Zlatan Ibrahimovic
Zlatan Ibrahimovic
Sænski fótboltasnillingurinn Zlatan Ibrahimovic var enn og aftur á skotskónum þegar hann og félagar hans í París SG tryggðu sér á auðveldan hátt sæti í 32-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu.

Sænski fótboltasnillingurinn Zlatan Ibrahimovic var enn og aftur á skotskónum þegar hann og félagar hans í París SG tryggðu sér á auðveldan hátt sæti í 32-liða úrslitum frönsku bikarkeppninnar í knattspyrnu. Parísarliðið burstaði þá Brest á útivelli, 5:2, í leik sem tvívegis hafði þurft að fresta vegna veðurs.

Zlatan var maður leiksins en framherjinn hávaxni skoraði þrennu í fyrri hálfleik. Hin tvö mörk Paris SG skoruðu þeir Thiago Motta og argentínski landsliðsmaðurinn Ezequiel Lavezzi. Zlatan, sem er 32 ára gamall, er markahæstur í frönsku úrvalsdeildinni en Svíinn hefur skorað 15 mörk í 19 leikjum. Alls hefur þessi frábæri leikmaður skorað 35 mörk í öllum keppnum með Parísarliðinu og sænska landsliðinu á leiktíðinni en á síðustu leiktíð skoraði hann 47 mörk.

Paris SG undir stjórn Laurent Blanc, fyrrum fyrirliða franska landsliðsins, hefur aðeins tapað einum leik í öllum keppnum á leiktíðinni. gummih@mbl.is