Krakkar Í sögunni Vinir í Valhöll eru þeir Loki og Þór um sex ára gamlir guttar. Menningartengingin skín í gegn.
Krakkar Í sögunni Vinir í Valhöll eru þeir Loki og Þór um sex ára gamlir guttar. Menningartengingin skín í gegn.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Bjarni Einarsson er einn þremenninganna sem standa að útgáfu barnabóka á vefnum undir merkjum Orthus. Bækurnar eru aðgengilegar gegnum Android eða iTunes og eru þremenningarnir sannfærðir um að íslensk börn þurfi að þekkja menningararfleifðina.

Bjarni Einarsson er einn þremenninganna sem standa að útgáfu barnabóka á vefnum undir merkjum Orthus. Bækurnar eru aðgengilegar gegnum Android eða iTunes og eru þremenningarnir sannfærðir um að íslensk börn þurfi að þekkja menningararfleifðina. Því þótti þeim vel við hæfi að skrifa bók um Þór og Loka og fleiri úr norrænu goðafræðinni. Í sögunum eru goðin börn, eins og lesendurnir.

Malín Brand

malin@mbl.is

Bjarni var í góðri vinnu með fín laun en hann sagði starfi sínu lausu til þess að geta gert það sem hann raunverulega langaði. Það var að skrifa sögur fyrir börn.

„Mig langaði til að fylgja þessum draumi eftir því mér finnst gaman að gera skapandi hluti og að búa eitthvað til alveg frá grunni.

Hann stofnaði fyritækið Orthus árið 2012 og hefur gefið út níu bækur sem komnar eru á netið og aðgengilegar í appformi.

„Ég flutti úr miðbæ Reykjavíkur á Selfoss og kláraði bækurnar þar því það er ódýrara að búa þar,“ útskýrir Bjarni sem á sama tíma kenndi crossfit í Sportstöðinni á Selfossi. „Ég bjó bara í bílskúrnum hjá systur minni og kenndi crossfit í frítímanum,“ segir Bjarni.

Fleiri bætast í hópinn

Bjarni fékk gott fólk til liðs við sig á þessum tímapunkti. Rithöfundurinn Helgi Már fór að skrifa með Bjarna og voru þeir sammála um að beina þyrfti sjónum að menningarupprunanum.

„Við ákváðum að taka þá Þór og Loka og gera þá að litlum krökkum þannig að í sögunni eru þeir svona sex til sjö ára. Þetta er byggt á norrænni goðafræði en er ekki alveg eftir bókinni,“ segir Bjarni og segist sleppa því sem er gróft og ekki við hæfi barna.

„Fenris og Slepnir eru þarna en sagan af því hvernig þeir urðu til er kannski ekki barnvæn,“ segir hann.

Þeir tóku að skrifa af fullum krafti og í miðjum klíðum bættist teiknarinn Karítas Gunnarsdóttir í hópinn og þar með lifnuðu sögupersónurnar við.

Engir milljónamæringar

Bjarni segir að markmiðin með útgáfunni séu skýr. „Við vitum að við erum ekkert að fara að verða milljónamæringar á þessu. Við vitum líka að það er allt of lítið til af öppum fyrir krakka á íslensku, til að hjálpa þeim að lesa, skrifa og reikna. Ég held að það sé mjög mikilvægt að framleiða efni á íslensku því þetta er hverfandi tungumál og enskan er að taka svolítið yfir. Það sama á við um menningu okkar. Við eigum ofboðslega fallega og skemmtilega menningu og mér finnst mikilvægt að börn fái að tengjast þeirri menningu á meðan þau eru að æfa sig að lesa og kynnast þá þessum skemmtilega heimi,“ segir Bjarni.

Að leggja hönd á plóg

Þó svo að Bjarni hafi flust til bæjarins góða, Selfoss, og notað tímann vel er hann aftur fluttur til höfuðborgarinnar og vinnur nú hörðum höndum að því að koma efninu út.

„Núna erum við inni á Karolinasjóðnum, Karolina fund, að reyna að fá fólk til þess að styrkja okkur með því að kaupa bækurnar fyrirfram. Ef fólk vill borga meira þá fær það eitthvað aukalega, eins og myndir af sögupersónum þannig að það er ekki verið að gefa með því að leggja pening í verkefnið. Ef ekki safnast nægur peningur er enginn peningur tekinn af fólki. En ef nóg safnast fá allir sitt. Þetta er gert til að klára forritunina fyrir bækurnar,“ segir Bjarni sem vonast til að bækurnar geti líka öðlast vinsældir hjá nágrannaþjóðunum sem eiga sömu menningarsögu.

Þeir sem vilja taka þátt í verkefninu með því að styrkja útgáfuna geta farið inn á vef Karolinafund, www.karolinafund.com/project/index, og fundið útgáfuna undir nafninu Vinir í Valhöll.

Þeir sem eru með snjallsíma geta skannað qr-kóðann hér að neðan og farið beint inn á síðuna.