Jón Gunnarsson fæddist 22. desember 1933 á Morastöðum í Kjós. Hann lést á Hrafnistu í Hafnarfirði 29. desember 2013.

Foreldrar hans voru Gunnar Einarsson, bóndi á Morastöðum í Kjós, f. 16. desember 1904 í Hvammsvík í Kjós, d. 16. desember 1987, og Aðalheiður Ingveldur Jónsdóttir húsmóðir, f. 5. janúar 1911 á Sunnuhvoli í Grindavík, d. 7. október 1991. Jón var annar í röðinni af ellefu systkinum.

Systkini Jóns eru Bergmann, f. 18.1. 1932, kvæntur Sigþrúði E. Jóhannesdóttur, Stella Elsa, f. 30.6. 1935, Björg, f. 2.2. 1937, Ingibjörg, f. 7.7. 1938, gift Bjarna E. Gunnarssyni, Gróa, f. 19.8. 1940, gift Ragnari Þ. Halldórssyni, Páll Ragnar, f. 12.9. 1941, giftur Helgu Dís Sæmundsdóttur, d. 21.2. 2007, Sveinn. f. 26.2. 1943, kvæntur Hólmfríði Friðsteinsdóttur, Sigríður, f. 24.3. 1946, gift Þorsteini Gíslasyni, Guðrún, f. 6.2. 1950, gift Pétri HR Sigurðssyni og Hallbera, f. 29.6. 1952, gift Kristni E. Skúlasyni.

Jón vann ýmis störf um ævina, aðstoðaði við bústörfin á Morastöðum, vann síðan á togurum og vertíðarbátum í Grindavík. Þá hóf hann störf við mjólkurflutninga ásamt öðrum flutningum hjá Flutningafélagi Kjósarhrepps í kringum 1950. Hans aðalstarf var að keyra mjólkurbíl fyrir bændur í Kjósinni. Jón keypti jörðina Útskálahamar í Kjós og ræktaði upp fjárstofn með góðum árangri samhliða akstri mjólkurbílsins. Síðustu árin vann hann hjá Mjólkursamsölunni í Reykjavík. Jón byggði sér sumarbústað í landi Morastaða og ræktaði þar upp mikið af fallegum trjágróðri og átti þar margar góðar stundir.

Útför Jóns fer fram frá Fossvogskirkju í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 15.

Kæri bróðir og mágur, nú er komið að kveðjustund. Ekkert nema ljúfar minningar koma upp í hugann, hvort sem það voru heimsóknir á Hjarðarhagann, sumarbústaðinn eða á Hrafnistu. Þú varst alltaf tilbúinn með kaffi og meðlæti og ekkert annað kom til greina. Að ógleymdum veiðiferðum okkar eða bara í berjamó í sveitinni þinni, alltaf var gott að koma til þín.

Þín verður sárt saknað. Takk fyrir allt og allt.

Hvíl í friði.

Hallbera og Kristinn

(Haddý og Diddi).

Jón Gunnarsson, eða Nonni eins og hann var kallaður af vinum, fæddist á Morastöðum í Kjós 22.12. 1933, annað barn foreldra sinna en börnin urðu 11. Þegar Nonni var að alast upp var ekki sími á bænum eða rennandi vatn eða annar lúxus, sem okkur finnst sjálfsagður í dag og flest störf voru unnin með höndum. Börnin voru fljótt látin hjálpa til við útiverk, s.s. að snúa heyi heilu dagana og sinna skepnum en það var mjög erfið vinna fyrir börn.

Nonni var greindur og hafði yndi af lestri góðra bóka en hann átti sjálfur margar bækur. Áhugamál hans voru af ýmsum toga, t.d. var hann duglegur að planta trjám og átti margar fallegar plöntur, í lundinum í kringum sumarbústað sinn. Um tíma átti hann ásamt föður sínum Útskálahamar í Kjós og hélt hann þar fé en hann var einstaklega laginn og glöggur á fé og átti marga verðlaunahrúta og verðlaunaskildi og vildu margir fá hrúta frá honum til undaneldis.

Aðalástríða Nonna var þó lax- og silungsveiði og á vetrum dundaði hann sér við að hnýta flugur sem hann notaði svo sumarið á eftir. Hann veiddi víða í stórum ám, s.s. í Laxá í Kjós og Norðurá, og nutu margir vina hans þess að fara með í veiðiferðir.

Nonni vann ýmislegt um ævina, bæði til sjós og lands, en á unga aldri var hann til sjós bæði í Grindavík eða Sandgerði. Um tíma átti hann sinn eigin vörubíl en megnið af ævinni keyrði hann fóðurbíl og síðan mjólkurbíl.

Við sjáum á eftir úrvalsmanni, hjálpsömum og tryggum. Við áttum margar góðar stundir í lautinni hans Nonna og í kúlunni okkar.

Þökk fyrir allt, kæri vinur og bróðir.

Ég lék mér eins og lax, sem klýfur strauminn,

og loksins fann ég aftur gamlan hyl.

En að mér sækir draumurinn um drauminn,

þó dauðinn læðist upp við klettaþil.

Ég eygi foss og flúð á hamrastöllum,

og frelsi kýs ég laxahjónum öllum

í ánni, þar sem ættin verður til.

En kærast er mér kvik í litlum ugga,

sem klýfur strauminn – framhjá mínum skugga.

Sigþrúður og Bergmann (Dúa og Beggi).

Þegar ástvinur fellur frá eru minningarnar dýrmætar og verða skýrari í hugum okkar.

Kær bróðir, mágur og frændi barnanna okkar er fallinn frá.

Jón var mikið ljúfmenni og var hann góður við menn og málleysingja.

Yndi hans var uppbygging sumarbústaðarins sem hann byggði í Kjósinni og gróðursetning trjáa og blóma. Ég held að hann hafi munað hvaða ár eða mánuð trén voru gróðursett eða hvort þau voru sjálfsprottin enda var umhyggja hans mikil fyrir gróðrinum, landinu og ekki síður fyrir fólkinu sem stóð honum næst.

Fyrsta flugferðin þín árið 1983 sem þú lagðir á þig til að heimsækja okkur fjölskylduna á Ísafjörð, sýndi festu þína og elsku. Ekki má gleyma ferðum okkar um landið, t.d. veiðiferðir, fjallgöngur og ýmislegt skemmtilegt sem þá var brallað.

Góðar stundir viljum við þakka þér.

Megi minning þín lifa.

Svo viðkæmt er lífið sem vordagsins blóm

er verður að hlíta þeim lögum

að beygja sig undir þann allsherjardóm

sem ævina telur í dögum.

Við áttum hér saman svo indæla stund

sem aldrei mér hverfur úr minni

og nú ertu genginn á guðanna fund

það geislar af minningu þinni.

(Friðrik Steingrímsson)

Guðrún, Pétur og fjölskylda.

Ég á margar og góðar minningar um þig, elsku frændi. Ég var um 10 ára gamall þegar ég fór mína fyrstu ferð með þér á mjólkurbílnum upp í Kjós. Ég man að dagana fyrir brottför svaf ég varla neitt af spenningi. Ég lagði af stað með rútunni frá Grindavík niður á BSÍ og labbaði svo þaðan til ömmu, afa og þín, þetta var mikið afrek fyrir mig. Það var yndislegt að koma á Hjarðarhagann. Ég man þú varst að hnýta flugur þegar mig bar að garði og að sjálfsögðu fékk ég að hnýta eina sem líktist helst agnarsmárri rottu, þú talaðir um að við myndum prófa hana við tækifæri.

Mér fannst sveitin sveipuð töfraljóma þegar þú fræddir mig um allt í kringum okkur í fyrstu ferðinni, en fljótlega komst þú ekki að fyrir masinu í mér, ég talaði og talaði um heima og geima, um skólann í Grindavík og hvað ég gerði í mínum frítíma. Ég held að þú hafir haft lúmskt gaman af því að skyggnast inn í líf mitt, a.m.k. gafstu mér alltaf eyra og tíma til að segja þér frá.

Við ræddum mikið um veiðar og óþrjótandi voru veiðisögurnar þínar sem ég hlustaði á af mikilli athygli. Ferðirnar mínar til þín í sveitina urðu allnokkrar og alltaf bættust við fleiri minningar og góðar samverustundir.

Ég veiddi maríulaxinn minn í Rangá með þér, við fórum á handboltaleiki saman og ég fékk að hjálpa þér að smíða uppi í bústað. Fyrstu laxveiðistöngina fékk ég frá þér og því gleymi ég seint. Þú gafst mér líka riffil sem pabbi hafði í sinni vörslu þangað til ég fengi byssuleyfi. Ég á riffilinn ennþá en hann er kominn í frí frá veiðum.

Ég vona að þér liði vel og að þú sért að veiða á fallegum stað með ömmu og afa þér við hlið. Ég þakka þér allar góðu stundirnar sem við áttum saman. Hvíl í friði elsku frændi, við sjáumst aftur seinna.

Deyr fé,

deyja frændur,

deyr sjálfur ið sama;

en orðstír

deyr aldregi,

hveim er sér góðan getur.

(Úr Hávamálum)

Þinn bróðursonur,

Valdimar Sveinsson

og fjölskylda.

Elsku besti frændi minn.

Nú þegar komið er að kveðjustund þá hrannast upp allar góðu minningarnar sem ég á um þig. Þá eru mér helst minnisstæðar stundirnar sem við áttum saman þegar við þeyttumst um Kjósina í mjólkurbílnum góða. Eins voru ferðirnar upp í sumarbústaðinn yndislegar og munu seint gleymast. Eftirminnilegast var þó þegar ég fékk að koma með þér í veiðiferðirnar í Laxá í Kjós.

Takk fyrir allt, elsku frændi minn, og megi guð geyma þig að eilífu.

Skúli.

Elsku Nonni minn.

Það er mér mikil huggun að hugsa til þess að þú sért nú umvafinn hlýju og ást hjá foreldrum þínum sem þú elskaðir svo mikið. Það eru ótalmargar minningar sem koma í hugann þegar ég hugsa um þig og allt eru þetta yndislegar og góðar minningar. Þú varst einstaklega hjartahlýr og góður maður, Jón, og þú varst alltaf tilbúinn að gera allt fyrir alla.

Mér eru minnisstæðar þær tíðu heimsóknir okkar systkina til þín á Hjarðarhagann þar sem alltaf var tekið vel á móti okkur. Þú hugsaðir svo vel um okkur, varst svo barngóður og skemmtilegur. Það væri fróðlegt að telja saman þær ferðir sem við systkinin fórum í ísbúðina góðu og keyptum okkur ís í brauðformi í boði þínu eða mömmu. Þá var alltaf svo skemmtilegt og ævintýralegt að koma í sumarbústaðinn þinn í Kjósinni sem þú byggðir. Annan eins gróður hef ég sjaldan séð á einu sumarbústaðarlandi og sýnir það hversu vel þú hugsaðir um það sem þér þótti vænt um.

Ég er svo glöð að þú og Snædís dóttir mín hafið hist í sumar og mun ég segja henni sögur af þér, elsku frændi, þegar hún verður stærri. Ég vil þakka þér fyrir allt, elsku Nonni minn, þú varst svo sannarlega gull af manni og ég er þakklát fyrir allar hlýju minningarnar sem þú skilur eftir þig.

Hvíl í friði, elsku frændi minn.

Þín frænka,

Íris.

HINSTA KVEÐJA

Þegar einhver fellur frá
fyllist hjartað tómi
en margur síðan mikið á
í minninganna hljómi.

Á meðan hjörtun mild og góð
minning örmum vefur
þá fær að hljóma lífsins ljóð
og lag sem tilgang hefur.

Ef minning geymir ást og yl
hún yfir sorgum gnæfir
því alltaf verða tónar til
sem tíminn ekki svæfir.
(K.H.)
Ég kveð þig, kæri bróðir, Guð geymi minningu um góðan dreng.
Stella Gunnarsdóttir.