Margrét Þuríður Friðriksdóttir fæddist á Eskifirði 14. mars 1920. Hún lést á dvalarheimilinu Hrafnistu í Hafnarfirði 26. desember 2013.

Hún var næstelst barna hjónanna Friðriks Árnasonar, hreppstjóra á Eskifirði, f. 7.5. 1896, d. 25.7. 1990 og Elínborgar Kristínar Þorláksdóttur, f. 21.9. 1891, d. 11.1. 1945. Systkini hennar eru Halldór, Þorvaldur, Kristinn Sigurður og Helga Bergþóra og eru þau öll látin. Eftirlifandi eru Þorlákur, Guðni Björgvin, Árný Hallgerður og Georg Helgi Seljan. Samfeðra er Vilborg Guðrún.

Þann 20.11. 1948 giftist Margrét Baldri Guðmundssyni frá Syðra-Lóni í Norður-Þingeyjarsýslu, f. 26.4. 1924, d. 19.3. 1994. Foreldrar hans voru Guðmundur Vilhjálmsson og Herborg Friðriksdóttur á Syðra-Lóni. Börn Margrétar og Baldurs eru: 1. Davíð, f. 10.3. 1949, kvæntur Inger L. Jónsdóttur. Börn þeirra eru Drífa Ísabella K., sambýlismaður hennar er Heiðar Karlsson. Synir hans eru Gylfi Karl og Hákon Davíð, Margrét Hlín, sambýlismaður hennar er Alan John Maceachern og Þorvaldur Örn. 2. Elínborg, f. 28.9 1950, gift David Phillip Rice sem lést 12.11. 2002. Barn þeirra er Lára Margrét, gift Darrick Minzey. Börn þeirra eru Payton Scott og Dylan Scott 3. Guðmundur Friðrik, f. 22.1. 1952, kvæntur Hildi Hafstað. Fyrri kona hans var Ingibjörg Árnadóttir sem lést 8.1. 2008. Börn þeirra eru Rósant, kvæntur Eddu Rúnu Kristjánsdóttur. Börn þeirra eru Enea og Mía, Heiða Margrét, sambýlismaður hennar er Gísli Tómasson og sonur þeirra er Tómas og Valdemar Árni, sambýlismaður hans er Przemek Jan Irlik. 4. Hannes Baldursson, f. 22.6. 1955, kvæntur Eyrúnu Jónatansdóttur. Hannes var áður kvæntur Agnesi M. Sigurðardóttur og eru börn þeirra Sigurður, kvæntur Gunnhildi Ástu Guðmundsdóttur, Margrét, Baldur. Sambýliskona hans er Þórunn Sigurbjörg Berg. Sonur þeirra er Hannes Freyr Berg. Dætur Eyrúnar eru Karen og Eva Rún Arnarsdætur.

Margrét ólst upp á Eskifirði en flutti til Keflavíkur árið 1948. Á fyrri hluta ævinnar vann hún á Símstöðinni á Reyðarfirði og við ýmis afgreiðslustörf í Reykjavík og í Stykkishólmi. Lengst af vann hún fyrir Póst og síma en auk þess við ýmis önnur störf, s.s. við afgreiðslu, kennslu og fararstjórn. Margrét var virkur þátttakandi í fjölmörgum félagasamtökum og sinnti á þeim vettvangi trúnaðarstörfum, s.s. fyrir Starfsmannafélag Pósts og síma, Sjálfstæðisfélag Keflavíkur, Leikfélag Keflavíkur, Kvennakór Suðurnesja og Kór eldri borgara í Reykjanesbæ.

Útför Margrétar verður gerð frá Keflavíkurkirkju í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin klukkan 13.

Að lifa lífinu lifandi eru þau gömlu sannindi sem fyrst koma upp í hugann þegar Margrét systir mín hefur kvatt okkur hinztu kveðju. Hún kunni þessa list að lifa lífinu lifandi. Hún var atgerviskona á svo margan veg, harðgreind og fylgdist einkar vel með þjóðlífinu, félagslynd var hún svo sannarlega, enda ævinlega til forustu valin þar sem hún kom að verkum, það fylgdi henni gleði og glettni, yljuð ljúfu lunderni, en þó ákveðnu. Hún var einstaklega rösk að hverju sem hún gekk, hún lét ellina ekki ná tökum á sér fyrr en í fulla hnefana, alltaf að, alltaf með spaugsyrði á vör, en alvörumanneskja innst inni. Við ólumst ekki upp saman en mér er alltaf minnisstætt þegar hún kom heim í Seljateig, það fylgdi henni söngur, glettur og hressileiki sem allir kunnu vel að meta.

Aðrir munu æviferil rekja en aðeins tvær smámyndir ógleymanlegar. Þegar við Sigurður Jónsson vorum á Austfirðingamótum í Stapanum ásamt konum okkar og ætluðum að halda heim eftir að samkomunni lauk um nóttina þá var það ekki tekið í mál heldur vorum við ásamt fleirum drifin í veizlukaffi með dýrindis krásum sem Margrét töfraði fram eins og án fyrirhafnar. Þetta var mæta rausnarkonan Margrét lifandi komin. Svo vorum við á Örkinni ásamt fólki af Suðurnesjum og Margrét kom í heimsókn eitt kvöldið þar sem allir sátu í fremri salnum og biðu kvöldverðar. Þegar systir mín gekk inn í salinn glumdi lófatakið og húrrahrópin til að fagna henni. Þetta var vinsæla félagsveran Margrét. Það er vissulega dýrmætt að ná svo háum aldri, virk og hress var hún alveg framundir það síðasta, gamanseminni glataði hún aldrei. Við Hanna kveðjum hana í hljóðri þökk fyrir kynni kær og biðjum henni blessunar á þeim eilífðarvegi sem hún trúði að biði sín. Börnum hennar og öðrum aðstandendum sendum við hlýjar samúðarkveðjur. Blessuð sé munabjört minning.

Helgi Seljan.

Í dag fer fram útför elskulegrar tengdamóður minnar, Margrétar Friðriksdóttur. Í þau rúm 40 ár sem við áttum samleið var ætíð tilhlökkunarefni að eiga með henni samverustundir og aðeins ljúfar minningar sem henni tengjast. Frá fyrstu tíð tókst með okkur náin vinátta. Hún hafði mikla hlýju til að bera og ræktarsemi við ættingja og vini var mikil, einstaklega gjafmild. Hún fylgdist með velferð okkar og annarra í fjölskyldunni, stolt af sínum og ávallt til staðar.

Margrét hafði ríka kímnigáfu og gat ávallt séð spaugilegar hliðar mála og hafði góða frásagnargáfu og fólk laðaðist að henni. Samband hennar við barnabörnin var einstakt, hún hringdi í þau reglulega, fylgdist með viðfangsefnum þeirra, hvatti til dáða og var óspör á að leggja þeim lífsreglurnar allt til hinstu stundar. Þau dáðu hana og vildu allt fyrir hana gera.

Hún naut þess að eiga fallegt heimili og voru þau hjónin afar góð heim að sækja og veittu af rausn. Árleg jólaboð hennar, þar sem öll fjölskyldan safnaðist saman, eru öllum ógleymanleg. Undirbúningur allur í hennar höndum stóð dögum saman, allt skipulagt eins og henni var einni lagið. Þessum sið hélt hún fram að níræðu. Hún afbragðs kokkur og fyrr á árum tók hún að sér veisluhöld fyrir fólk.

Margrét var útivinnandi alla tíð, lengst af hjá Pósti og síma á Keflavíkurflugvelli. Eiginmaðurinn sjómaður og langdvölum fjarverandi og kom eðlilega í hennar hlut að sjá að mestu um heimilishaldið. Það varnaði henni ekki að sinna áhugamálum sínum af miklum dugnaði, enda ákaflega félagslynd. Má þar nefna að hún var einn af stofnendum Kvennakórs Suðurnesja og um árabil formaður kórsins. Á þeim árum fór kórinn í tónleikaferðir innanlands og utan. Síðar starfaði hún með kór eldri borgara. Margrét hafði einkar fallega söngrödd. Í nokkur ár var hún fararstjóri í ferðum fyrir eldri borgara til Spánar. Og hún var pólitísk, gat verið föst fyrir og stóð á sínu. Starfaði lengi í nefndum og ráðum á vegum bæjarins. Átti gott með að tjá sig bæði í ræðu og riti. Hún naut þess að spila og var sérlega góður briddsspilari.

Margrét var lágvaxin kona, sem mikil reisn var yfir. Lagði mikið upp úr snyrtimennsku og ætíð vel tilhöfð. Brosmild, einstaklega jákvæð, áræðin og sístarfandi meðan kraftar entust.

Um leið og ég þakka samfylgdina bið ég minningu hennar Guðs blessunar.

Inger L. Jónsdóttir.

Heimili ömmu og afa að Brekkubraut var ævintýrahöll bernsku minnar. Með fráfalli ömmu eru kaflaskil í lífinu en eftir standa góðar minningar, gott veganesti út í lífið og dýrmæt vinátta. Þakklæti fyrir það að hafa kynnst stórkostlegri konu og fengið að njóta félagsskapar hennar þar til núna og afa þar til hans ljós slokknaði fyrir tveimur áratugum.

Ef ég ætti að lýsa ömmu í einu orði væri það sjálfstæði. Hún gerði hlutina á eigin forsendum og var mjög ákveðin kona. Amma færði mér gott veganesti út í lífið. Láta ekki reka á reiðanum. Fara vel með fé. Standa fast á sínu. Leita réttar síns sé á manni brotið, réttlætiskenndin var sterk. Það var ekki gott að lenda á móti henni og eru margar sögur til af því þegar hún fékk sínu framgengt. Hún hafði líka einstakt lag á fólki. Með útsjónarsemi gat hún oftar en ekki fengið fólk til liðs við sig enda næm á fólk og fljót að átta sig á aðstæðum. Það er góður hæfileiki. Þó stundum færu hlutirnir ekki eins og best yrði á kosið dvaldi hún ekki við það. Fortíðinni verður ekki breytt en framtíðin er óráðin.

Amma hafði ríka kímnigáfu og var oftar en ekki fljót að hugsa og hnyttin í tilsvörum. Þannig var iðulega mikið líf í kringum hana og fólk sótti í félagsskap hennar. Hún leit hlutina jákvæðum augum. Einhverju sinni var til umræðu maður sem var iðulega hryssingslegur í framkomu. Um hann sagði hún að hann ætti marga góða kosti en mætti gjarnan sýna þá oftar.

Um áratuga skeið var hún virk í félagsstarfi, leiklist og söng, stjórnmálum og síðar starfi eldri borgara þar sem hún var m.a. fararstjóri í utanlandsferðum. Við gátum setið tímunum saman og rætt stjórnmál, jafnt efnislega sem og helstu persónur og leikendur á því sviði. Hún hafði verið virk í starfi Sjálfstæðisflokksins og hefði án efa getað náð frama á því sviði. Hennar biðu ekki tækifæri til þess að nýta sína ríku hæfileika til fulls þar sem tímarnir voru aðrir í hennar ungdæmi. Raunveruleikinn knúði dyra og minnti á lífsbaráttuna sem þurfti að heyja.

Hún bjó yfir gríðarlegri orku sem eftir var tekið. Vinnusöm var hún og ennþá um nírætt dyttaði hún sjálf að húsinu, gerði við sprungur, málaði, lakkaði húsgögn, mokaði snjó úr innkeyrslunni og svo mætti áfram telja. Það eru ekki allir sem halda upp á níræðisafmæli með því að fara til Las Vegas en það gerði amma. Hún lifði lífinu lifandi eins lengi og líkaminn leyfði.

Frá því ég man eftir mér starfaði hún hjá Pósti og síma og þó hún hefði stundað ýmis störf í gegnum tíðina var eitt af hennar fyrstu störfum hjá Landssímanum. Þá vann hún á skiptiborði og tengdi saman fólk. Síðar sá hún um skiptiborð fjölskyldunnar og tengdi okkur afkomendurna saman, sagði mér frá því hvað hefði drifið á daga frændfólks míns. Það skipti hana máli að við ættmennin vissum hvert af öðru. Upplifðum okkur sem heild. Hún var ættmóðir sem umvafði okkur elsku sinni.

Hún var ekki bara amma heldur vinur minn. Hennar hinsta kveðja til mín á nú vel við. Guð veri með þér alla tíð. Þakka þér fyrir allar okkar góðu stundir saman.

Sigurður Hannesson.

Á Brekkubraut 1 mættu manni alltaf opnir armar ömmu. Þar vantaði aldrei mat en amma var dugleg við að elda og baka fyrir þá sem komu í heimsókn. Iðulega breytti hún uppskriftum til batnaðar og fram á tíræðisaldurinn þróaði hún nýja rétti. Amma fylgdist einkar vel með öllu því sem var að gerast hér á landi sem og utan þess. Stjórnmál voru henni hugleikin en einnig fylgdist hún grannt með þróun mála í tískuheiminum. Hún vissi oft meira en maður sjálfur hvað næstu straumar tískunnar myndu bera með sér. Afmælisdaga var hún líka með á hreinu og sendi oft afmæliskveðjur á ólíklegustu staði þar sem ekki var búist við þeim. Hún var mikil félagsvera og ræktaði samband við samferðamenn sína. Vegna þessa fór fátt framhjá henni og bárust fréttirnar gjarnan á Brekkubrautina fyrr en varði.

Amma var mjög dugleg og lét hvorki börn né fjarlægðir aftra sér þegar kom að því að sinna áhugamálunum. Sem sjómannskona var hún talsvert ein með börnin sín á þeirra yngri árum en þó sinnti hún á sama tíma pólitíkinni, föndri sem hún lærði í Reykjavík og sat í nefndum hjá ýmsum félögum. Þegar ég var yngri tók hún mig svo með öllum vinkonunum til Reykjavíkur í bingó en þetta keyrði hún fram að níræðu. Hún nýtti ævina vel og var alltaf vöknuð löngu á undan manni sjálfum þótt sofnað hefði verið seint. Maður sat ekki aðgerðalaus hjá henni því alltaf hafði hún ráð undir rifi hverju og sá til þess að manni leiddist ekki. Hún las fyrir mann sögur, gaf manni pening fyrir myndbandsspólum og lottói og bað mann svo öðru hvoru að fara út til að hlaupa úr sér orkuna.

Utanlandsferðir ömmu voru ófáar. Hún fór með marga hópa út sem leiðsögumaður og heyrði ég seinna sögur af útsjónarsemi hennar þegar leysa þurfti snúin mál í ferðunum. Fátt kom í veg fyrir að hún næði fram þeirri lausn sem hún taldi besta hverju sinni hvort sem tala þurfti framandi tungumál eða beita brögðum svo sem að nota hjólastól til að komast í flugvélina á réttum tíma. Þegar heim var komið hafði hún svo fundið gjafir fyrir alla í fjölskyldunni: börnin, barnabörnin, tengdabörn og jafnvel fyrir vinkonur sínar. Öll fötin sem valin voru komu í réttum litum og stærðum en hún var lunkin í að finna hvað hentaði hverjum og einum.

Margt mátti læra af þessari kjarnakonu og allt fram á síðustu stundu lagði hún manni lífsreglurnar. Ég minnist hennar með miklum söknuði en viskan og dugnaðurinn veitti mér innblástur og mun ekki hverfa úr huga mér.

Margrét Hannesdóttir.

Nú legg ég augun aftur,

ó, Guð, þinn náðarkraftur

mín veri vörn í nótt.

Æ, virst mig að þér taka,

mér yfir láttu vaka

þinn engil, svo ég sofi rótt.

(Sveinbjörn Egilsson)

Þegar ég nú kveð Möggu frænku í hinsta sinn geri ég það með söknuði og þakklæti. Hún hefur í gegnum tíðina verið partur af lífi mínu enda systir föður míns sem átti m.a. það „mottó“ að mitt er þitt og þitt er mitt. Magga frænka var þar engin undantekning. Hún og hennar fjölskylda tilheyrðu veröld minni frá fæðingu og ég verð ævinlega þakklát fyrir það.

Að feta í fótspor Möggu hefur reynst mörgum erfitt vegna þess að hún var kvik eins og vindurinn og hafði viljann og áræðið eins og sönn sjálfstæðishetja. Ég sé hana fyrir mér í rauðu, með glettni í augum og brosandi út í annað. Ég sé hana fyrir mér, altalandi á „ammerísku“, á fullri ferð á Keflavíkurflugvelli. Ég sé hana fyrir mér, heima á Brekkubrautinni við fallega dúkað kaffiborð. Ég sé hana fyrir mér, lifa hvern dag lifandi.

Ég kveð frænku mína segjandi: Takk fyrir gleðina og góðu minningarnar, takk fyrir brosið og hlýja faðmlagið, takk fyrir hvatninguna og alla hjálpina, takk fyrir vináttuna, takk fyrir að vera samferða.

Fjölskylda mín sendir ættingjum og vinum Möggu innilegar samúðarkveðjur.

Sigríður Friðný Halldórsdóttir.

Kveðja að austan. Langri lífsför er lokið. Einstök manneskja, Margrét Friðriksdóttir, hefur kvatt þennan heim. Leiftur ljúfra minninga fylla hugi okkar. Hennar er sárt saknað en þakklæti fyrir langa og ómetanlega samfylgd rís öllu ofar við leiðarlok. Hún var í lífi sínu einstakur aflvaki góðra og göfugra verka. Það var ætíð umhugsunarefni hvaðan henni kom allur sá kraftur, áræði og þor sem einkenndi lífsferil hennar.

Fram til síðustu ævidaga bauð hún andstreymi lífsins byrginn með jákvæðri lífssýn. Hún var óspör á að deila þeirri sýn meðal samferðafólks og hreif það með til ólíklegustu verka. Magga hafði einlægar og sterkar taugar til æskubyggðarinnar, Eskifjarðar. Þar fæddist hún og ólst upp í stórum hópi systkina. Þau tryggðarbönd sem þau ung bundust rofnuðu aldrei.

Hjá Möggu var alltaf stutt í upprifjun frá æskuárum þar sem skiptust á skin og skúrir. Í hennar frásögn var þó hver minning sveipuð ljóma kærleika, samheldni og vináttu fólks. Við kveðjum Möggu með þakklæti fyrir alla þá hlýju og hugulsemi er hún sýndi alla tíð í okkar garð. Hún verður okkur dýrmæt minning um einstaka konu sem lét engan ósnortinn með einurð sinni, óþrjótandi elju og lífsgleði. Kæru vinir, Davíð, Guðmundur, Hannes og Elínborg. Ykkur og fjölskyldum ykkar vottum við okkar dýpstu samúð og biðjum Guð og góðar minningar að verða ykkur huggun í harmi. Elsku Magga.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem)

Kristín Pétursdóttir, börn og fjölskyldur þeirra.

Mig langar til að minnast Margrétar Friðriksdóttur í nokkrum orðum. Við kynntumst í gegnum vini mína Eyrúnu og Hannes. Vorum báðar Suðurnesjakonur, hún rótgróinn Keflvíkingur en ég aðflutt í Sandgerði.

Margrét var kjarnakona og sjómannsfrú, sem annaðist heimili þeirra hjóna og börnin fjögur af kostgæfni og vann auk þess utan heimilis. Oft var margt um manninn í borðstofunni á Brekkubrautinni enda var Margrét með afbrigðum gestrisin og félagslynd.

Hún þurfti ung að axla ábyrgð austur á Eskifirði, lærði kornung ensku hjá prestinum og engin furða að hún kom síðar á lífsleiðinni að fararstjórn, m.a. í ferðum eldri borgara um heiminn; sannkölluð heimskona. Margrét tók vel á móti mér þegar ég gekk í Eldborgarkórinn.

„Hér skalt þú sitja við hliðina á mér,“ sagði hún og hvatti mig til dáða. Nokkru seinna varð ég þeirrar ánægju aðnjótandi að gerast samfylgdarkona Margrétar í spilamennskuna á Nesvöllum. Þar var hún í essinu sínu og oftar en ekki stigahæst þrátt fyrir að vera með þeim elstu í hópnum. Hún naut sín þar vel og aðrir nutu góðrar návistar hennar.

Margrét var mjög vel að sér, hafði sterkar skoðanir í pólitík, var hreinskiptin og létt í lund. Það var gaman að spjalla við hana um heima og geima og átti hún það til að draga augað í pung þegar ígrunda þurfti málin. Oft var hlegið dátt og stutt í grínið. Harmónikkuballið á Hrafnistu í nóvember sl. þar sem við Margrét sveifluðumst saman í góðum takti mun seint gleymast.

Ég þakka Margréti samfylgdina, umhyggjusemi fyrir mér og mínum og kæra vináttu. Blessuð veri minning hennar.

Birna Jakobína

Jóhannsdóttir.