Fyrir nokkrum áratugum spáði Andy Warhol því að í framtíðinni yrðu allir frægir í fimmtán mínútur.

Fyrir nokkrum áratugum spáði Andy Warhol því að í framtíðinni yrðu allir frægir í fimmtán mínútur. Víkverja varð hugsað til þessara orða eftir fréttir helgarinnar, þar sem hann frétti fyrst af tilvist Vine-samfélagsmiðilsins, sem gerir gott um betur en Warhol spáði, og skammtar notendum sínum sex sekúndur af frægð í formi misskondinna myndbanda. Á grundvelli þeirrar skammtímafrægðar höfðu nefnilega tveir útlenskir smápjakkar náð því markmiði að vera sem goðum líkastir í Smáralindinni síðastliðinn sunnudag, með tilheyrandi eignaskemmdum, yfirliði og troðningi.

Sem betur fer ákváðu Víkverji og frú að versla í Kringlunni þennan sunnudaginn og losnuðu því við það að sjá íslensk ungmenni öskra líkt og Bítlarnir, Elvis og Jesús hefðu ákveðið að koma saman og væru allir mættir þarna í íslenskan verslunarkjarna. Víkverji og frú eru bæði rétt svo nýskriðin á fertugsaldurinn, og reyna eftir megni að fylgjast með stefnum og straumum, svona til þess að halda í það sem eftir lifir af æskuárunum. Höfðu Víkverjahjón þó hvorugt nokkra hugmynd um það hvaða andans menn höfðu verið þarna á ferðinni. Víkverja hefur sjaldnar liðið eins og meira gamalmenni, fyrir að vita ekki hverjir þessir menn væru. Ja, fussum svei!

En allt fram streymir víst endalaust og árin og dagarnir líða. Víkverji var kominn langt með að fordæma unglingakynslóðina fyrir að eltast við hvaða tískubólu sem er og veita hverjum sem er mjög svo óverðskuldaða, en sem betur fer skammvinna frægð. Þá leit hann í eigin barm. Kynslóð Víkverja var alls ekkert betri. Setningin „en hann er svo sætur,“ heyrðist alveg jafnoft þá og nú, og líklega eru þeir jafnmargir þá og nú sem hlutu frægð á þessum mektarárum Víkverja án þess að eiga neina innistæðu fyrir henni. Án þess að Víkverji þori að fullyrða það var kynslóð foreldra hans eflaust líkt farið. Víkverji hefur því stigið eitt skrefið enn til grafarinnar.