[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Sviðsljós Björn Jóhann Björnsson bjb@mbl.is Bílstjórar sem sótt hafa námskeið Vinnueftirlitsins um flutning og meðferð hættulegra efna hafa í mörgum tilvikum haft orð á því hvað þeir verði lítið varir við eftirlit með þessum flutningi á vegum landsins.

Sviðsljós

Björn Jóhann Björnsson

bjb@mbl.is

Bílstjórar sem sótt hafa námskeið Vinnueftirlitsins um flutning og meðferð hættulegra efna hafa í mörgum tilvikum haft orð á því hvað þeir verði lítið varir við eftirlit með þessum flutningi á vegum landsins.

Þetta segir Víðir Kristjánsson, deildarstjóri efna- og hollustuháttadeildar Vinnueftirlitsins, sem heldur utan um þessi námskeið. Vinnueftirlitið sinnir fræðslu og forvörnum í þessum málum en sjálft eftirlit með flutningi efnanna, þegar þau eru farin af stað, er hjá lögreglunni. Annað eftirlit, eins og með flokkun efna, viðurkenningu umbúða, prófun og fleira, er í yfirumsjón Vinnueftirlitsins samkvæmt gildandi reglugerð.

Vinnueftirlitið heldur einmitt námskeið núna í lok janúar fyrir þá sem vilja öðlast svonefnd ADR-réttindi, sem gefa heimild á Evrópska efnahagssvæðinu til að flytja hættuleg efni milli staða. Námskeiðin eru haldin reglulega, sem og endurmenntunarnámskeið, og segir Víðir að þátttakan sé yfirleitt mjög góð.

Ekki alltaf farið eftir reglum

„Bílstjórar þurfa að koma til okkar aftur eftir fimm ár til að endurnýja réttindin og þá heyrum við að það er ekki alltaf verið að fara eftir reglunum og þeir verða ekki varir við mikið eftirlit. Þeir tala einnig um að skjöl vanti með hættulegum efnum sem á að flytja og síðan er spurning hvort alltaf sé farið eftir ákvæðum um hvaða vörur má flytja saman og hverjar ekki. Bílstjórar eru ekki alltaf að lesta sjálfir heldur sérstakir starfsmenn, sem eiga að hafa fengið þjálfun í þessu hjá sínu fyrirtæki,“ segir Víðir.

Hann segir Vinnueftirlitið hafa tekið þátt í eftirlitsátaki með lögreglunni, Lögregluskólanum og Vegagerðinni og einnig farið í eftirlitsferðir á flutningastöðvar. Víðir segir stóru flutningafyrirtækin, Eimskip-Flytjanda og Landflutninga Samskips, hafa verið með þessi mál í góðu lagi, þegar kemur að flutningi hættulegra efna, sem og fyrirtæki á borð við Olíudreifingu, Skeljung og Gasfélagið.

Víðir segist geta tekið undir með Höskuldi Einarssyni, fv. deildarstjóra hjá slökkviliði höfuðborgarsvæðisins, um að lítið sé vitað um umfang á flutningi eiturefna og annarra hættulegra efna.

„Við vitum hvað mikið er flutt inn til landsins, og hvað er framleitt hér á landi, en við höfum ekki yfirlit yfir dreifingu á efnunum um landið, nema þá hjá þessum stóru aðilum sem dreifa olíu og gasi. Þannig höfum við ekkert yfirlit um dreifingu á stykkjavörunni,“ segir Víðir.

Vantar reglur um leiðir

Umhverfisstofnun hefur átt fundi með fulltrúum slökkviliðsins á höfuðborgarsvæðinu um þessi mál. Bergþóra Skúladóttir, teymisstjóri á sviði sjálfbærni hjá Umhverfisstofnun, segir umræðuna af hinu góða og nauðsynlegt sé að fyrirbyggja óhöpp í flutningi hættulegra efna.

„Við hyggjumst beita okkur fyrir því að kalla saman þá aðila sem koma að málinu og fara yfir hvort þurfi að auka skýrleika þeirra reglna sem gilda og hvað hver á að gera,“ segir Bergþóra.

Hún segir skýrar reglur skorta hér á landi um það eftir hvaða götum og vegum megi flytja skaðleg efni, þannig að ekki sé verið aka með slík efni í gegnum íbúðabyggð.

„Áhyggjur slökkviliðsins eru skiljanlegar, við viljum tryggja að engin óhöpp verði í þessum flutningum,“ segir hún ennfremur.

Segjast fara eftir reglum

Talsmenn stóru landflutningafyrirtækjanna í eigu Eimskips og Samskips segja félögin fara eftir settum reglum um flutning hættulegra efna og þau sinni ströngu innra eftirliti.

Ólafur William Hand, upplýsingafulltrúi Eimskips og Flytjanda, segir flutninginn fara eftir því um hvaða efni sé að ræða. Sum efni megi flytja með öðrum vörum en önnur ekki. Flutningabílarnir séu þá skilmerkilega merktir ef hættuleg efni séu um borð. „Við höfum mikið eftirlit með þessu hjá okkur og gætum þess að bílstjórarnir sæki námskeið. Við sendum þá einnig á sérstök öryggisnámskeið og höfum verið í miklu og góðu samstarfi við Ökuskólann, þar sem við höfum útvegað sérstakan gám sem notaður er til kennslu á hvernig á binda niður og ganga frá vöru,“ segir Ólafur hjá Eimskip.

Gísli Þór Arnarson, forstöðumaður innanlandssviðs Landflutninga-Samskips, segir alla bílstjóra fyrirtækisins og lestunarmenn hafa tilskilin réttindi til að flytja og meðhöndla hættuleg efni. Öllum reglum sé fylgt og bílarnir vel merktir. „Við teljum að þessi mál séu í góðum farvegi. Það er verið að flytja alls konar efni og vörur út á land. Við erum oft með það mikið magn að auðveldara er fyrir okkur að aðskilja vörurnar en kannski minni aðila,“ segir Gísli.