Um miðjan maí 2013 lýsti Seðlabankinn því yfir að hann ætlaði sér að vera virkari á gjaldeyrismarkaði – bæði með því að kaupa og selja gjaldeyri. Markmiðið væri að jafna skammtímasveiflur í gengi krónunnar.
Um miðjan maí 2013 lýsti Seðlabankinn því yfir að hann ætlaði sér að vera virkari á gjaldeyrismarkaði – bæði með því að kaupa og selja gjaldeyri. Markmiðið væri að jafna skammtímasveiflur í gengi krónunnar. Sumir óttuðust að bankinn myndi fara að ganga á skuldsettan gjaldeyrisforða til að halda aftur af óumflýjanlegri gengisveikingu. Annað hefur sem betur fer komið á daginn.

Þvert á móti virðist nú ljóst að Seðlabankanum hefur tekist að hafa nokkuð jákvæð áhrif á gjaldeyrismarkaðinn með því tiltölulega litla magni af gjaldeyri sem hann hefur selt – einkum á fyrstu mánuðum síðasta árs. Mjög dró úr árstíðarsveiflu á liðnu ári og gengi krónunnar hækkaði verulega. Sú staðreynd að Landsbankinn hefur haldið sig á hliðarlínunni og Orkuveitan ekki verið að safna gjaldeyri hefur einnig skipt sköpum.

Gengisstyrking krónunnar, í skjóli fjármagnshafta, er hins vegar aðeins kærkomin ef Seðlabankinn nýtir sér á sama tíma aukið innflæði gjaldeyris til að byggja upp gjaldeyrisforðann. Eftir að hafa dregið nokkuð úr gjaldeyriskaupum sínum keypti bankinn gjaldeyri fyrir 33 milljónir evra í desember, eða þriðjung af allri veltu mánaðarins. Bankinn keypti því meiri gjaldeyri – níu milljónum evra – en hann seldi á árinu 2013.

Eitt helsta markmið Seðlabankans er að byggja upp óskuldsettan gjaldeyrisforða. Slíkt gerist aðeins á löngum tíma með reglulegum kaupum. Líkur eru á því að krónan verði áfram sterk næstu misseri. Nauðsynlegt er að Seðlabankinn haldi áfram að bæta vel í sarpinn við þær aðstæður.