Öflug Chynna Brown átti góðan leik fyrir Snæfell í gærkvöldi og skoraði 15 stig. Hallveig Jónsdóttir er hér til varnar.
Öflug Chynna Brown átti góðan leik fyrir Snæfell í gærkvöldi og skoraði 15 stig. Hallveig Jónsdóttir er hér til varnar. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Á Hlíðarenda Andri Yrkill Valsson yrkill@mbl.is Snæfell vann sinn fjórða leik í röð í Dominos-deild kvenna þegar liðið lagði Val á útivelli, 75:52. Heil umferð fór fram í gærkvöld og fór gestaliðið með sigur af hólmi í öllum leikjunum.

Á Hlíðarenda

Andri Yrkill Valsson

yrkill@mbl.is

Snæfell vann sinn fjórða leik í röð í Dominos-deild kvenna þegar liðið lagði Val á útivelli, 75:52. Heil umferð fór fram í gærkvöld og fór gestaliðið með sigur af hólmi í öllum leikjunum. Snæfell heldur fjögurra stiga forskoti á toppi deildarinnar en sigurinn í gær var þó ekki alveg eins öruggur og tölurnar gefa til kynna. Sést það best á því að Hildur Guðmundsdóttir, leikmaður Snæfells, trúði vart lokatölum leiksins, en hún var stigahæst með 18 stig auk þess sem hún tók 9 fráköst.

„Þetta var jafnt til að byrja með en endaði mjög öruggt. Ég var samt alltaf jafn hissa þegar ég leit á stigatöfluna þar sem mér fannst við ekki spila sannfærandi og í raun fannst mér þetta í heildina bara frekar slakur leikur hjá okkur. Við vorum með of mikið af töpuðum boltum, mér fannst við bara hreinlega oft gefa í hendurnar á þeim. En það er gott að vita að við getum lagað helling en samt erum við að vinna stórt. Sigur er sigur og við förum auðvitað sáttar héðan,“ sagði Hildur við Morgunblaðið eftir leik.

Snæfell var yfir allan leikinn ef frá eru taldar fyrstu mínútur hans þar sem Valskonur skoruðu fyrstu körfuna. Nánast eftir það þurftu þær að elta og það er ekkert launungamál að það tekur á og það sýndi sig í þessum leik. Mjótt var á munum framan af en það var fyrst og fremst í þriðja leikhluta sem bilið fór að breikka. Villunum fjölgaði þegar leið á hjá Val og það má segja að Snæfell hafi tekið þetta á þolinmæðinni, þær fóru sér að engu óðslega en voru fljótar að refsa þegar tækifæri gafst.

Lítið hægt að kvarta

„Við höfum verið að spila vel í vetur, boltinn er búinn að fljóta vel innan liðsins og við höfum fengið flott hraðaupphlaup, en við vorum ekki alveg að ná því í þessum leik og vorum ekki nógu sannfærandi. Við viljum spila mikið saman en þessi spilamennska skilaði okkur samt góðum sigri svo það er lítið hægt að kvarta. Það er auðvitað þægilegt að vera með fjögur stig á næsta lið en við vitum það alveg að ef við stöndum okkur ekki getum við tapað fyrir hvaða liði sem er, það er ekkert gefið í þessu. Við þurfum því að halda okkar striki til þess að halda toppsætinu,“ sagði Hildur.

Tímabilið hefur verið gott í Stykkishólminum og var Hildur á dögunum valin í úrvalslið deildarinnar fyrir fyrri hluta mótsins ásamt nöfnu sinni Kjartansdóttur. „Það er alltaf gaman að fá viðurkenningu og skemmtilegt að við séum þarna tvær nöfnurnar úr Hólminum. Maður er samt auðvitað alltaf að sækjast eftir stóru titlunum í þessu,“ sagði Hildur Guðmundsdóttir.

Stutt í næstu lið við toppinn

Það er alveg satt sem Hildur segir, Snæfell má ekki slaka á ætli þær sér að halda toppsætinu. Það eru einungis fjögur stig niður til Hauka og Keflavíkur, en bæði liðin unnu sína leiki í gær nokkuð þægilega. Keflavík skellti þá grönnum sínum úr Grindavík á útivelli, 81:67 á meðan Haukar spiluðu í Njarðvík og fóru þaðan með öruggan sigur, 86:64. Lele Hardy átti enn einn stórleikinn fyrir Hauka en hún skoraði 27 stig og tók 22 fráköst. Hún var valin besti leikmaður fyrri umferðarinnar og sýndi það og sannaði með þessari frammistöðu.

KR jafnaði svo Val að stigum um miðja deild eftir góðan sigur á Hamri í Hveragerði, 96:71. Liðin voru jöfn fyrir leikinn, en það munar einungis tveimur stigum á fjórum liðum.