Leiðtogi Fylgi Kim Jong-un (f.m.) fordæmi föður síns gæti hann sjálfur verið í framboði í kosningnum. Hér kannar hann herstöð í landinu á dögunum.
Leiðtogi Fylgi Kim Jong-un (f.m.) fordæmi föður síns gæti hann sjálfur verið í framboði í kosningnum. Hér kannar hann herstöð í landinu á dögunum. — AFP
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Forsætisnefnd þjóðþings Norður-Kóreu tilkynnti í gær að kosningar til þingsins yrðu haldnar 9. mars. Þetta verða fyrstu kosningar sem haldnar eru í einræðisríkinu frá því að Kim Jong-un tók við völdum í lok árs 2011.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Forsætisnefnd þjóðþings Norður-Kóreu tilkynnti í gær að kosningar til þingsins yrðu haldnar 9. mars. Þetta verða fyrstu kosningar sem haldnar eru í einræðisríkinu frá því að Kim Jong-un tók við völdum í lok árs 2011.

Kim er talinn ætla að herða völd sín í landinu enn frekar í kjölfar þess að hann ruddi eiginmanni föðursystur sinnar úr vegi nýverið. Norður-kóreska þingið er einungis málamyndasamkunda og er í raun valdalaust.

Hlutu öll greidd atkvæði

Kosið er til þingsins á fimm ára fresti og fóru síðustu kosningar fram árið 2009 í valdatíð Kim Jong-il. Þá var aðeins einn frambjóðandi í boði í hverju og einu hinna 687 kjördæma landsins og höfðu þeir allir verið valdir af stjórnvöldum. Kjörsókn var 99,98% samkvæmt opinberum tölum og hlutu frambjóðendurnir öll greidd atkvæði í kjördæmum sínum.

Grannt verður fylgst með kosningunum í Norður-Kóreu fyrir vísbendingar um hvaða breytingar eigi sér stað innan valdapíramídans þar og hvort áður valdamiklir menn innan hans verði látnir fjúka.

Kim III. hefur þegar látið til sín taka og er aftakan á Jang Song-Thaek, eiginmanni föðursystur hans og pólitískum lærimeistara, skýrasta dæmið um þær breytingar sem leiðtoginn ungi hefur gert. Auk þess hefur fjölda embættismanna sem starfað hafa erlendis verið skipt út. Í nýársávarpi sínu í síðustu viku sagði Kim að landið hefði styrkst við það að „klofningsúrþvætti“ hefði verið fjarlægt.

Norður-kóreska þingið er yfirleitt kallað saman tvisvar á ári í einn til tvo daga í senn til þess að samþykkja fjárlög og persónulegar breytingar. Síðast var það kallað saman í apríl á síðasta ári en þá var tilnefning Pak Pong-Ju til embættis forsætisráðherra samþykkt.