Sigurður Júlíus Jóhannesson rithöfundur fæddist á Læk í Ölfusi 9.1. 1868. Foreldrar hans voru Jóhannes Jónsson bóndi og Guðlaug Hannesdóttir húsfreyja.

Sigurður Júlíus Jóhannesson rithöfundur fæddist á Læk í Ölfusi 9.1. 1868. Foreldrar hans voru Jóhannes Jónsson bóndi og Guðlaug Hannesdóttir húsfreyja.

Árið 1905 kvæntist Sigurður Halldóru Þorbergsdóttur Fjeldsted og eignuðust þau tvær dætur, Svanhvíti Guðbjörgu (Gordon Josie) lögfræðing og Málfríði Sigríði kennara.

Sigurður ólst upp í sárri fátækt, elstur átta systkina. Þegar hann var ellefu ára var æskuheimili hans leyst upp og fjölskyldan flutt hreppaflutningum í Borgarfjörðinn og ólst hann eftir það upp á Svarfhóli í Stafholtstungum.

Sigurður lauk stúdentsprófi frá Lærða skólanum í Reykjavík 1897. Hann lagði stund á læknisfræði, fyrst hér á landi, en flutti nánast félaus vestur um haf, stundaði síðan læknanám í Chicago í Bandaríkjunum, lauk þar læknisprófi 1907 og stundaði læknastörf um skeið. Þá lauk hann fyrrihlutaprófi í guðfræði við lúterskan prestaskóla í Chicago.

Sigurður var lengst af ritstjóri og rithöfundur og lengi búsettur í Winnipeg í Kanada. Hann var mikill barnavinur, einn af stofnendum Æskunnar 1897 og ritstjóri hennar. Auk þess ritstýrði hann barnablöðunum Sólskini, Sólöld og Veröld sem komu út í Kanada. Þá var hann ritstjóri Lögréttu í Winnipeg um skeið.

Sigurður var hugsjónamaður sem lét ekki aðra segja sér fyrir verkum. Hann var mikill bindindissinni og forvígismaður í bindindismálum Vestur-Íslendinga, einn af stofnendum Jafnaðarmannafélagsins í Winnipeg, heitur þjóðernissinni sem hrökklaðist til Kanada undan íslenskum yfirvöldum vegna stóryrða í frelsisbaráttunni og svo einlægur friðarsinni að hann lenti í útistöðum við yfirvöld í Kanada er hann neitaði að gegna herþjónustu.

Sögur og kvæði eftir Sigurð komu út í Winnipeg í tveimur bindum 1900-1903 og fjórar ljóðabækur eftir hann komu út í Reykjavík.

Siguður lést 12.5. 1956.