Gísli Ástgeirsson fæddist 14. nóvember 1926 á Syðri-Hömrum í Ásahreppi. Hann lést á dvalarheimilinu Lundi á Hellu 17. desember 2013.

Útför Gísla fór fram frá Kálfholtskirkju 28. desember 2013.

Afi minn á Syðri-Hömrum, Gísli Ástgeirsson, lést 17. desember síðastliðinn á Lundi á Hellu.

Þegar við fjölskyldan settumst niður með prestinum fyrir jarðarförina hans afa og rifjuðum upp minningar um hann komumst við að þeirri niðurstöðu að aðaláhugamál afa voru hestarnir hans. Þeir voru hans líf og yndi. Í seinni tíð fór hann lítið á bak en hafði gaman af því að sinna þeim verkum sem hestunum fylgdu í hesthúsinu. Hann hafði sérstakan smekk á hestum að mér fannst. Þeir áttu að vera mjög viljugir, nánast óviðráðanlegir og örlítið hrekkjóttir. Sumir voru svo styggir að enginn annar gat riðið þeim en hann. Hann taldi líka að fjórar gangtegundir væru alveg meira en nóg, með tölti sá hann engan tilgang en í hans augum var hestur ekki almennilegur nema hann gæti flugskeiðað.

Afi átti gamlan Land Rover og einu sinni kom hann mér verulega á óvart og bauð mér að keyra hann úti á túni milli bagga. Með afa í bíl var ég þó aldrei eins hrædd um líf mitt. Því hann þurfti að horfa á eftir hverri einustu rolluskjátu og hestastóðum sem sást án þess að stöðva bílinn. Oft reyndi hann að horfa í gegnum kíki á meðan hann ók og undraðist ég það margoft að við skyldum ekki enda ofan í skurði.

Afi leyfði mér líka ótrúlegustu hluti þegar ég var yngri og gerir amma oft grín að því þegar ég greiddi afa eins og þekkri íslenskri tónlistarkonu. Ég var svo heppin að fá að búa tvisvar sinnum á ævinni hjá afa mínum og ömmu. Þetta voru góðir tímar og hafa Syðri-Hamrar alltaf verið minn fasti punktur í lífinu þó annað hafi verið í lausu lofti. Afi sagði ekki margt og beraði ekki tilfinningar sínar en ég fann alltaf að honum þótti vænt um mig. Það var einhver blíða í raddblænum þegar hann kallaði mig Glóu, nema á smaladögum þá var best að vera ekki fyrir. Afi hafði gaman af kveðskap og lét hann mig stundum fá fyrripart til þess að botna. Mér finnst því viðeigandi að enda þetta á ljóði sem ég held að afa hefði líkað vel við.

Ef inni er þröngt, tak hnakk þinn og hest

og hleyptu á burt undir loftsins þök.

Hýstu aldrei þinn harm. Það er bezt.

Að heiman, út, ef þú berst í vök.

Það finnst ekki mein, sem ei breytist og bætist,

ei böl, sem ei þaggast, ei lund, sem ei kætist

við fjörgammsins stoltu og sterku tök.

Lát hann stökkva, svo draumar þíns hjarta rætist.

(Einar Benediktsson)

Þín Glóa,

Tinna Erlingsdóttir.