Gunnlaugur Eggert Briem fæddist á Sauðárkróki 8. nóvember 1922. Hann lést 1. janúar 2014 á hjúkrunarheimili Hrafnistu í Kópavogi.

Foreldrar hans voru Kristinn P. Briem, f. 8.10. 1887, d. 18.6. 1970, kaupmaður á Sauðárkróki, og Kristín Björnsdóttir Briem, f. 17.12. 1889, d. 8.4. 1961, húsfreyja. Systkini Gunnlaugs voru Páll J. Briem, f. 6.4. 1912, d. 15.5. 2000, útibússtjóri, Björn Briem, f. 15.4. 1913, d. 28.9. 2009, Una Kristín Briem, f. 13.2. 1924, d. 3.9. 1924 og Elín Briem, f. 29.7. 1929, d. 10.6. 2008, húsfreyja. Uppeldissystir Gunnlaugs var Ásthildur Sigurrós Ólafsdóttir, f. 5.7. 1921, d. 15.10. 1999, bankaritari. Gunnlaugur kvæntist hinn 6.11. 1954 Hjördísi Á. Briem, f. 2.11. 1929, hjúkrunarfræðingi. Hún er dóttir Ágústs Kvaran, f. 16.8. 1894, d. 30.1. 1983, stórkaupmanns, leikara og leikstjóra, og Þórlaugar Björnsdóttur, f. 31.3. 1907, d. 23.7. 1999, húsfreyju. Börn Gunnlaugs og Hjördísar eru: 1. Valgerður Margrét, f. 9.7. 1956, gift Guðmundi Einarssyni, f. 18.9. 1954, rafvirkjameistara, Börn þeirra eru Arnar Geir, f. 5.1. 1983, sambýliskona hans er Ástríður Viðarsdóttir, f. 23.10. 1985, Brynja Dögg, f. 18.8. 1986, gift Þórarni Erni Þrándarsyni, f. 15.10. 1984 og Ásdís Rúna, f. 26.7. 1996. 2. Kristinn, f. 7.1. 1961, viðskiptafræðingur, kvæntur Kolbrúnu Sigurðardóttur, f. 26.6. 1961, bankastarfsmanni, synir þeirra eru Hafsteinn, f. 28.2. 1991 og Brynjar Orri, f. 25.4. 1997. Sambýliskona Hafsteins er Harpa Ásgeirsdóttir, f. 19.4. 1990 og er barn þeirra Marel, f. 4.6. 2013. Sonur Kristins er Gunnlaugur Már, f. 5.1. 1983 og er barn hans Ísabella Ósk, f. 17.6. 2008. 3. Gunnlaugur, f. 8.9. 1962, hljómlistarmaður, kvæntur Evu Briem Galambos, f. 16.7. 1977. Dætur Gunnlaugs eru Aníta Briem, f. 29.5. 1982, gift Constantine Paraskevopoulos, f. 24.3. 1972 og Katrín, f. 30.10. 1996. 4. Áslaug, f. 3.7. 1965, ferðamála- og viðskiptafræðingur, gift Tómasi Jónssyni, f. 9.4. 1962, hæstaréttarlögmanni, dætur þeirra eru Hjördís Maríanna, f. 31.5. 1992, Sara Hildur, f. 8.5. 1996 og Anna Rakel, f. 7.5. 2001.

Gunnlaugur lauk stúdentsprófi frá Menntaskólanum í Reykjavík árið 1943, embættisprófi í lögfræði frá Háskóla Íslands árið 1949. Hann stundaði framhaldsnám í réttarfari í opinberum málum í Svíþjóð og Danmörku 1950-51. Hann var fulltrúi hjá Sakadómaranum í Reykjavík 1949-61, var settur sakadómari 1961 og yfirsakadómari frá 1973. Árið 1982 var hann síðan skipaður yfirsakadómari og gegndi því embætti þar til hann lét af störfum fyrir aldurs sakir árið 1992. Gunnlaugur var auk þess dómari í Félagsdómi 1983-86, formaður Siglingadóms 1986-89, gegndi setudómarastörfum í nokkrum málum og var varadómari í Hæstarétti í einstökum málum á árunum 1984-92. Hann sat í stjórn Dómarafélags Íslands 1970-72, var endurskoðandi félagsreikninga 1977-78 og sat í nefnd til að endurskoða lög um meðferð opinberra mála árið 1985.

Útför Gunnlaugs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 9. janúar 2014, og hefst athöfnin kl. 13.

Pabbi minn.

Það eru margar hugsanir og minningar sem fara í gegnum huga minn núna þegar þú hefur kvatt okkur.

Ég hafði einhvern veginn haldið að þú yrðir hér um ókomna tíð en núna er allt eitthvað svo tómlegt án þín.

Þú varst þreyttur og saddur lífdaga, tjaldið féll og þú kallaður burt snemma að morgni nýársdags. Það var gott að geta verið hjá þér á þessum fallega degi og sjá litina í fjöllunum og á himninum þegar þú lagðir af stað í þína ferð inn í ljósið. Ég efast ekki um að vel hefur verið tekið á móti þér og að þú sért umvafinn kærleika og hlýju.

Takk fyrir allt, veiðitúrana, sumarbústaðaferðirnar, bækurnar, kennsluna og allan þinn stuðning sem þú sýndir mér sama hversu skrýtnar ákvarðanir ég tók. Þær voru allnokkrar. Þú varst bara til staðar, vissir alltaf ef eitthvað var að eða hjálp vantaði.

Stuðningur þinn og mömmu var mér og okkur öllum ómetanlegur. Pússa glugga og hjálpa til við að mála, skutla eða passa börnin okkar. Þú fylgdist vel með öllu sem fór fram og safnaðir oft úrklippum úr blöðum um tónlistar- og leiklistarstörf okkar í fjölskyldunni, keyptir vínylplötur í bænum og gafst mér. Þú varst glaðastur þegar talað var um bækur, listaverkin þín og menntun. Þú vildir halda í gömlu gildin og þér var slétt sama um internetið eða aðrar tækninýjungar, undir þér vel með góða bók og kaffibolla innan um fjölskylduna og með þínu fólki. Orð voru oft óþörf.

Mér þótti vænt um að geta farið með þér og mömmu norður í land fyrir nokkrum árum með viðkomu í Reykholti þar sem þú naust þess að drekka í þig söguna sem og að vitja gömlu heimahaganna á Sauðárkróki og fá að fara í gamla heimili þitt, Briems-húsið. Segja okkur frá fjallanöfnum og hvernig þau nöfn voru til komin, eitthvað sem maður hafði ekki hugmynd um, þó maður kynni á einhver tölvuforrit eða gæti barið húðir.

Ég ætla að halda minningu þinni á lofti, hvert sem ég fer og tónlist mín ásamt hljóðfæraleik mun verða á margan hátt tileinkuð minningu þinni um ókomna tíð.

Þú veittir mér innblástur með því að vera þú sjálfur alla tíð. Hvíldu í friði, pabbi minn.

Gunnlaugur.

Kæri tengdapabbi.

Um leið og ég kveð þig hinstu kveðju vil ég þakka þér, Gunnlaugur, fyrir fjölmargar einlægar samverustundir á þeim 33 árum sem við höfum þekkst. Þú varst mjög náinn okkur og tíður gestur á heimili okkar í Goðalandi. Þú lést þig varða heilsu okkar og líðan og gafst góð ráð ef einhver kenndi sér meins. Kannski hefðir þú frekar átt að verða læknir en lögfræðingur eins og þú ætlaðir þér upphaflega. Þú ræddir við okkur um persónuleg mál sem þér lágu á hjarta. Þú sýndir barnabörnum þínum áhuga og hvattir þau til dáða. Ég verð að minnast þinnar einstöku skapgerðar.

Þú varst einstaklega lítillátur, einlægur og umburðarlyndur. Ég minnist þess hvað þú hafðir takmarkalausa trú á mér, að ég gæti lagað alla veraldlega hluti sem biluðu heima hjá þér.

Síðustu 15 mánuðir hafa verið þér mjög erfiðir heilsufarslega. Nú þegar þú kveður okkur og heldur á vit forfeðra þinna fyllist ég tómleika en jafnframt gleði fyrir þína hönd. Hafðu þökk fyrir samfylgdina.

Guðmundur Einarsson.

Þegar nær dró fyrsta fundi mínum við verðandi tengdaföður sá ég eftir því að hafa ekki sinnt refsiréttinum betur í laganáminu. Gunnlaugur var þá yfirsakadómari í Reykjavík til margra ára en ég bara nýútskrifaður í faginu. Gott ef helstu hugtök voru ekki rifjuð upp til þess að vera viðbúinn spurningum hins harðskeytta dómara. En þetta voru óþarfa áhyggjur. Gunnlaugur hafði engan áhuga á því að hlýða mér yfir í fræðunum og mætti mér af hlýhug og sem jafningja. Hann sýndi mínum viðfangsefnum áhuga og kynnti mig strax fyrir sínum fjölmörgu áhugamálum, sem lutu mest að menningu og listum. Fáfræði mín í þeim efnum hefur örugglega valdið honum vonbrigðum en hann leyndi því vel. Þannig var Gunnlaugur. Hann sýndi öllum nærgætni og virðingu og talaði aldrei illa um nokkurn mann.

Gunnlaugur var látlaus og hafði létta og ljúfa lund. Þó að dómarastarfið hafi örugglega oft verið erfitt hafði hann sjaldan orð á því og lét það ekki trufla góðar samverustundir. Þá vildi hann frekar ræða málefni líðandi stundar, spyrja um barnabörnin eða ræða sín fjölmörgu áhugamál. Hann kom sér upp miklu safni góðra bóka og las þær flestar ef ekki allar. Hann hafði tök á mörgum tungumálum, þ.ám. latínu, og á yngri árum ferðaðist hann víða um lönd, stundum einsamall. Á langri ævi og án aðstoðar internetsins safnaði hann að sér miklum fróðleik, sem hann deildi óspart með öðrum. Börn og barnabörn nutu góðs af þekkingu og hjálpsemi hans við skólalærdóminn. Gunnlaugur vann jafnt og þétt að því að auðga sinn heim og þar með þeirra sem voru í kringum hann. Kenndi okkur á sinn hógværa hátt að meta menningu og listir.

Í sínu starfi var Gunnlaugur í fremstu röð og það féll oft í hans hlut að dæma í erfiðustu málunum. Hann átti farsælan dómaraferil sem einkenndist frekar af mannvirðingu og manngæsku en dómhörku. Margir ungir lögfræðingar störfuðu undir handleiðslu Gunnlaugs, þ.ám. nokkrir skólafélagar mínir, og hafa þeir borið á hann lof fyrir leiðsögnina og samstarfið.

Vegna starfa sinna öðlaðist Gunnlaugur virðingu samferðamanna en hann var þó umfram allt fjölskyldumaður. Fjölskyldan var ríkidæmi Gunnlaugs, sem hann ræktaði af mikilli alúð. Honum var sérstaklega annt um heilsufar sinna nánustu og hafði jafnan góð ráð á takteinum ef eitthvað bjátaði á. Litlu munaði að Gunnlaugur legði fyrir sig læknisfræði á yngri árum. Það hefði átt vel við hann.

Gunnlaugur hafði mikinn áhuga á skóg- og garðrækt og vann þrekvirki að rækta upp og skapa sumarpardís fyrir fjölskylduna við Silungatjörn, Sumarland. Heimili Hjördísar og Gunnlaugs var alltaf öruggt og kærleiksríkt skjól í lífsins ólgusjó og farsælt líf þeirra hjóna okkur mikil fyrirmynd.

Síðustu ár voru Gunnlaugi erfið sökum heilsubrests en þá kom best í ljós hversu vel hann hafði ræktað garðinn sinn. Hann átti skilyrðislausa ást allra sinna nánustu, sem sinntu honum ákaflega vel fram á síðasta dag. Tengdamóðir mín hefur sýnt sanna hetjulund í þeirri umönnun og á hún aðdáun mína og samúð.

Nærvera Gunnlaugs var alltaf hlý og þægileg og aldrei bar neinn skugga á samskipti okkar. Það voru mikil forréttindi að kynnast honum og hafa átt hann sem tengdaföður. Ég kveð Gunnlaug með söknuði og jafnframt þakklæti í huga.

Tómas Jónsson.

Elsku besti afi.

Mig langar að þakka þér fyrir allar góðu stundirnar sem þú hefur gefið. Ég hef verið lánsöm að eiga góðan afa sem hefur tekið mikinn þátt í lífi mínu. Ég er svo þakklát fyrir hversu góður þú hefur verið við mig í gegnum árin.

Ég fékk að alast upp með ömmu og afa í næstu götu. Ég man eftir því alveg frá því ég var á leikskólanum Kvistaborg hvað ég unni því mikið að koma í heimsókn eða pössun til ykkar. Það var ekki bara góði maturinn sem heillaði heldur var einstakt að finna hvað þið höfðuð alltaf mikinn áhuga á því sem ég var að fást við. Hvort sem það var skólinn, áhugamálin, heilsan eða annað. Alltaf varstu duglegur að fylgjast með, ráðleggja, aðstoða við heimanám og sýna umhyggju. Við áttum það sameiginlegt að tala mjög mikið um sömu hlutina og borða sama matinn. Þú hafðir mikinn áhuga á myndlist og bókum. Svo hugsaðir þú líka mikið um mataræðið og tókst heilsunni ekki sem sjálfsögðum hlut. Þú varst duglegur að fara út að ganga, talaðir um að fá auka d-vítamín og gekkst næstum daglega í Goðalandið. Síðasti göngutúrinn var eftirminnilegur þar sem þú komst gangandi með göngugrindina. Alltaf varstu samt mjög tillitssamur og lítillátur. Þú vildir ekki láta hafa fyrir þér og passaðir þig á því að vera aldrei að trufla.

Ég var ótrúlega heppin sem unglingur að geta gengið yfir til ykkar og fengið að gista þegar ég var komin með nóg af því að vera heima. Alltaf var mér tekið með opnum örmum og komið fram við mig eins og prinsessu. Mér finnst ómetanlegt að hafa fengið að búa hjá ykkur skólaárið 2007-2008 og virkilega gaman að fá að fara með ykkur í þína síðustu utanlandsferð til Danmerkur að heimsækja mömmu, pabba og Ásdísi. Það var gaman að umgangast þig, þú hafðir húmor og mér fannst við geta tengst á svo margan hátt í gegnum myndlistina, lögfræðina og heilsuna. Alltaf var eitthvað sem við gátum talað um. Þú hefur alltaf sýnt mér og öllum mínum verkefnum svo mikinn áhuga og verið ótrúlega hvetjandi.

Eins ótrúlega sárt og það er að kveðja þig þá veit ég að þú ert farinn á góðan stað þar sem þér líður vel. Þrátt fyrir að síðasta ár hafi verið þér erfitt og minni samskipti átt sér stað en áður, á ég frábærar minningar um hógværan mann, góða fyrirmynd, skemmtilegan kennara og einstakan vin.

Ég hugsa til þín þegar ég borða hvítan fisk, suðusúkkulaði og hveitiklíð, þegar ég keyri framhjá Laugardalslauginni eða geng leiðina sem þú gekkst gjarnan. Þú ferðaðist mikið og upplifðir margt. Ég óska þess að þú skiljir sáttur við lífið og hvílir í friði. Þín verður ávallt saknað.

Brynja Dögg.

Elskulegi afi minn.

Oft hef ég getað treyst á þig í lífinu og þú hefur alltaf verið til staðar fyrir mig. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til þín og ömmu í Hellulandið og við höfum verið lánsöm að búa í næstu götu við ykkur alla mína ævi. Elsku afi, þú hefur alltaf verið stór fyrirmynd fyrir mig og ég lít mikið upp til þín.

Þú varst góður, sanngjarn og vitur maður. Þú kunnir að meta listaverk og bækur og hafðir mikinn áhuga á því sem var að gerast í lífi mínu og við ræddum oft um skólann og námið. Þú naust þess að ferðast og þau skilaboð sem ég fékk frá þér síðasta árið voru að maður ætti að ferðast og njóta lífsins á meðan maður getur. Takk fyrir allt, afi minn, ég elska þig og mun minnast þín að eilífu.

Ásdís Rúna Guðmundsd. Briem.

Elsku afi okkar var einstakur maður, hjartahlýr og ljúfur. Hans líf og yndi voru menning, listir og bækur og nutum við systur góðs af því. Það var alltaf gott að koma í heimsókn til ömmu og afa í Hellulandið. Amma sá um veitingar og aðbúnað en afi um uppfræðsluna. Afi gaf okkur mikið af alls konar bókum og fleiri góðar gjafir sem við munum varðveita allt okkar líf. Við munum alltaf hugsa til hans þegar bækurnar verða lesnar.

Þótt okkur hafi ekki alltaf þótt bækur mjög spennandi á þeim tíma sem hann gaf okkur þær þá eru þær dýrmætar fyrir okkur núna. Hann vildi alltaf fræða okkur og hann miðlaði til okkar margvíslegri þekkingu. Það kom líka ósjaldan fyrir að hann laumaði til okkar nokkrum aurum sem komu sér afskaplega vel. Afa var alltaf annt um hvernig okkur gengi í lífinu og fylgdist vel með okkur. Spurði um okkar áhugamál, námsárangur og þegar við vorum veikar gaf hann góð ráð. Eitt það allra síðasta sem hann spurði mömmu um var hvernig við hefðum það.

En nú er kominn tími til að kveðja elsku afa okkar. Hans langa og gæfuríka lífshlaup er okkur góð fyrirmynd og færði okkur dýrmætar minningar og fróðleik sem við munum ætíð búa að.

Þegar við sáum afa í síðasta skipti náðum við að kveðja hann og nú trúum við því að hann sé kominn á betri stað, þar sem honum líður betur. Við trúum því líka að hann muni taka vel á móti okkur þegar að því kemur og vaka yfir okkur þangað til. Við söknum þín elsku afi.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

Gekkst þú með Guði,

Guð þér nú fylgi,

hans dýrðarhnoss þú hljóta skalt.

(Vald. Briem)

Þínar,

Hjördís Maríanna, Sara Hildur og Anna Rakel.

Elsku afi.

Það er ekki á hverjum degi sem maður fær að eiga jafn ljúfan og frábæran afa og þig en ég datt heldur betur í lukkupottinn og fékk að eiga margar dásamlegar stundir með þér þessi 17 ár ævi minnar.

Þú vaktir áhuga minn á íslenskum þjóðsögum og ævintýrum, og ekki var leiðinlegt að hlusta á sögur sem þú hafðir að segja í þau ótal skipti sem ég kom í heimsókn til ykkar ömmu í Helluland.

Er ég kveð þig núna get ég ekki annað en brosað hringinn á meðan ég hugsa til þeirra yndislegu stunda sem ég var svo heppin að eiga með þér. Ég er svo þakklát fyrir allt sem þú hefur gefið mér.

Hvíldu í friði, blessaður afi minn. Þú ert alltaf hjá mér í huganum – hvert sem ég fer.

Katrín.

Árið 1958 byggðum við hjónin í félagi við Gunnlaug og Hjördísi Briem húseignina að Rauðalæk 14 í Reykjavík. Risið og kjallarinn voru seld þegar á byggingarstigi en efri hæðina fluttum við í, ég og maðurinn minn Axel W. Einarsson. Gunnlaugur og Hjördís settust að á neðri hæðinni með elsta barn sitt, Völu. Gunnlaugur E. Briem, sem nú er kvaddur 91 árs gamall, og Axel, maðurinn minn, voru æskuvinir. Þeir kynntust í rútu á leið til Reykjavíkur, báðir að koma úr sveitadvöl. Þeir komust að því í rútunni að þeir áttu að fara um haustið í sama skóla. Þar með var lagður grundvöllur að góðum vinskap þeirra félaga, sem hélst alla tíð, líka eftir að þau Gunnlaugur og Hjördís fluttu í Helluland með börn sín, sem þá voru orðin fjögur.

Vinskapurinn og sambýlið gekk mjög vel og mátti þakka Gunnlaugi hve garðurinn á Rauðalæknum var ræktarlegur. Þau Hjördís komu sér síðar upp sumarbústað þar sem gott var að koma. Þar stundaði Gunnlaugur sín áhugamál, ræktun, veiðar og lestur, en hann var mikill bókaáhugamaður. Gunnlaugur var lánsmaður í sínu einkalífi, átti góða konu sem nú sér á bak ástríkum eiginmanni. Með þessum fáu orðum vil ég þakka trygga vináttu sem spannar hátt í 70 ár.

Það vill svo til að útför Gunnlaugs ber upp á sömu dagsetningu og jarðarför Axels míns, 9. janúar fyrir réttum tíu árum. Ég sendi Hjördísi, börnum þeirra hjóna og fjölskyldu allri innilegar samúðarkveðjur.

Edda Jónsdóttir

og fjölskylda.