Guðmundur Emilsson
Guðmundur Emilsson
Eftir Guðmund Emilsson: "Maður hlýtur að óska stjórn RÚV allra heilla í þessari eldlínu."

Í lögum og samþykktum um Ríkisútvarp er lögð rík áhersla á menningarhlutverk þess. Þetta stóra orð kemur fyrir í ýmsum myndum, svo sem:

...menningarleg fjölbreytni; menning; menningararfleifð; menningarlegar þarfir; lista- og menningarþættir; menningarminjar; menningarlegt hlutverk; menningararfleifð og náttúra; svið menningar og lista; menning og samfélag; menningarefni; samtímamenning; menningarheimar; menningarmál; menningarleg þýðing...

„Útvarpsstjóri“ er líka stórt orð enda er embættinu falið að tryggja að farið sé að lögum og samþykktum „hlutafélagsins“.

Nú bregður svo við að í auglýsingum um laust starf útvarpsstjóra kemur hið stóra orð menning ekki við sögu. Starfssvið er í fjórum liðum. Í þriðja lið segir þó að útvarpsstjóri eigi að hafi yfirumsjón og bera ábyrgð á allri dagskrárgerð – og þar með gerð menningarefnis – væntanlega (?).

Menntunar- og hæfniskröfur eru einnig í fjórum liðum. Þar kemur hið stóra orð menning ekki heldur við sögu. Í fyrsta lið segir að umsækjandi skuli hafa háskólamenntun sem nýtist í starfi. Þannig væri alveg óvitlaust að hvetja einstakling með þriggja ára BA-próf í bókhaldsfræðum til að sækja um embættið enda ber útvarpsstjóri ábyrgð á fjármálum Ríkisútvarpsins – og þá er gott að vita mun á debet og kredit. Kunnátta á því sviði nýtist sannarlega í starfi.

Það verður úr vöndu að ráða fyrir stjórn hlutafélagsins á lokasprettinum. Þessi starfslýsing er opin í alla enda.

Fráfarandi útvarpsstjóra tókst ekki að verja flaggskip þjóðarinnar er menningarslagsíða kom á það í haust. Fjöldi atkvæðisbærra manna upphóf mótmæli. Útvarpsstjóri sagði starfinu lausu; menningarfé RÚV rann í bankastjórahítina og er glatað.

Áhugasamir leyfa sér að vona að menningarhlutverkið verði í hávegum haft við val á nýjum útvarpsstjóra og stjórn hlutafélagsins fari ekki að klífa „...þrítugan hamarinn til að verða við bænarstað vina og frænda“. Því lengi getur vont versnað.

Maður hlýtur að óska stjórn RÚV allra heilla í þessari eldlínu. Annars kemur mér þetta bara ekkert við; ég á akkúrat engra persónulegra hagsmuna að gæta. Mér þykir bara vænt um Útvarpið – svo það sé á hreinu – og er ekki einn um það.

Höfundur er hljómsveitarstjóri og fyrrverandi tónlistarstjóri RÚV.