verið ör undanfarin ár en lágt raungengi krónunnar hefur vitaskuld stutt við þá þróun. Greiningardeild Arion banka hefur bent á að á síðustu fimmtán árum hafi þjónustuútflutningur farið úr því að vera ríflega 9,5% af landsframleiðslu árið 1997 í yfir 16% af landsframleiðslu árið 2012.

Til viðbótar hefur störfum í greininni fjölgað verulega en frá árinu 2008 hefur fjölgunin verið um 1.800 störf. Á sama tíma hefur störfum í landinu í heild fækkað um 9.800, samkvæmt útreikningum Samtaka ferðaþjónustunnar. Er reiknað með að um fimmtungur starfa á landinu tengist á einhvern hátt ferðaþjónustu.

Nýtingin fer batnandi

Gistinóttum erlendra gesta á hótelum hefur fjölgað mjög í takt við aukinn ferðamannastraum. Á fyrstu tíu mánuðum ársins 2013 nam fjöldi gistinátta rúmum einum og hálfum milljarði. Var aukningin um 13,7% frá sama tímabili á árinu 2012. Dreifing gistinátta yfir árið var þó mun jafnari á höfuðborgarsvæðinu en á landsbyggðinni og hefur sú verið raunin seinustu ár. Þó bendir ýmislegt til þess að þróunin sé að breytast og að nýtingin á heilsárshótelum fari batnandi. Sú þróun helst í hendur við minnkandi sveiflu milli árstíða.

Það hefur lengi verið markmið þeirra sem vinna við ferðaþjónustu hér á landi að lengja ferðatímabilið og draga úr árstíðasveiflunni svonefndu. Sveiflan er ekki séríslenskt fyrirbrigði en greinendur hafa hins vegar sagt að hún sé mun meiri hér á landi en í þeim löndum sem við berum okkur iðulega saman við.

Aðila í ferðaþjónustu bíður nú það erfiða verk að draga enn meira úr árstíðasveiflunni en það gefur augaleið að ef það tekst ekki verða fjárfestingar að aukast í greininni til að mæta frekari fjölgun ferðamanna. Annaðhvort verður nýting fjármagns innan greinarinnar að batna eða fjárfestingar að aukast.

Ef spá greiningardeildar Arion banka gengur eftir, og ferðamönnum fjölgar um 230 þúsund til ársins 2015, mun þurfa um 4.700 gistirúm á landsvísu á næstu tveimur árum til að mæta fjölguninni miðað við núverandi nýtingu.

Það er þó ekki hægt að segja annað en að markaðurinn hafi brugðist snarlega við fjölguninni á seinustu fimm árum. Fjöldi útgefinna leyfa Ferðamálastofu hefur aukist úr 261 árið 2008 í 811 fjórum árum síðar og hefur framboð gistirýma stóraukist. Flest bendir til þess að markaðurinn hér sé sveigjanlegur og fljótur að anna eftirspurn.

Jákvæður kortaveltujöfnuður

Mikill vöxtur var í kortaveltu útlendinga hér á landi á síðasta ári og fimmfaldaðist afgangur af svonefndum kortaveltujöfnuði borið saman við árið 2012. Alls nam kortavelta útlendinga hérlendis rúmum 86 milljörðum króna, sem er aukning upp á 16% frá því á árinu 2012, og er því um aðeins hægari vöxt að ræða en var í fjölda ferðamanna á árinu. Munurinn á kortaveltu Íslendinga erlendis og veltu útlendinga hér á landi, svonefndur kortaveltujöfnuður, nam hins vegar um 14,3 milljörðum króna á fyrstu ellefu mánuðum ársins. Það þýðir að kortaveltujöfnuðurinn var næstum fimmfalt meiri í fyrra samanborið við sama tímabil á árinu 2012, að því er fram hefur komið í greiningu Íslandsbanka. Fyrir hrun var jöfnuðurinn ávallt í halla en þessi þróun í kortaveltunni eftir hrun er í samræmi við aukinn afgang af þjónustujöfnuði.

Ef litið er til eyðslu á hvern ferðamann á föstu verðlagi virðist sem svo, að mati greiningardeildar Arion banka, að „hagsýnir“ ferðamenn hafi sótt landið heim í auknum mæli. Dregið hefur úr eyðslu hvers ferðamanns samhliða fjölgun þeirra og mætti raunar halda því fram að þeir ferðalangar sem sæki nú landið heim væru annaðhvort efnalitlir eða nískupúkar. Greiningardeildin bendir þó á að þær getgátur eigi sér ekki stoð í raunveruleikanum því kannanir Ferðamálastofu sýni fram á að það sé ekki síst efnafólk sem sæki landið heim. Því sé það spurning hvort skýringin á minni eyðslu felist ekki því að íslensk ferðaþjónusta bjóði ferðamönnum ekki upp á afþreyingarkosti, gistingu og aðra þjónustu sem þeir þurfi að greiða mikið fyrir.

Áhersla á virði ferðamanna

Margir sérfræðingar hafa bent á mikilvægi þess að leggja áherslu á virði ferðamanna, en ekki fjölda þeirra. Það er að fá færri ferðamenn en eyðsluglaðari til landsins.

Samkvæmt tölum World Tourism Organization eyddu Kínverjar mestu í ferðalögum erlendis árið 2012 en kröftugur vöxtur hefur verið í eyðslu þeirra undanfarin ár. Þýskir ferðamenn eyða einnig miklu á ferðum sínum og þá hafa rússneskir ferðamenn aukið eyðslu sína með verulegum hætti síðustu ár. Samkvæmt tölum Ferðamálastofu kemur hins vegar aðeins lítill hluti ferðamanna í dag frá Asíu hingað til lands, eða um 4%. Að sama skapi voru aðeins 0,7% ferðamanna, sem fóru um Leifsstöð, frá Rússlandi árið 2012.

Vaxtarverkir í ferðaþjónustunni

Samkvæmt þjóðhagsreikningum fyrir fyrstu níu mánuði seinasta árs mældist hagvöxtur í landinu 3,1% en hefði verið enginn ef útflutningstekna ferðaþjónustunnar nyti ekki við, að sögn Helgu Árnadóttur, framkvæmdastjóra Samtaka ferðaþjónustunnar. „Það er því ekki ofsögum sagt að ferðaþjónustan haldi uppi heildarhagvexti heillar þjóðar,“ segir hún í samtali við Morgunblaðið.

Hún segir að ferðaþjónustan sé orðin ein af undirstöðuatvinnugreinum þjóðarinnar og sé sem slík afar mikilvæg fyrir þjóðarbúið.

„Beinar skatttekjur ríkisins af ferðaþjónustu á seinasta ári eru áætlaðar um tuttugu milljarðar og óbeinar skatttekjur að minnsta kosti átta milljarðar,“ segir Helga. „Þá er atvinnusköpun innan greinarinnar með mesta móti. Gróflega reiknað hefur störfum í ferðaþjónustu fjölgað um tvö þúsund frá árinu 2008, en við þá tölu má einnig bæta aukningu í öðrum verslunar-og þjónustustörfum vegna afleiddra áhrifa frá ferðaþjónustunni. Á sama tíma hefur störfum í landinu í heild fækkað um tæplega tíu þúsund. Greinin er klárlega orðin mikilvæg fyrir þjóðarbúið, hvernig sem á það er litið,“ bendir hún á.

- Hvernig hefur gengið að draga úr árstíðasveiflunni?

„Árstíðasveiflan er sannarlega minni en áður, þó svo að hún sé enn til staðar, en mun fleiri ferðamenn sækja nú landið heim á öllum tímum ársins. Aukningin er mest yfir háveturinn.“ Helga segir það vera eitt af forgangsverkefnum að draga enn frekar úr sveiflunni þannig að öll starfsemi geti einnig dafnað vel yfir vetrartímann. „Það er lykilatriði hvað varðar hagkvæmni og stöðugleika greinarinnar að æ fleiri fyrirtæki sjái fram á að geta verið í rekstri árið um kring.“

Náttúran takmörkuð auðlind

Aðspurð hvernig gengið hafi að mæta þessari fjölgun ferðamanna segir Helga það hafa að mestu gengið með ágætum. „En svo eru það innviðirnir sem þarf að byggja enn betur upp í takt við þessa miklu aukningu. Í raun eru ákveðnir vaxtarverkir í ferðaþjónustunni. Náttúran er til að mynda afar mikilvæg enda er hún eitt helsta aðdráttarafl okkar. En hún er takmörkuð auðlind sem við þurfum að fara vel með. Þess vegna þurfum við að byggja vel upp í kringum okkar helstu ferðamannastaði,“ segir hún. Það sé lykilatriði.

Hún segir að ráðherra ferðamála, Ragnheiður Elín Árnadóttir, hafi nú þegar skipað starfshóp sem vinni að því að útfæra nánar hugmyndir um svokallaðan náttúrupassa til að fjármagna uppbyggingu á helstu ferðamannastöðum landsins. Nefndin muni skila af sér tillögum sínum innan tíðar. „Hér er meðal annars mjög nauðsynlegt að brugðist sé hratt og örugglega við,“ segir Helga. „Horft er sérstaklega til þess að útfærslan sé í takt við ímynd landsins, ferlið sé einfalt og að almennur skilningur sé fyrir hendi.“

Greinendur hafa bent á að þrátt fyrir að fyrirtækjum í ferðaþjónustu hafi farið fjölgandi og að veltan hafi aukist í greininni sé arðsemi ferðaþjónustufyrirtækja enn lítil og staða margra fyrirtækja erfið. Þannig hefur hagfræðideild Landsbankans bent á að raunarðsemi lánsfjármagns hjá hinu dæmigerða fyrirtæki í ferðaþjónustu hafi verið neikvæð í nokkuð mörg ár.

Hafa ekki náð stærðarhagkvæmni

Spurð um þetta segir Helga það vera rétt að staða margra fyrirtækja sé og hafi verið erfið. „Fyrst og fremst er það þessi títtrædda árstíðasveifla í atvinnugreininni. Hún gerir það að verkum að það er ekki jafnt framboð yfir allt árið sem gerir fyrirtækjum erfiðara um vik. Atvinnugreinin er ung, fyrirtækin eru mörg hver enn lítil og hafa ekki náð ákveðinni stærðarhagkvæmni,“ útskýrir hún. Þetta sé í raun hluti af þessum áðurnefndu vaxtarverkjum.

Það er í samræmi við umfjöllun hagfræðideildar Landsbankans þar sem segir að í smæð hins dæmigerða fyrirtækis felist eitt helsta verkefni ferðaþjónustunnar, að búa til stærri og hagkvæmari einingar sem skili betri arðsemi. „Tölurnar sýna að stærri fyrirtæki skilja meira eftir sig og eru arðsamari einingar og skiptir þar ekki máli í hvaða flokk ferðaþjónustunnar borið er niður,“ segir í umfjöllun deildarinnar.

Mörg fyrirtæki að stækka

Helga bendir þó á að innan ferðaþjónustunnar séu að verða til stærri fyrirtæki. „Skoðum til dæmis hvalaskoðun. Það er atvinnustarfsemi sem var ekki til fyrir nokkrum árum en nú áætlum við að á síðasta ári, 2013, hafi um 200 þúsund manns farið í hvalaskoðun. Um fjórtán fyrirtæki starfa í greininni, og þau stærstu eru með um 30 til 50 starfsmenn. Hefur störfum þar fjölgað verulega undanfarin ár.

Þá hafa jökla- og gönguferðir notið aukinna vinsælda allan ársins hring og hefur fyrirtækjum með ferðaskrifstofuleyfi sem bjóða upp á slíkar ferðir fjölgað ört síðustu misserin og má áætla að rúmlega 100.000 manns fari í slíkar ferðir á ári hverju. Í dag starfa til dæmis um 200 manns við þessa þjónstu hjá stærstu fyrirtækjunum þegar mest lætur og sextíu manns yfir vetrartímann,“ segir hún.

Norðurljósaferðir vekja athygli

„Þá eru dæmi um það að á þriðja þúsund farþegar fari í norðurljósaferðir á einu og sama kvöldinu,“ nefnir hún jafnframt. „Þá erum við að tala um 40 rútur, 40 bílstjóra og 40 leiðsögumenn auk annarra starfsmanna. Þetta eru allt dæmi um verðmætasköpun í greininni þar sem fyrirtækin eru smám saman að verða stærri og hagkvæmari sem skilar sér í enn betri arðsemi.

Ferðaþjónustan eykur allan fjölbreytileika í atvinnulífinu á Íslandi. Það er tækifæri sem við sem þjóð þurfum að nýta okkur. Tækifærið er okkar og nú þurfa allir að ganga í takt. Uppbygging og rekstur innviða þarf að taka mið af greininni ef hún á áfram að tryggja störf og gjaldeyristekjur en ekki síst hagvöxt fyrir íslenskt samfélag,“ segir Helga Árnadóttir, framkvæmdastjóri Samtaka ferðaþjónustunnar, að lokum.