— Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Gert er ráð fyrir að norðurljós verði áberandi á norðurhveli jarðar í dag, fimmtudag.

Gert er ráð fyrir að norðurljós verði áberandi á norðurhveli jarðar í dag, fimmtudag. Hins vegar er því spáð að skýjað verði víðast hvar á landinu og að líklega eigi þau ekki eftir að sjást annars staðar en á Vestfjörðum og Norðurlandi vestra þar sem verði léttskýjað.

„Það er von á gusu svona rétt fyrir hádegi og leifar af henni verða kannski fram á kvöld,“ sagði Þórður Arason, sérfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is.

„Vandamálið er að það er alltaf svo skýjað. Við á höfuðborgarsvæðinu fáum ekki að sjá neitt. Það verður kannski bjart fram undir kvöldmat og síðan kemur skýjabakki yfir okkur,“ segir Þórður. Virkni norðurljósanna verður 5 á mælikvarðanum 0-9 sem þýðir að hún verði mikil.

Samkvæmt vef Veðurstofunnar verður virknin hins vegar 2 eða lítil en Þórður segir að sú tala byggist á röngum gögnum frá veðurstofu Bandaríkjanna, NOAA. Upplýsingar um virkni norðurljósanna á vefsíðu jarðvísindastofnunar Háskólans í Alaska séu hins vegar réttar en þar segir að hún verði 5 sem fyrr segir.